KVIKUINNSKOT UNDIR FAGRADALSFJALL-MIKILL FJÖLDI SMÁSKJÁLFTA

Birta á :
Skjáskot af vefnum https://vafri.is/quake og sýnir upptök skjálftanna

Mjög þétt smáskjálftavirkni hófst við Fagradalsfjall síðdegis í dag og hefur ef eitthvað er orðið öflugri eftir því sem hefur liðið á kvöldið.  Nær öruggt má telja að þetta sé kvikuinnskot.  Skjálftarnir eru enn sem komið er smáir en mjög þéttir.  Fáir þeirra hafa fundist.  Sambærileg kvikuinnskot voru fyrirboðar eldgosanna árið 2021 og 2022.  Einnig átti sér stað kvikuinnskot í desember 2021, nokkrum mánuðum eftir að fyrra gosinu lauk en það stöðvaðist áður en það náði til yfirborðs.

Enn er óljóst hve mikil kvika er þarna á ferðinni og hversu djúpt innskotið liggur.  Upptök skjálftanna eru á svipuðum slóðum og eldgosin urðu á.  Er því langlíklegast að ef gos hefst þá verður það á svipuðum slóðum og áður.  Það er reyndar mjög heppileg staðsetning. 

Rólegt hefur verið á Reykjanesskaganum síðan eldgosinu lauk í ágúst á síðasta ári en nú virðast þau rólegheit yfirstaðin.  Landris virðist hafa hafist í apríl síðastliðinn og nemur um 2-3 cm á víðáttumiklu svæði á skaganum.  Það bendir til þess að kvika sé að safnast fyrir á allmiklu dýpi og sú kvika er væntanlega að leita ofar núna í formi innskots.  Hvort eldgos verði á næstu dögum eða vikum er of snemmt að segja til um en allavega er ljóst að rólegheitatímabilinu eftir síðasta gos er lokið.

UPPFÆRT 5.JÚLÍ KL. 12:32

Verulega bætti í skjálftahrinuna í nótt og í morgunsárið urðu skjálftar af stærð M 4,8 og M 4,5 sem fundust allvíða á suðvesturlandi.  Skjálftarnir eru grynnri og kvikan því að færast nær yfirborðinu á svæði á milli Keilis og Meradala þar sem gaus í fyrrasumar.  Líkur á gosi hafa aukist mikið og hafa Almannavarnir lýst yfir óvissustigi.  

Scroll to Top