Sprunga opnaðist á milli jarðeldanna í nótt

Birta á :

Um miðnætti í nótt, reyndar afskaplega stundvíslega á miðnætti, opnaðist ný gossprunga í Fagradalsfjalli.  Opnaðist hún á milli gosstöðvanna í Geldingadölum og fyrir ofan Merardali.  Hraun rennur frá nýju sprungunni niður í Geldingadali þar sem það mætir hrauninu sem þar hefur runnið áður.  

Skjáskot af vefmyndavél Rúv frá því í nótt. Bjarminn í miðjunni er nýjasta gossprungan.

Í raun er þetta allt á sömu sprungunni, þ.e. yfir kvikuganginum margumtalaða sem liggur frá Keili í norðaustri niður að Nátthaga í suðvestri.  Þetta er því tæplega 1 km löng slitrótt gossprunga eins og er þar sem þrjár meginopnanir eða gígar eru virkir.  Þessi sprunga getur vel lengst og telja jarðfræðingar mestar líkur á að hún lengist í norðaustur þ.e. í átt að Keili.  Minni líkur eru taldar á að hún rifni upp í grennd við Nátthaga þar sem ekki hefur orðið vart við neinar landbreytingar þar, svosem yfirborðssprungur.  

Nú koma upp um 7-10 rúmmetrar af kviku á sekúndu sem er talsverð aukning frá því sem var þegar einungis gígarnir í Geldingadölum voru virkir.  Það er því nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að þessu gosi sé að ljúka í bráð.

Scroll to Top