Nú hefur ekki verið teljandi virkni í gosinu í Geldingadölum í tvær vikur. Í gær hófst skjálftavirkni skammt suðvestur af Keili, á sömu slóðum og skjálftahrinan hófst í undanfara eldgossins.
Hvað þessi nýja skjálftavirkni þýðir er ekki endilega augljóst ,nema hvað að umbrotunum er hvergi nærri lokið. Þessir skjálftar eru flestir á 6-7 km dýpi og eru þess eðlis að þarna virðist vera kvika á ferð. Stærstu skjálftarnir eru á milli M 3,0 og 3,5. Mögulega er þarna einhver fyrirstaða eða stífla í kvikuganginum, þ.e. kvikan er enn að leita yfirborðs en kemst ekki þá leið sem hún fór áður að Fagradalsfjalli. Þetta gæti þýtt aukna skjálftavirkni á næstunni þangað til kvikan nær að ryðja sér leið til yfirborðs. Líklegasti staðurinn fyrir gos er nú samt sem áður núverandi gosstöðvar.
Það sem aðskilur þessi umbrot frá hefðbundnum eldsumbrotum á Reykjanesskaga er uppruni kvikunnar. Kvikan er upprunnin á 17-20 km dýpi í möttli og í flestum tilvikum leitaði slík kvika í kvikuhólf undir eldstöðvum og staldraði þar við í einhver ár eða lengur áður en hún leitaði yfirborðs. Í þessu tilviki leitar kvikan yfirborðs strax í stað þess að fylla á kvikuhólf. Það þýðir líka að staðsetning eldsuppkomunnar er tilviljakenndari og óreglulegri en ef kvikan kæmi úr grunnstæðari kvikuhólfi.
Einhverjir vísindamenn hafa í dag talið skýringuna á skjálftunum mögulega vera að jarðskorpan væri að jafna sig eftir gosið eða að þetta væru hefðbundnir skjálftar á flekaskilum. Það finnst mér ólíklegt, bæði vegna staðsetningar skjálftanna á litlu svæði við kvikuganginn og eðli þeirra. Mikill fjöldi sjáskjálfta. Það verður því fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu dögum og vikum.