Gosið mánaðargamalt – Samantekt

Birta á :

19. Apríl 2021

Nú er réttur mánuður síðan eldgos hófst í Fagradalsfjalli.  Gosið var í upphafi mjög lítið og var því ekki spáð langlífi. 

Allar forsendur breyttust þó þegar efnagreining á kvikunni lá fyrir nokkrum dögum síðar. Þá kom í ljós að um frumstætt basalt var að ræða, ættað af miklu dýpi úr möttli jarðar, 17-20 kílómetra dýpi.  Eldgos af þessari tegund hefur ekki orðið á Íslandi í þúsundir ára, líklega í um 6000 ár.  Dyngjur landsins eru flestar hlaðnar upp úr þessari tegund basalts og vitað er að þau gos stóðu mjög lengi, sum hver í áratugi.

Þennan mánuð sem liðinn er frá upphafi gossins hefur það ef eitthvað er gefið í, nú koma um 7,5 rúmmetrar á kviku upp á sekúndu en var til að byrja með um 5 rúmmetrar.  Það er því ekkert sem bendir til annars en að gosið muni malla áfram næstu vikur, jafnvel mánuði og ár.

Helstu staðreyndir um gosið:

 

  • Gosið hófst á stuttri sprungu sem hefur rifnað upp á nokkrum stöðum síðan.  Alls voru 8 gosop virk en líklega er hætt að gjósa úr því nyrsta.
  • Gosið er það fyrsta á Reykjanesskaganum síðan árið 1240 eða í 781 ár og það fyrsta í Fagradalsfjallskerfinu í um 6000 ár.
  • Hraunrennsli hefur farið úr um 5 m3 á sekúndu upp í um 7,5 m3 á sekúndu. það gerir uþb. helming af hraunrennsli gossins á Fimmvörðuhálsi og um 6% af meðalhraunrennsli gossins í Holuhrauni. 
  • Heildarrúmmál hrauns er nú áætlað um 14,4 rúmmetrar.  Það gera um 0,014 rúmkílómetrar.  Sem dæmi komu upp um 1,4 rúmkílómetrar af hrauni úr Holuhraunsgosinu og þyrfti því að gjósa í um 100 mánuði í viðbót, eða rúm 8 ár til að ná því gosi hvað hraunflæði varðar, miðað við svipaðan gang í gosinu áfram.
  • Mjög litlar líkur eru á að gosið muni ógna einhverjum innviðum eða mannvirkjum nema það standi mjög lengi.  Líklegt er að hraunið hlaðist frekar upp í kringum gosstöðvarnar fremur en að renna langar leiðir.

Óróamælingar Veðurstofunnar er að finna á þessari vefslóð.  Skrolla niður að Fagradalsfjalli.  Mismunandi litir þýðir mismunandi tíðnisvið.  Blátt er hátíðni, grænt lægri tíðni og fjólublátt lægsta tíðnin.  Þessar línur fylgjast þó gjarnan að en athyglisvert er að nýir gígar hafa opnast þegar óróinn eykst og snarminnkar síðan eins og gerðist síðla dags 17/4.

Óróamælingar eru vissulega mikilvægar en hinsvegar er margt sem getur truflað þær, t.d. veður og brim.  Mikill vindur hefur þannig áhrif á jarðskjálftamælingar, minnstu skjálftarnir greinast illa þegar vindstyrkur er hár.

 

Scroll to Top