Í nótt sem leið gekk snörp skjálftahrina yfir í Kötlu. Stærsti skjálftinn mældist M 4,4 en alls hafa 8 skjálftar mælst yfir M 3 sem er ansi mikið og frekar óvanalegt á svo stuttum tíma í Kötlu. Stóri skjálftinn fannst vel í Þórsmörk en líklega ekki annarsstaðar í byggð. Skjálftarnir eiga upptök sín í norðaustanverðri Kötluöskjunni en þar eru hrinur algengar. Ástæðan er talin vera aukin jarðhitavirkni fremur en kvikuhreyfingar en þó verður að benda á það að aukin jarðhitavirkni er nú oftast afleiðing einhvernskonar kvikuhreyfinga enda er það kvikan sem veldur jarðhitanum.
Aukin rafleiðni hefur mælst í Múlakvísl og bræðsluvatn því að berast í ána. Varla er hægt að tala um hlaup amk. enn sem komið er.
Þetta er mesta virkni í Mýrdalsjökli síðan 2016 og nú þegar hafa mælst fleiri skjálftar i jöklinum en allt árið 2022 og 2021 sem dæmi. Yfirleitt er mesta virknin síðsumars eða á haustin, þ.e. ágúst- október og því gætu verið nokkuð fjörugir mánuðir framundan í Kötlu. Goshlé er sem kunnugt er orðið það lengsta frá landnámi í eldfjallinu en skjálftavirknin sýnir enn og aftur að Katla er bráðlifandi.