Snarpir skjálftar í Mýrdalsjökli

Birta á :

Milli kl. 9 og 10 í morgun hófst óvenju öflug jarðskjálftahrina í Mýrdalsjökli.  Stærsti skjálftinn mældist M 4,8 og tveir aðrir M 4,5 og 4,4.  Þetta eru öflugasta skjálftahrina í jöklinum frá því árið 2016.   Stærsti skjálftinn er þó líklega öflugasti skjálfti í Mýrdalsjökli síðan 1977 eða í 46 ár.  

 Upptök skjálftanna eru í norðaustanverðri Kötluöskjunni, þar sem eru þekkt jarðhitasvæði.  Flest bendir einmitt til þess að skjálftarnir tengist jarðhitasvæðunum frekar en kvikuhreyfingum þar sem skjálftarnir eru mjög grunnir.  Einkenni kvikuhreyfinga eru margir smáir skjálftar á talsverðu eða miklu dýpi. Því er ekki fyrir að fara hér, amk. ekki eins og staðan er núna.

Myndin er fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í Mýrdalsjökli.

Það er því ólíklegt að þessir skjálftar séu undanfari eldgoss en heldur ekki hægt að útiloka það.  Tímasetningin er frekar óvenjuleg því yfirleitt er mestur órói í Kötlu á haustin eftir sumarleysingar í jöklinum. 

Skjálftarnir eru hinsvegar óvenju stórir miðað við skálfta af völdum vatns og jarðhita.  Það er ekki hægt að útiloka hlaup úr þeim jarðhitakötlum sem óróinn er mögulega tengdur og verður eflaust vel fylgst með því næstu sólarhringana.

Það hefur verið nokkuð um skjálfta undanfarnar vikur í Kötlu, mun meira en venjulega er á þessum árstima.   

 

Scroll to Top