Náttúruvá á Íslandi

Birta á :

.

Í lok janúar sl. kom út bókin Náttúruvá á Íslandi.  Bókin sem fjallar um eldgos og jarðskjálfta á Íslandi er gríðarlega efnismikil, tæplega 800 síður og um 1000 ljósmyndir og skýringarmyndir.  Það sem okkur hjá eldgos.is þykir þó merkilegast er að í þessari bók er birt mikið af upplýsingum sem rannsóknir allra síðustu ár hafa leitt í ljós um t.d. einstök eldstöðvakerfi og jarðskjálftasvæði.  Þessar upplýsingar hafa ekki verið aðgengilegar fyrir almenning áður.  Það er Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan sem gefa bókina út.

Nærri 60 manns, flestir færustu vísindamenn þjóðarinnar á þessum sviðum, leggja til efni í þetta mikla verk en aðalritstjóri er Júlíus Sólnes, ritstjóri eldgosakaflanna er Freysteinn Sigmundsson og ritstjóri jarðskjálftahlutans er Bjarni Bessason.  Bókinni er ætlað að vera bæði fræðirit fyrir almenning og uppsláttarrit fyrir vísindamenn.  Síðuhöfundur tók sér drjúgan tíma til að kynna sér þessa bók áður en þessi færsla var skrifuð og má segja að hér á eftir komi léttur ritdómur!

Kostir bókarinnar eru að í einni bók eru nánast allar upplýsingar um eldgos og jarðskjálfta á Íslandi samankomnar og skýringarmyndirnar eru margar sérstaklega góðar.  Einstaka jarðfræðikort eru þó ekki nógu skýr, þ.e. litirnir líkjast hver öðrum fullmikið svo erfitt getur verið að átta sig á hvað er hvað.  Þá er skemmtilegur kafli um sögu jarðvísindanna og jarðsögu Íslands eru gerð góð skil.  Innri gerð eldfjalla eru gerð ýtarleg skil, þá eru sérstakir kaflar um jökulhlaup og flóðbylgjur.

Kaflarnir um eldgos og einstök eldstöðvakerfi eru flestir hverjir ýtarlegir og yfirgripsmiklir en þó yfirleitt skrifaðir þannig að þeir ættu að vera auðskiljanlegir.  Maður saknar einna helst í bókinni yfirgripsmeiri annáls um eldgos síðan land byggðist – en það skiptir ekki máli því hann er að finna hér á þessari síðu!   Seinni hluti bókarinnar fjallar um jarðskjálfta.  Þeir kaflar eru óhjákvæmilega dálítið þyngri svona fyrir leikmenn, enda í sjálfu sér ekki annað hægt því erfitt er að fjalla á fræðilegan hátt um jarðskjálfta án þess að eðlisfræði komi við sögu sem dæmi.

Í heildina er um sérlega metnaðarfullt og mikið verk að ræða sem við getum algjörlega mælt með.  Bókin er ekki ódýr enda var henni áreiðanlega ekki ætlað að vera það.  Besta verðið sem við höfum séð er hjá Bóksölu Stúdenta kr. 17.895.

Á næstunni er ætlunin að yfirfara síðurnar á eldgos.is  um einstök eldstöðvakerfi með tilliti til nýrra upplýsinga m.a. sem koma fram í þessari bók.  Höfundaréttar verður að sjálfsögðu gætt.

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top