Útlitsþemað sem Eldgos.is notast við er orðið nokkuð gamalt og þjónar illa nútímakröfum um viðmót á snjallsímum og spjaldtölvum auk þess sem nýjustu uppfærslur á WordPress og viðbótum vinna ekki með þessu þema. það hefur staðið til í nokkurn tíma að fara í þessar breytingar en svo hófust umbrotin á Reykjanesskaga og það var varla hægt að taka niður vefinn meðan staðan var frekar óljós. Nú virðist ástandið þar nokkuð stöðugt fyrir utan nýjar opnanir af og til á gossprungunni og má allt eins gera ráð fyrir langvarandi gosi.
Þessi vinna hefst væntanlega í fyrramálið, mánudagsmorgunn og vonandi gerist ekkert stórfenglegt á meðan!
Um kl. 3 í nótt mátti sjá á Vefmyndavél Mbl.is nýr gígur opnaðist nokkurnveginn á milli gíganna sem opnuðust um páskana. Hér er talað um nýjan gíg frekar en gossprungu því vissulega liggja allir gígarnir sem hafa opnast í röð á sömu gossprungunni. Þessi sprunga liggur yfir kvikuganginum margumtalaða sem nær frá Nátthaga að Keili og má reikna með að nýir gígar geti opnast hvar sem er á því svæði.
Það virðist sem allir fimm gígarnir sem hafa opnast séu vel virkir og hraunrennslið kann því enn að vera að aukast. Nú hefur gosið staðið í þrjár vikur og er algjörlega á skjön við flest þekkt eldgos á Íslandi hvað hegðun varðar. Oftast er mesti krafturinn í eldgosum til að byrja með og því engin furða að menn töldu gosið ekki verða langlíft miðað við mjög rólega opnun. En virknin og hraunrennslið hefur smámsaman verið að aukast í gosinu, sérstaklega síðustu vikuna.
Hér hefur þetta verið flokkað sem dyngjugos þó engin sé dyngjan enn sem komið er. Ástæðan fyrir því er efnasamsetning kvikunnar sem er mjög lík efnasamsetningu hrauna úr stóru dyngjunum á Reykjanesskaganum. Möttulgos væri kanski heppilegri skilgreining því gosið á það einnig sameiginlegt með dyngjunum að kvikan streymir beint frá möttli af miklu dýpi.
Eins og gosið er að haga sér þá kæmi það hreinlega á óvart ef því lýkur í bráð. Þeim sem þessar línur ritar þykir líklegast að það vari mánuðum saman í það minnsta en haldi sig við sprunguna sem liggur yfir kvikuganginum. Ástæðan er auðvitað stöðugt rennsli úr möttli, þar er væntanlega allstór kvikugeymsla sem þarf að tappa af. Ekki er ólíklegt að gígar opnist nær Keili á næstu vikum eða mánuðum og jafnvel suður af Geldingadölum niður í Nátthaga.
Það er ólíklegt að hraunrennsli muni ógna Suðurstrandavegi eða öðrum mannvirkjum nema gosið standi mjög lengi, í það minnsta 4-6 mánuði, nema gígar opnist í grennd við Nátthaga. Hraunið mun fyrst og fremst hlaðast upp í nágrenni gíganna í Geldinga- og Merardölum áður en það nær að renna útaf því svæði. Meradalir eru allmikið flatlendi og þarf að gjósa lengi áður en hraun nær að renna frá þeim. Þetta sést betur á meðfylgjandi korti frá Veðurstofu Íslands.
Meðfylgjandi kort er á vef Veðurstofu Íslands og sýnir legu eldstöðvanna.
Um miðnætti í nótt, reyndar afskaplega stundvíslega á miðnætti, opnaðist ný gossprunga í Fagradalsfjalli. Opnaðist hún á milli gosstöðvanna í Geldingadölum og fyrir ofan Merardali. Hraun rennur frá nýju sprungunni niður í Geldingadali þar sem það mætir hrauninu sem þar hefur runnið áður.
Skjáskot af vefmyndavél Rúv frá því í nótt. Bjarminn í miðjunni er nýjasta gossprungan.
Í raun er þetta allt á sömu sprungunni, þ.e. yfir kvikuganginum margumtalaða sem liggur frá Keili í norðaustri niður að Nátthaga í suðvestri. Þetta er því tæplega 1 km löng slitrótt gossprunga eins og er þar sem þrjár meginopnanir eða gígar eru virkir. Þessi sprunga getur vel lengst og telja jarðfræðingar mestar líkur á að hún lengist í norðaustur þ.e. í átt að Keili. Minni líkur eru taldar á að hún rifni upp í grennd við Nátthaga þar sem ekki hefur orðið vart við neinar landbreytingar þar, svosem yfirborðssprungur.
Nú koma upp um 7-10 rúmmetrar af kviku á sekúndu sem er talsverð aukning frá því sem var þegar einungis gígarnir í Geldingadölum voru virkir. Það er því nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að þessu gosi sé að ljúka í bráð.
Um hádegisbilið í dag opnaðist skyndilega um 200 metra löng gossprunga u.þ.b. 600 metrum norðaustur af eldri gígunum. Skömmu síðar opnaðist önnur minni sprunga dálítið vestar. Hraun rennur um þröngan farveg niður í Meradali þar sem það breiðir úr sér. Við fyrstu sýn virðist lítið hafa dregið úr gosinu í eldri gígunum þannig að hér gæti verið um hreina viðbót í gosefnaframleiðslu að ræða. Gossprungurnar eru á því svæði sem talið var að kvikugangurinn næði frá eldstöðinni í átt að Keili.
Talað hafði verið um að kvikan í þeim gangi væri storknuð og lítil hætta á gosi þar. Þetta breytir þeirri sviðsmynd talsvert. Suðvesturendi þessa gangs er í Nátthaga og verður því að gera ráð fyrir að þar geti opnast sprunga en gönguleiðin upp í Geldingadali liggur um það svæði. Það þarf væntanlega að endurskoða gönguleiðina eftir þessa atburði.
Það verður að gera ráð fyrir að gosið geti svo að segja hvar sem er yfir þessum kvikugangi , frá Keili og niður í Nátthaga. Þetta er nær örugglega kvika úr sömu uppsprettu og úr gömlu gígunum, þ.e. beint úr möttli en rannsóknir á efnainnihaldi þarf til að staðfesta það.
Vefmyndavél Rúv fangaði nýju sprungurnar örstuttu eftir að þær opnuðust og sýnir nú beint frá nýju sprungunum.
Vefmyndavél Rúv fangaði gosið skömmu eftir að það hófst úr fyrri sprungunni sem opnaðist. Hér sést skjáskot þegar gosið var nokkurra mínútna gamalt.
Mynd frá Facebook síðu almannavarna. hraunið rennur hratt í mjórri rás niður í Meradali.
Önnur mynd frá Almannavörnum. Hraunáin niður í Meradali þar sem hraunið byrjar að breiða úr sér. Þetta er fyrsta hraunrennslið niður í Meradali í þessu gosi en búist hafði verið við að hraun úr eldri gígunum tæki að renna þangað á næstu dögum.
Nú hefur krafturinn í gosinu í Geldingadölum haldist nær óbreyttur frá því eftir fyrstu gosnóttina þegar það var hvað öflugast. Magnesíumrík kvikan likist mjög kviku úr stóru dyngjunum á Reykjanesskaganum, t.d. Þráinsskildi. Eina sjáanlega breytingin á gosinu er upphleðsla gíganna. Tveir gígar eru virkir. Haft er á milli þeirra sem gæti verið um 10 metra breytt. Haldi gosið áfram munu gígarnir vafalaust sameinast.
Eins og margoft hefur komið fram þá er þetta gos að mörgu leiti algjörlega einstakt. Jafn frumstæð kvika og er þarna að koma upp hefur ekki komið upp á Íslandi í þúsundir ára, líklega um 5000 ár hið minnsta. Frumstæð kvika er kvika sem kemur upp úr möttlinum af um 15-20 km dýpi.
Hve lengi getur gosið? Margir spyrja þessarar spurningar. Ef horft er til kvikugerðarinnar og nálægar stórar dyngjur þá hlóðust þær upp á áratugum. Fræðilega er því mögulegt að þetta gos standi yfir í einhverja áratugi. Það veltur á því hve mikil kvika er í því hólfi sem hún streymir upp úr. Það gæti verið mikið magn því það hefur ekki gosið í þessu eldstöðvakerfi í um 6000 ár. Hinsvegar er kvikurennslið afar lítið, aðeins um 5 rúmmetrar á sekúndu sem er rétt rúmlega Ellliðaárnar að magni. Það þarf því varla miklar breytingar á aðstæðum til þess að það stöðvist, t.d. að jarðskjálftar loki kvikurásinni.
Miðað við þetta rennsli þá koma upp um 0,2 rúmkílómetrar af kviku á ári. Til samanburðar þá komu upp í Holuhrauni um 1,4 rúmkílómetrar af kviku og stóð gosið í um 6 mánuði. Til þess að mynda dyngju á stærð við Þráinsskjöld sem er um 5 km3 þarf að gjósa af sama afli og nú er í gosinu í 25 ár!
Skjáskot af beinu streymi Rúv frá eldgosinu.
Gosinu var í upphafi ekki spáð langlífi en sjáum hvað setur. Annað er líka forvitnilegt, það er hvort dyngjugosin áður fyrr hafi verið hluti af gos- og rekhrinum á skaganum eða hvort þau hafi komið upp utan við þessi hefðbundnu virku gosskeið. Það gæti breytt myndinni því þegar þetta gos hófst þá voru flestir á því að nú væri hafið gosskeið á Reykjanesskaga þar sem nokkur gos koma upp á fáeinum áratugum, svo eitthvað hlé, svo önnur slík hrina og þannig koll af kolli í 3-5 aldir. Talið var að slík hrina mundi hefjast í Brennisteinsfjallakerfinu. Það er því allt eins útlit fyrir það að ef þetta gos stendur árum saman að við fáum annað gos á skaganum samhliða þessu sem yrði þá hefðbundið sprungugos. En þetta kemur allt í ljós, einungis vangaveltur um framtíð eldvirkni á Reykjanesskaga.
Ruv.is og Mbl.is bjóða uppá beint streymi frá gosinu sem er alveg frábær þjónusta.