Allsnarpur Suðurlandsskjálfti við Vatnafjöll

Um kl. hálf tvö í dag varð jarðskjálfti M 5,2 við Vatnafjöll sem eru skammt suðaustur af Heklu.  Í fyrstu var talið að skjálftinn gæti boðað upphaf Heklugoss en nánari úrvinnsla sýnir að þetta er nokkuð dæmigerður Suðurlandsskjálfti, alls ótengdur eldsumbrotum.  Stórir jarðskjálftar hafa oft áður orðið á þessu svæði, t.d. árið 1987 þegar varð þar skjálftu uppá tæplega M 6 við Vatnafjöll.  Þversprungur Suðurlandsskjálftabeltisins ná yfir á þetta svæði.

Þar sem stutt er liðið frá síðustu Suðurlandsskjálftum (2000 og 2008) þá er ólíklegt að þetta boði fleiri skjálfta annarsstaðar á Suðurlandsundirlendinu.

Hvað Heklu varðar hinsvegar þá er hún búin að vera tilbúin í gos frá árinu 2006.  Það má þó vel vera að hún sé komin í sinn eðlilega fasa eins og hún var á öldum áður, með ca 1-2 gos á öld og þau þá í stærri kantinum.  Sé svo þá geta vel liðið 30 ár eða meira þar til hún gýs næst.  En hvort hún er komin í þann fasa aftur er þó ekki nokkur leið að vita.

Jarðskjálftar af þessari stærðargráðu er þó óþekktir hvað varðar undanfara Heklugoss, venjulega eru þeir miklu vægari.

Scroll to Top
%d bloggers like this: