Reykjanesskagi

ELDGOS VIÐ SUNDHNÚKAGÍGA

ELDGOS HÓFST Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI KL 22:17 Í KVÖLD. 

  • GOSSPRUNGAN UM 4 KM LÖNG OG LENGIST
  • GOSIÐ LÍKLEGA Í UM 2,5 KM FJARLÆGÐ FRÁ GRINDAVÍK
  • ENN ÓLJÓST HVORT MANNVIRKI Í GRINDAVÍK OG SVARTSENGI SÉU Í HÆTTU
  • HRAUN RENNUR ENN SEM KOMIÐ ER MEST TIL NORÐURS OG AUSTUR SEM ER HEPPILEGT
  • MARGFALT STÆRRA GOS EN FYRRI GOS Í ÞESSARI GOSHRINU

Milli kl. 20 og 21 í kvöld hófst áköf jarðskjálftahrina í Sundhnúkagígaröðinni og um tveim tímum síðar sást eldgos brjótast upp.  Gossprungan teygðist strax til norðausturs og suðvesturs og er þegar þetta er ritað um kl. 01:05 þann 19. Desember talin vera um 4 km löng og suðvesturendi hennar í um 2,5 km frá byggð í Grindavík. 

Eldgosið séð frá Ægisíðu í kvöld.
Mynd: Óskar Haraldsson

Ekki er vita til að tjón hafi orðið á mannvirkjum og mögulega var þetta besti staðurinn á Svartsengissvæðinu til að fá upp eldgos.  Það fer þó algjörlega eftir því hve lengi gosið heldur þeim krafti sem er í upphafsfasanum.  Hraunrennslið er nokkur hundruð rúmmetrar á sekúndu en ólíklegt verður að telja að sá kraftur haldist nema einhverjar klukkustundir.

Aðdragandi þessa goss var nokkuð langur.  Kvikuhlaupið 10. nóvember var forsmekkurinn, landris hafði verið við Svartsengi í nokkrar vikur áður.  Síðan verður þetta stóra kvikuhlaup þar sem búist var við eldgosi en ekki varð.  Sá atburður virðist hinsvegar hafa fyllt upp í flestar sprungur og glufur í Sundhnúkagígaröðinni.  Síðan verður annað kvikuhlaup í gærkvöld og þá tekur sprungan ekki lengur við og kvikan hefur ekki aðra leið en til yfirborðs.

Nú er spurningin hve lengi þetta gos varir og etv. hvort þetta sé aðeins fyrsta gosið í hrinu gosa á Svartsengissvæðinu.  Nokkuð stöðugt landris og kvikuinnstreymi var undir Svartsengi fram að gosinu og eflaust heldur þetta innstreymi eitthvað áfram.  Þetta gos er líklegt til að standa í 1-2 vikur.    Því meira afl sem er í gosi í upphafi, því fyrr ætti það að lognast útaf sem vonandi verður raunin í þessu gosi.

BIÐSTAÐA Í GRINDAVÍK – ELDGOS ENN LÍKLEGT

  • Kvikugangur liggur undir Grindavík, nær út í sjó og um 12-15 km. í norðaustur eftir Sundhnúkasprungunni.
  • Gríðarlegar skemmdir i bænum eftir að sigdalur myndaðist i vesturhlutanum.
  • Kvika talin vera á aðeins 400-800 metra dýpi í ganginum í og við Grindavík.
  • Eldgos enn líklegasti möguleikinn en þó smávon um að svo fari ekki.
Þessi mynd er aðeins breytt skjáskot úr þessu youtube videóli. https://www.youtube.com/watch?v=lzSKQhbn_DM Kvikan er talin koma austan að úr möttulstróknum og hefur hingað til reynt að komast upp í þrem eldstöðvakerfum á skaganum á stuttum tíma.

Síðustu dagar hafa verið afar erfiðir fyrir Grindvíkinga enda allir sem einn þurft að flýja heimil sín. Þegar mestu lætin gengu yfir á föstudagskvöldið þá bjuggust menn við eldgosi jafnvel innan sólarhrings.  Það hefur ekki orðið.  Einhver fyrirstaða er greinilega í efstu jarðlögunum sem meinar kvikunni aðgang að yfirborði.  Því miður eru enn talsverðar líkur á eldgosi því innstreymi í kvikuganginn er talið vera um 75 rúmmetrar á sekúndu sem er býsna mikið samanborið við innstreymi í kvikugangana í fyrri gosum þegar það var að jafnaði um 10-15 rúmmetrar.  Um tíma á föstudagskvöldið var þetta innstreymi hinsvegar gríðarlegt, meira en 1000 rúmmetrar á sekúndu.  

Enn er talsvert sjáskjálftavirkni í þessum kvikugangi.  Það veldur því að sprungur í Grindavík eru enn að hreyfast, sigdalurinn að dýpka og skemmdir á mannvirkjum enn að myndast.

En hvað veldur þessum ósköpum ?  Menn voru ekki vissir í fyrstu hvaðan kvikan í þessum nýja kvikugangi kæmi en nú virðist ljóst að þetta er kvikan sem hefur valdið landrisinu í Svartsengi undanfarnar vikur.  Leið hefur opnast fyrir hana undir Sundhnúkagígaröðina enda hefur á sama tíma orðið mikið landsig við Svartsengi sem skýrir atburðarrásina nokkuð vel. Þessi leið virðist ennþá greið, þ.e. kvikan sem kemur upp í silluna við Svartsengi streymir ennþá beint niður í Sundhnúka af talsverðu afli.  Þetta hefur því minnkað verulega líkur á gosi í Svartsengi.  

Hinsvegar er ennþá til staðar landris í Fagradalsfjalli og óvíst hvað gerist þar.  Best væri að sú kvika héldi sig bara á þeim slóðum and hættuminnstu gosin þar.

En hvaðan kemur kvikan í Svartsengi og Fagradalsfjall ?  Jarðvísindamenn vita nú að kvikan sem kom upp í síðustu gosum hefur öll einkenni möttulstrókskviku sem ALDREI áður hefur sést á Reykjanesskaganum.  Þetta eru mikil tíðindi því það bendir allt til þess að leið hafi opnast fyrir kviku frá kvikuuppsprettum stóru megineldstöðvanna t.d. Bárðarbungu og Öskju undir Reykjanesskagann.  Þetta setur samanburð þessarar virkni sem hófst fyrir fáum árum við fyrri virknistímabil á Reykjanesskaganum úr skorðum.  Þau tímabil sem eru nokkuð þekkt hafa hafist með gosum austast á skaganum, í Brennisteinsfjallakerfinu og unnið sig svo á mörgum áratugum, jafnvel öldum vestur eftir skaganum.  Nú hefst virknin á miðjum skaganum og fleiri en eitt kerfi vakna sem er líka óvenjulegt.   Hvað þetta þýðir fyrir framtíðarhorfur næstu ár og áratugi er óljóst en útlitið er ekkert sérstaklega gott ef við erum að fá þessu möttulstrókskviku í miklu mæli inná skagann.

Myndin sem fylgir lýsir þessum hugmyndum nokkuð vel og útskýrir hvað er  að öllum líkindum að gerast.

 

 

GRÍÐARLEG JARÐSKJÁLFTAVIRKNI OG KVIKUGANGUR AÐ MYNDAST Á SUNDHNÚKASPRUNGUNNI

  • ALLAR LÍKUR Á AÐ ELDGOS HEFJIST INNAN SÓLARHRINGS
  • MIKLAR SKEMMDIR Í GRINDAVÍK EFTIR JARÐSKJÁLFTANA
  • LÍKUR Á AÐ JÖRÐ OPNIST NORÐARLEGA Á SUNDHNÚKASPRUNGUNNI
  • ÓVÍST HVAÐA MANNVIRKI ERU Í HÆTTU
Svona lítur skjálftakort Veðurstofunnar út nú í kvöld Mikið er um svokallaða draugaskjálfta utan Reykjanesskagans sem eru villur. Slíkt gerist þegar virknin er svo þétt að mælanetið nær ekki utan um hana.

Allt hefur leikið á reiðiskjálfi á Suðurnesjum í dag, sérstaklega þó í Grindavík.  Skjálftavirkni hófst af nokkrum krafti strax í morgun og herti svo mjög seinni part dags og varð þá einhver þéttasta skjálftavirkni sem mælst hefur hér á landi með svo miklu magni stórra skjálfta að jörð skalf hreinlega stanslaust um tíma.  Kvikugangur er talinn vera að myndast.

Skjálftarnir eiga langflestir upptök við svokallað Sundhnúkagígaröð sem varð til í gosi fyrir um 2400 árum og hluti Grindavíkur stendur á hrauni frá þessu gosi.  Þetta er löng gígaröð, um 10 km og eru syðstu gígarnir í útjaðri Grindavíkurbæjar.  Kvikugangurinn er talinn vera að myndast í norðurhluta þessarar sprungu, norðan vatnaskila jafnvel sem ætti að þýða að Grindavík verður hlíft við hraunrennsli.  Óvíst er hinsvegar hvort mannvirkin í Svartsengi sleppi.

Atburðirnir eru að gerast mjög hratt og verður uppfært þegar nánari upplýsingar liggja fyrir.

Satt að segja er staðan nokkuð óljós, vísindamenn eru ekki sammála um hvar liklegast er að gjósi en allir virðast vera komnir á þá skoðun að eldgos sé óumflýjanlegt.  Hættustigi hefur verið lýst yfir vegna þessara hamfara.  

Margir Grindvíkingar eru farnir úr bænum.  Búið er að opna fjöldahjálparstöðvar.

UPPFÆRT 11/11 KL. 01 20

ÓTTAST AÐ KVIKUGANGURINN SÉ UNDIR GRINDAVÍK OG VERIÐ AÐ RÝMA BÆINN.  

Skjálftavirknin síðustu klukkustundir hefur verið undir eða við Grindavík að miklu leyti.  Sú staðreynd og aðrar mælingar benda til þess að suðaustur endi kvikugangsins liggi í gegnum bæinn og að hann teygi sig síðan nokkra kílómetra í norðaustur eftir Sundhnúkagígaröðinni.  

Þá er talið að mikil kvika sé á ferðinni, miklu meiri en í undanförnum gosum í Fagradalsfjalli.  Einnig er líklegt að þessi kvika sé komin úr kvikugeymi undir Fagradalsfjalli.  Þetta er þá mögulega ekki kvikan sem hefur safnast saman undir Svartsengi, hún er líklega enn á sínum stað og bíður þess etv. að komast upp.  Hér er því um mjög flókna jarðfræðilega atburðarrás að ræða.

Gott yfirlit yfir jarðskjálfta :  Skjálfti 2.0 (vafri.is)

 

Hratt landris við Svartsengi

Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir landrisið við Svartsengi síðasta sólarhringinn. Gervitunglagögn fengin í samstarfi við ICEYE

Síðasta sólarhringinn hefur land risið um 3 cm á svæði við Svartsengi og virðist rismiðjan vera rétt vestan við Bláa Lónið.  Landrisið er talið stafa af kvikusöfnun á verulegu dýpi en þó óvíst nákvæmlega hve miklu.  Kvika er ekki talin vera hættulega nálægt yfirborði en það gæti breyst hratt.  Þetta er mjög ört landris og til samanburðar hefur land risið um “aðeins” 4 cm við Fagradalsfjall frá goslokum í ágúst og taldist það þó vera nokkuð hratt landris.  Beðið er eftir nýjum myndum frá SENTINEL, gervitungli Evrópsku geimferðastofnunarinnar sem væntanlegar eru á morgun.  Þá ætti staðan að skýrast betur.

Undanfarna sólarhringa hefur öflug jarðskjálftahrina riðið yfir í og við Svartsengi.  Skjálftarnir hafa verið taldir vera svokallaðir gikkskjálftar af völdum landriss við Fagradalsfjall sem er enn í gangi.  Það eru því tvær rismiðjur í gangi á Reykjanesskaganum og staðan afar flókin og getur breyst með skömmum fyrirvara.

Mögulega voru skjálftarnir í Svartsengi aldrei gikkskjálftar, heldur var kvika að þrýsta á bergið neðan frá þó landris hafi ekki mælst fyrr en ég gær.  Það skiptir kanski ekki öllu máli en jarðfræðingar eru að reyna að átta sig betur á stöðunni, enda óvenjulegt að hafa landris og aflögun í gangi í tveimur eldstöðvakerfum hlið við hlið eins og þarna er að gerast.

Það er ljóst að eldgos í eða við Svartsengi gæti haft margvíslegar og mjög alvarlegar afleiðingar.  Þarna er vitaskuld Bláa lónið, tvö hótel og orkuver.  Að auki gæti Grindavík verið í hættu ef staðsetning gossprungu er nógu óheppileg.  

Þetta er fimmta kvikuinnskotið við Svartsengi síðan 2020 og hingað til hafa þau ekki endað með eldgosi.  Landrisið nú er hinsvegar miklu hraðara og því líklega öflugra innskot en áður og eðlilegt að menn séu á tánum.  Síðla kvölds 28.oct dró verulega úr jarðskjálftavirkninni sem gæti þýtt að innskotið hafi hægt á sér eða stöðvast en þetta skýrist betur á næstu sólarhringum.

Snörp jarðskjálftahrina við Svartsengi

Upptök skjálftanna í nótt og í morgun. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Uppúr miðnætti hófst snörp skjálftahrina í grennd við Svartsengi.  Miðja hrinunnar virðist vera ca 0,5-1 km sunnan við Bláa Lónið, um 4-5 km norðan Grindavíkur.  Stærsti skjálftinn hingað til mældist M 4,5 og fannst vel á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu.  Veðurstofan telur að um gikkskjálfta sé að ræða sem þýðir að þarna er ekki kvika að troða sér upp heldur verða þeir vegna aflögunar sem stafar af kvikusöfnun undir Fagradalsfjalli.

Það virðist jafnframt vera sem meiri kraftur hafi færst í landrisið undanfarnar vikur þ.e. meiri kvika flæðir inn undir Fagradalsfjall.  Það má því reikna með að stutt sé orðið í myndun kvikugangs eins og fyrir síðustu gos á svæðinu.  Langlíklegast er að slíkur gangur myndist í grennd við Fagradalsfjall á stöðum nærri upptökum fyrri eldgosa á svæðinu undanfarin ár.  Skjálftarnir geta hinsvegar orðið víða um Reykjanesskagann vegna aflögunar eins og nú er að gerast.

Óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna skjálftanna og fólk beðið að huga að lausamunum og forðast staði þar sem grjóthruns má vænta.  Heldur virtist draga úr hrinunni eftir hádegi en það getur vel verið tímabundið.

Scroll to Top