ELDGOS VIÐ SUNDHNÚKAGÍGA

Birta á :

ELDGOS HÓFST Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI KL 22:17 Í KVÖLD. 

  • GOSSPRUNGAN UM 4 KM LÖNG OG LENGIST
  • GOSIÐ LÍKLEGA Í UM 2,5 KM FJARLÆGÐ FRÁ GRINDAVÍK
  • ENN ÓLJÓST HVORT MANNVIRKI Í GRINDAVÍK OG SVARTSENGI SÉU Í HÆTTU
  • HRAUN RENNUR ENN SEM KOMIÐ ER MEST TIL NORÐURS OG AUSTUR SEM ER HEPPILEGT
  • MARGFALT STÆRRA GOS EN FYRRI GOS Í ÞESSARI GOSHRINU

Milli kl. 20 og 21 í kvöld hófst áköf jarðskjálftahrina í Sundhnúkagígaröðinni og um tveim tímum síðar sást eldgos brjótast upp.  Gossprungan teygðist strax til norðausturs og suðvesturs og er þegar þetta er ritað um kl. 01:05 þann 19. Desember talin vera um 4 km löng og suðvesturendi hennar í um 2,5 km frá byggð í Grindavík. 

Eldgosið séð frá Ægisíðu í kvöld.
Mynd: Óskar Haraldsson

Ekki er vita til að tjón hafi orðið á mannvirkjum og mögulega var þetta besti staðurinn á Svartsengissvæðinu til að fá upp eldgos.  Það fer þó algjörlega eftir því hve lengi gosið heldur þeim krafti sem er í upphafsfasanum.  Hraunrennslið er nokkur hundruð rúmmetrar á sekúndu en ólíklegt verður að telja að sá kraftur haldist nema einhverjar klukkustundir.

Aðdragandi þessa goss var nokkuð langur.  Kvikuhlaupið 10. nóvember var forsmekkurinn, landris hafði verið við Svartsengi í nokkrar vikur áður.  Síðan verður þetta stóra kvikuhlaup þar sem búist var við eldgosi en ekki varð.  Sá atburður virðist hinsvegar hafa fyllt upp í flestar sprungur og glufur í Sundhnúkagígaröðinni.  Síðan verður annað kvikuhlaup í gærkvöld og þá tekur sprungan ekki lengur við og kvikan hefur ekki aðra leið en til yfirborðs.

Nú er spurningin hve lengi þetta gos varir og etv. hvort þetta sé aðeins fyrsta gosið í hrinu gosa á Svartsengissvæðinu.  Nokkuð stöðugt landris og kvikuinnstreymi var undir Svartsengi fram að gosinu og eflaust heldur þetta innstreymi eitthvað áfram.  Þetta gos er líklegt til að standa í 1-2 vikur.    Því meira afl sem er í gosi í upphafi, því fyrr ætti það að lognast útaf sem vonandi verður raunin í þessu gosi.

Scroll to Top