ENN MIKILL KRAFTUR Í GOSINU OG NOKKRAR SVIÐSMYNDIR UM FRAMHALD MÖGULEGAR

Birta á :

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram og er öflugt.  Gossprungan er um 1,5 km á lengd en nú þegar hafa runnið um 7,5 ferkilómetrar af hrauni.    Stefnir meginhrauntaumurinn í átt að Jökulsá  á fjöllum og gæti stíflað hana ef gosið heldur áfram af krafti næstu vikur.

Þá hefur allmikill sigdalur myndast í norðanverðum Dyngjujökli og að gossprungunni.  Enn er talinn möguleiki á að gossprungan lengist og teygi sig inn á jökulinn með tilheyrandi flóðahættu.

Skjálfti upp á M 5,5 varð við Bárðarbunguöskjuna í nótt.  Er þetta næststærsti skjálftinn í hrinunni en alls hafa 13 skjálftar yfir M 5 mælst sem sýnir hversu mikil þessi umbrot eru því skjálftar upp á M 5 i eldstöðvum eru alls ekki algengir, hvað þá svona margir.

Vísindamenn telja eftirfarandi möguleika líklegast í stöðunni hvað framhaldið varðar og er eftirfarandi klausa tekin af vef Veðurstofunnar.

  • “Fjórir möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:

    • Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.
    • Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.
    • Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
    • Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.
  • Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Nú ætlum við að velta þessum möguleikum aðeins upp og útskýra þá.

1. Að innflæði kviku stöðvist.  – Þar sem hér er um rek- og gliðnunarhrinu að ræða sem oftast standa mánuðum og jafnvel árum saman þá verður þessi möguleiki að teljast óliklegur.  Hinsvegar gæti virknin í hrinunni orðið lotubundinn, gætu komið mánuðir þar sem lítið innstreymi verður og taki þá við ný óróleikatímabil með kvikuinnstreymi, kvikuhlaupum og eldsumbrotum.

2.  “Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.”   Þó að nú gjósi þá er ekki hægt að tala um að gangurinn nái til yfirborðs, meginkvikan er enn á miklu dýpi og gosið skilar aðeins broti af kvikunni upp.  Ef megingangurinn nær yfirborði þá má búast við miklu öflugra gosi, meira hrauni ef það yrði utan jökuls og lengri gossprungu.

3.  “Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.”  Hér er viðraður sami möguleiki nema hvað að gosið yrði undir jökli.  Á sama hátt, ef megingangurinn nær yfirborð, undir jökli í þetta sinn, þá yrði um sprengigos að ræða hugsanlega á nokkuð langri sprungu undir jökli og hætta á hamfaraflóði.

4.  “Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.”   Gos í Bárðarbunguöskjunni hefur alla burði til að valda meiriháttar hamförum.  Kvikuhólf öskjunnar er sennilega fullt af kviku sem hefur staldrað þar lengi við, orðin súr og gasrík.  Það gæti því orðið “súrt sprengigos” í öskjunni með gríðarlegu gjóskufalli og jökulhlaupum sem gætu fallið í þrjár áttir.

Þessi miklu umbrot geta því þróast í ýmsar áttir og aðrir möguleikar heldur ekki útilokaðir.  Skjálftavirknin í Öskju veldur  einnig vissulega áhyggjum.

 

 UPPFÆRT 5. SEPTEMBER KL. 12 00

Myndin er frá jarðvísindastofnun og sýnir báðar sprungurnar í morgun.
Myndin er frá jarðvísindastofnun og sýnir báðar sprungurnar í morgun.

NÝ GOSSPRUNGA HEFUR OPNAST Á SÖMU REIN OG ELDRI SPRUNGAN EN MIKLU NÆR DYNGJUJÖKLI.  Gýs þar á um 700 metra kafla en gosið í nyrðri endanum er enn öflugt og rennur allmikið hraun sem nálgast óðfluga Jölulsá á Fjöllum.

Þá eru jarðskjáfltar á svæðinu töluvert grynnri en þeir hafa verið hingað til sem bendir til þess að meginkvikugangurinn nálgist yfirborðið.  Það er væntanlega skýringin á nýju sprungunni og má búast við aukinni gosvirkni ef gangurinn nálgast yfirborðið meira.  Gæti sprungan þá náð inná Dyngjujökul, jafnvel töluvert langt inná hann. Einnig er mögulegt að jörð rifni á milli gömlu og nýju gossprungunnar.

Skjálftum hefur fækkað mikið á svæðinu sem bendir til þess að ákveðið jafnvægi gæti verið að nánst þ.e. nokkurnveginn jafnmikili kvika streymir inn gagninn og kemst uppúr honum i eldgosinu.  Framhaldið veltur því á hversu mikið magn kviku og hve lengi hún streymir inn ganginn frá kvikuþrónni undir Bárðarbungu.

Myndin er fengin af facebook vef jarðvísindastofnunar Íslands en þar eru birtar reglulega upplýsingar um framþróun atburðanna á Bárðarbungusvæðinu.

 

 

Scroll to Top