Dregur úr gosinu – Innviðum hlíft í bili

Birta á :

Talsvert hefur dregið úr krafti eldgossins á Sundhnúkasprungunni í dag.  Nú er áætlað hraunrennsli um 50 rúmmetrar á sekúndu en var um 200 þegar það var mest fyrripartinn síðastliðna nótt.  Þrátt fyrir það er hraunrennslið miklu meira en það náði nokkurntímann að verða í gosunum þrem við Fagradalsfjall.   Til samanburðar kom upp á fyrstu 7 klukkustundum þessa goss jafnmikið af kviku og kom upp í öllu gosinu við Litla-Hrút.  

Hraun hefur ekki náð að renna sem neinu nemur í átt að Grindavík og ekki gýs lengur á suðurhluta sprungunnar.  það er þó ekki þannig að Grindavík sé úr allri hættu því kvikugangurinn liggur undir bænum og ekki útilokað að ný gosop opnist miklu nær bænum eða jafnvel í honum.  

Hvað innviði í Svartsengi varðar þá þarf hraun að renna í alllangan tíma áður en þeim verður ógnað, það er þá helst Grindavíkurvegur sem er á viðkvæmum stað.  Þangað gæti hraun náð á Jóladag samkvæmt nýju hraunrennslismati.  Hraunið er þunnfljótandi og það eykur líkur á að nýir varnargarðar nái að verja orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið.  Hinsvegar gæti heitavatnslögn frá orkuverinu út í Reykjanesbæ verið í hættu ef gosið varar lengi.  Menn virðast þó ekki hafa miklar áhyggjur af því enn sem komið er.

Það kemur frekar á óvart að land hafi aðeins sigið um ca 7 cm á fyrsta sólarhring gossins í Svartsengi eftir að hafa risið um 35 cm frá kvikuhlaupinu 10. Nóvember.  Þar sem aflið í gosinu var langmest fyrstu klukkustundirnar þá hefði mátt búast við töluvert meira landsigi.  

Þessi mynd er klippt úr grafi á vef Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands og sýnir landris og sig við Svartsengi í millimetrum. Glökkt sérst kvikuhlaupið 10. nóvember og svo þegar eldgosið hófst 18.Desember en land hefur sigið miklu minna en í kvikuhlaupinu 10.Nóv. Slóð: https://strokkur.raunvis.hi.is/gps/8h.html?fbclid=IwAR3nyvVEdAkT_moj1VKLHjYtXe694RGM5t0tIdgQudDrk5VQd9pzQwHeCdE
Þessi mynd er klippt úr grafi á vef Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands og sýnir landris og sig við Svartsengi í millimetrum. Glökkt sérst kvikuhlaupið 10. nóvember og svo þegar eldgosið hófst 18.Desember en land hefur sigið miklu minna en í kvikuhlaupinu 10.Nóv. Slóð: https://strokkur.raunvis.hi.is/gps/8h.html?fbclid=IwAR3nyvVEdAkT_moj1VKLHjYtXe694RGM5t0tIdgQudDrk5VQd9pzQwHeCdE

Mögulegar sviðsmyndir hvað framhaldið varðar eru nokkrar.

  1. Gosið verður langt, nokkrar vikur eða mánuðir en afllítið, 10-15 rúmmetrar á sekúndu og einskonar sírennsli úr kvikukoddanum við Svartsengi.  Það er jú stöðugt að bætast í þennan “kodda” að neðan, líklega um 15 rúmmetrar á sekúndu.  Gosið gæti lifað meðan enn bætist kvika undir Svartsengi.
  2. Gosið færist í aukana og meiri kvika streymir frá Svartsengi yfir í Sundhnúka í formi kvikuhlaupa.  Það stæði þó ekki mjög lengi, 2-4 vikur mest.  Ný gosop gætu opnast, mögulega nær Grindavík.
  3. Gosinu lýkur fljótlega en vegna innstreymis í kvikukoddann undir Svartsengi þá má búast við öðru gosi eftir ca 5-8 vikur og líkast til á sömu gossprungu en gæti orðið annaðhvort norðar eða sunnar á henni.

Vegna áframhaldandi kvikusöfnunar undir Svartsengi er alveg ljóst að þessum atburðum er hvergi nærri lokið jafnvel þó þetta gos verði ekki langlíft.  Þessari hrinu hefur verið líkt við Kröfluelda sem stóðu frá 1975-1984 og urðu 9 eldgos á því tímabili.  Það er ákveðin samsvörun með þessum atburðum t.d. mjög stórt kvikuhlaup áður en til eldgoss kom (10.nóvember) en annað er ólíkt og þá helst að gosin við Kröflu komu úr grunnstæðu og þróuðu kvikuhólfi.  Þessi “kvikukoddi” við Svartsengi er allt annars eðlis og rúmar ekki nærri eins mikið af kviku og kvikuhólf undir megineldstöð.  Því er frekar ólíklegt að við fáum 9 gos þarna.  Kanski líklegra að þau verið 2-3.

 

Scroll to Top