NÝJA GOSIÐ Í HOLUHRAUNI MIKLU STÆRRA EN TALIÐ VAR Í FYRSTU

Birta á :
Skjáskot af vefmyndavél Milu þar sem glittir í kvikustróka og nýtt hraun.
Skjáskot af vefmyndavél Milu þar sem glittir í kvikustróka og nýtt hraun.

Nú virðist vera ljóst að um töluvert mikið gos er að ræða þó það sé á tiltölulega stuttri sprungu.  Gosið er jafnvel mun stærra en gosið í Eyjafjallajökli en þar sem þetta er eingöngu hraungos þá hefur það auðvitað ekki sömu áhrif.  Það var því mikil lukka að fá þetta gos á auðu landi.

Ljóst er að það er gosið sem veldur því að jarðskjálftum fækkaði skyndilega á svæðinu, kvikan hefur fundið sér tiltölulega greiða leið til yfirborðs og vel má vera að sprungan sé að dæla sama magni út og kemur eftir kvikuganginum frá Bárðarbungu.

Það er mikilvægt að rannsaka sem fyrst hvaðan kvikan er upprunin.  Sé hún komin djúpt að , úr kvikuþró undir Bárðarbungu á 8-15 km dýpi þá er sviðsmyndin dálítið önnur en ef um er að ræða kviku beint úr grunnstæðu kvikuhólfi.  Kvika úr djúpri kvikuþró styður kenningar um að “megingangur” hafi opnast og eykur líkur á langvarandi umbrotum í Bárðarbungukerfinu.  Þessu verður væntanlega skorið úr með efnagreiningum á gosefnum næstu daga.

Þetta er þriðja gosið á rúmri viku og það langstærsta.

.

UPPFÆRT 1. SEPT. KL. 13 00

DREGUR HRATT ÚR GOSINU – STÓRIR SKJÁLFTAR Í BÁRÐARBUNGUÖSKJUNNI

Samkvæmt Ruv.is  þá hefur dregið hratt úr gosinu i morgun og að öllu óbreyttu má gera ráð fyrir því að þessu gosi ljúki á næstu dögum.  Það þýðir hinsvegar ekki að umbrotunum sé lokið því enn er mikil jarðskjálftavirkni við enda kvikuganganna og þá virðist skjálftavirkni vera að aukast i Bárðarbunguöskjunni.  Þar urðu í morgun tveir stórir skjálftar upp á 5 og 5.3 stig.

Þá hefur komið i ljós að gliðnunarhreyfingar eru enn í fullum gangi og því ljóst að gosið var ekki að skila því magni upp sem rann eftir kvikugöngunum.  Enn eru því möguleikarnir á stóru gosi í jöklinum til staðar, jafnvel í öskjunni sjálfri eða þá Dyngjujökli. Allt bendir til þess að enn streymi mikið magn kviku upp undir Bárðarbungueldstöðina og eftir kvikuganginum margnefnda.

VAXANDI SKJÁLFTAVIRKNI VIÐ HERÐUBREIÐARTÖGL vekur einnig athygli en skjálftavirkni hefur aukist mjög á Öskjusvæðinu við umbrotin i Bárðarbungu.  Skjálftarnir við Herðubreiðartögl eru miklu grynnri en skjálftarnir við kvikuganginn.  Ljóst er að umbrotin í Bárðarbungu hafa áhrif á spennu á stóru svæði.

 

Vefmyndavél Mílu sem sýnir gosið

Scroll to Top