Verulegt landris við Öskju

Birta á :
Askja – Mynd fengin frá Wikimedia Commons

Landris upp á um 5 cm hefur mælst á svæði vestan við Öskjuvatn síðan í byrjun ágúst samkvæmt GPS mælingum og gervitunglagögnum.  Þetta er í fyrsta skipti frá því slíkar mælingar hófust að þensla mælist við Öskju.  Jarðskjálftar hafa þó verið tíðir á svæðinu.  Þensla upp á 5 cm verður að teljast verulega mikil á aðeins mánuði og verður eiginlega ekki skýrð á annan hátt en að um kvikuinnskot sé að ræða.  

Síðast gaus við Öskju árið 1961.  Var það fremur lítið gos.  Á árunum 1921-1930 gekk yfir goshrina á svæðinu með allmörgum minniháttar gosum.  Árið 1875 varð sannkallað stórgos í Öskju og eftir það gos myndaðist Öskjuvatn í kjölfar öskjumyndunar sem eldstöðin dregur nafn sitt af.  Gríðarleg aska féll á austurlandi í þessu gosi sem verð vegna sprengigos í gígnum Víti.  Í kjölfar þessa goss fluttu fjölmargir austfirðingar vestur um haf til Kanada og Bandaríkjanna.

Þótt landris sé nú að eiga sér stað við Öskju þá er það engin ávísun á eldgos í náinni framtíð.  Oftar en ekki lognast slíkar hrinur útaf eða að eldstöðvar taki sér langan tíma í undirbúning goss.  Eyjafjallajökull bærði t.d. á sér fimmtán árum áður en hann gaus með þenslu og jarðskjálftum.  

Það verðu þó athyglisvert að sjá hvert framhaldið verður því Askja er vissulega ein af öflugustu eldstöðvum landsins.

Scroll to Top