Um kl. 3 í nótt mátti sjá á Vefmyndavél Mbl.is nýr gígur opnaðist nokkurnveginn á milli gíganna sem opnuðust um páskana. Hér er talað um nýjan gíg frekar en gossprungu því vissulega liggja allir gígarnir sem hafa opnast í röð á sömu gossprungunni. Þessi sprunga liggur yfir kvikuganginum margumtalaða sem nær frá Nátthaga að Keili og má reikna með að nýir gígar geti opnast hvar sem er á því svæði.
Það virðist sem allir fimm gígarnir sem hafa opnast séu vel virkir og hraunrennslið kann því enn að vera að aukast. Nú hefur gosið staðið í þrjár vikur og er algjörlega á skjön við flest þekkt eldgos á Íslandi hvað hegðun varðar. Oftast er mesti krafturinn í eldgosum til að byrja með og því engin furða að menn töldu gosið ekki verða langlíft miðað við mjög rólega opnun. En virknin og hraunrennslið hefur smámsaman verið að aukast í gosinu, sérstaklega síðustu vikuna.
Hér hefur þetta verið flokkað sem dyngjugos þó engin sé dyngjan enn sem komið er. Ástæðan fyrir því er efnasamsetning kvikunnar sem er mjög lík efnasamsetningu hrauna úr stóru dyngjunum á Reykjanesskaganum. Möttulgos væri kanski heppilegri skilgreining því gosið á það einnig sameiginlegt með dyngjunum að kvikan streymir beint frá möttli af miklu dýpi.
Eins og gosið er að haga sér þá kæmi það hreinlega á óvart ef því lýkur í bráð. Þeim sem þessar línur ritar þykir líklegast að það vari mánuðum saman í það minnsta en haldi sig við sprunguna sem liggur yfir kvikuganginum. Ástæðan er auðvitað stöðugt rennsli úr möttli, þar er væntanlega allstór kvikugeymsla sem þarf að tappa af. Ekki er ólíklegt að gígar opnist nær Keili á næstu vikum eða mánuðum og jafnvel suður af Geldingadölum niður í Nátthaga.
Það er ólíklegt að hraunrennsli muni ógna Suðurstrandavegi eða öðrum mannvirkjum nema gosið standi mjög lengi, í það minnsta 4-6 mánuði, nema gígar opnist í grennd við Nátthaga. Hraunið mun fyrst og fremst hlaðast upp í nágrenni gíganna í Geldinga- og Merardölum áður en það nær að renna útaf því svæði. Meradalir eru allmikið flatlendi og þarf að gjósa lengi áður en hraun nær að renna frá þeim. Þetta sést betur á meðfylgjandi korti frá Veðurstofu Íslands.