MIKIÐ SIG Í BÁRÐARBUNGUÖSKJU – Hvað gerist ef það gýs í öskjunni ?

Birta á :

Askjan í Bárðarbungu hefur sigið um allt að 15 metra frá því umbrotin hófust fyrir þrem vikum.  Er þetta mjög mikið sig, það langmesta sem mælst hefur hér á landi frá því mælingar voru teknar upp um miðja síðustu öld. 

Vísindamenn telja þetta auka líkur á gosi í sjálfri öskjunni.  Hér að neðan er mynd sem útskýrir stöðuna í grófum dráttum en athuga ber að stærðar- og fjarlægðarhlutföll eru ekki endilega rétt.

Þegar vísindamenn tala um að þeir óttist að gos sé að hefjast í öskjunni, þá eiga þeir við að það gjósi ur efra kvikuhólfinu á myndinni. Þar er súr, kísilrík og gasrík kvika sem hefur legið óhreyfð um aldir  og fari þetta efni upp í gosi þá er það bara hreint út sagt ekki gott mál því meiri sprengivirkni fylgir súrri kviku, hún er léttari og berst lengra upp í háloftin og lengra frá eldstöðinni.
Gosið núna er úr neðri og stærri kvikuþrónni en bara “affall” mest af kvikunni storknar í sprungum á miklu dýpi.

Stóru jarðskjálftarnir að undanförnu við öskjuna verða við barma hennar (merktir X) þegar hún sígur vegna þess að kvika þrýstist úr neðri kvikuþrónni út í ganginn.

holuhraun7septHraunið frá gossprungunni í Holuhrauni hefur nú náð aðalkvísl Jökulsár á Fjöllum.  Ekki er búist við neinum langtímaáhrifum af því svo framarlega sem hraunið renni ekki mjög langt eftir farvegi Jökulsár.  Myndin er fengin af facebook síðu jarðvísindastofnunar og sýnir hraunið við Jökulsá á Fjöllum í morgun.

.

HVERSU STÓRT GETUR GOS Í ÖSKJUNNI ORÐIÐ ?

Þessari spurningu er ekki auðsvarað þar sem ekki er með vissu vitað hvenær gaus í öskjunni síðast.  Stórgosið í jöklinum árið 1477 kom líklegast upp norðan við öskjuna þ.e. í Dyngjujökli og óvíst að kvikan hafi verið úr kvikuhólfinu, liklegra úr neðri kvikuþrónni eins og kvikan sem nú kemur upp.  Flest þekkt gos í Bárðarbungu hafa einmitt komið upp í Dyngjujökli.  Því er varla til viðmiðun frá Bárðarbungu sjálfri hvað varðar gos í öskjunni. 

Ef horft er til annarra eldstöðva i vatnajökli þá eru gos í öskju Grímsvatna algeng en þau eru yfirleitt lítil.  þumalreglan er sú að að því lengra sem er á milli gosa, því stærri eru þau.   Kvikan hefur hinsvegar legið lengi í kvikuhólfi Bárðarbungu og það er mikið magn af henni enda askjan gríðarlega stór og kvikuhólfið sennilega líka.

Gos í öskju Bárðarbungu gæti svipað til gosa í Öræfajökli sem eru sjaldgæf en geta verið feiknarlega öflug.  Mesta sprengigos Íslandssögunnar varð þar árið 1362 þegar um 10 rúmkílómetrar af gjósku þeyttust uppúr fjallinu.  Til samanburðar var gjóskuframleiðslan í Eyjafjallajökli árið 2010 um 0,3 rúmkílómetrar.

Hér skal engu spáð um hvað gerist en það er alveg ljóst að stórt gos í Bárðarbunguöskjunni yrði meirháttar atburður og þyrfti ekki að koma á óvart miðað við þau gríðarlegu umbrot sem þarna eru að eiga sér stað.  Vel má vera að kvikan í efra hólfinu verði áfram á sínum stað og að eingöngu gjósi úr neðri þrónni i eða við jökulinn.  Það væri illskárra en að fá súrt sprengigos i öskjunni.

Scroll to Top