Gosið tveggja vikna gamalt – Stöðugt hraunrennsli
Nú hefur krafturinn í gosinu í Geldingadölum haldist nær óbreyttur frá því eftir fyrstu gosnóttina þegar það var hvað öflugast. Magnesíumrík kvikan likist mjög kviku úr stóru dyngjunum á Reykjanesskaganum, t.d. Þráinsskildi. Eina sjáanlega breytingin á gosinu er upphleðsla gíganna. Tveir gígar eru virkir. Haft er á milli þeirra sem gæti verið um 10 metra breytt. Haldi gosið áfram munu gígarnir vafalaust sameinast.
Eins og margoft hefur komið fram þá er þetta gos að mörgu leiti algjörlega einstakt. Jafn frumstæð kvika og er þarna að koma upp hefur ekki komið upp á Íslandi í þúsundir ára, líklega um 5000 ár hið minnsta. Frumstæð kvika er kvika sem kemur upp úr möttlinum af um 15-20 km dýpi.
Hve lengi getur gosið? Margir spyrja þessarar spurningar. Ef horft er til kvikugerðarinnar og nálægar stórar dyngjur þá hlóðust þær upp á áratugum. Fræðilega er því mögulegt að þetta gos standi yfir í einhverja áratugi. Það veltur á því hve mikil kvika er í því hólfi sem hún streymir upp úr. Það gæti verið mikið magn því það hefur ekki gosið í þessu eldstöðvakerfi í um 6000 ár. Hinsvegar er kvikurennslið afar lítið, aðeins um 5 rúmmetrar á sekúndu sem er rétt rúmlega Ellliðaárnar að magni. Það þarf því varla miklar breytingar á aðstæðum til þess að það stöðvist, t.d. að jarðskjálftar loki kvikurásinni.
Miðað við þetta rennsli þá koma upp um 0,2 rúmkílómetrar af kviku á ári. Til samanburðar þá komu upp í Holuhrauni um 1,4 rúmkílómetrar af kviku og stóð gosið í um 6 mánuði. Til þess að mynda dyngju á stærð við Þráinsskjöld sem er um 5 km3 þarf að gjósa af sama afli og nú er í gosinu í 25 ár!
Gosinu var í upphafi ekki spáð langlífi en sjáum hvað setur. Annað er líka forvitnilegt, það er hvort dyngjugosin áður fyrr hafi verið hluti af gos- og rekhrinum á skaganum eða hvort þau hafi komið upp utan við þessi hefðbundnu virku gosskeið. Það gæti breytt myndinni því þegar þetta gos hófst þá voru flestir á því að nú væri hafið gosskeið á Reykjanesskaga þar sem nokkur gos koma upp á fáeinum áratugum, svo eitthvað hlé, svo önnur slík hrina og þannig koll af kolli í 3-5 aldir. Talið var að slík hrina mundi hefjast í Brennisteinsfjallakerfinu. Það er því allt eins útlit fyrir það að ef þetta gos stendur árum saman að við fáum annað gos á skaganum samhliða þessu sem yrði þá hefðbundið sprungugos. En þetta kemur allt í ljós, einungis vangaveltur um framtíð eldvirkni á Reykjanesskaga.
Ruv.is og Mbl.is bjóða uppá beint streymi frá gosinu sem er alveg frábær þjónusta.