Reykjanesskagi

Hratt landris við Svartsengi

Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir landrisið við Svartsengi síðasta sólarhringinn. Gervitunglagögn fengin í samstarfi við ICEYE

Síðasta sólarhringinn hefur land risið um 3 cm á svæði við Svartsengi og virðist rismiðjan vera rétt vestan við Bláa Lónið.  Landrisið er talið stafa af kvikusöfnun á verulegu dýpi en þó óvíst nákvæmlega hve miklu.  Kvika er ekki talin vera hættulega nálægt yfirborði en það gæti breyst hratt.  Þetta er mjög ört landris og til samanburðar hefur land risið um “aðeins” 4 cm við Fagradalsfjall frá goslokum í ágúst og taldist það þó vera nokkuð hratt landris.  Beðið er eftir nýjum myndum frá SENTINEL, gervitungli Evrópsku geimferðastofnunarinnar sem væntanlegar eru á morgun.  Þá ætti staðan að skýrast betur.

Undanfarna sólarhringa hefur öflug jarðskjálftahrina riðið yfir í og við Svartsengi.  Skjálftarnir hafa verið taldir vera svokallaðir gikkskjálftar af völdum landriss við Fagradalsfjall sem er enn í gangi.  Það eru því tvær rismiðjur í gangi á Reykjanesskaganum og staðan afar flókin og getur breyst með skömmum fyrirvara.

Mögulega voru skjálftarnir í Svartsengi aldrei gikkskjálftar, heldur var kvika að þrýsta á bergið neðan frá þó landris hafi ekki mælst fyrr en ég gær.  Það skiptir kanski ekki öllu máli en jarðfræðingar eru að reyna að átta sig betur á stöðunni, enda óvenjulegt að hafa landris og aflögun í gangi í tveimur eldstöðvakerfum hlið við hlið eins og þarna er að gerast.

Það er ljóst að eldgos í eða við Svartsengi gæti haft margvíslegar og mjög alvarlegar afleiðingar.  Þarna er vitaskuld Bláa lónið, tvö hótel og orkuver.  Að auki gæti Grindavík verið í hættu ef staðsetning gossprungu er nógu óheppileg.  

Þetta er fimmta kvikuinnskotið við Svartsengi síðan 2020 og hingað til hafa þau ekki endað með eldgosi.  Landrisið nú er hinsvegar miklu hraðara og því líklega öflugra innskot en áður og eðlilegt að menn séu á tánum.  Síðla kvölds 28.oct dró verulega úr jarðskjálftavirkninni sem gæti þýtt að innskotið hafi hægt á sér eða stöðvast en þetta skýrist betur á næstu sólarhringum.

Snörp jarðskjálftahrina við Svartsengi

Upptök skjálftanna í nótt og í morgun. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Uppúr miðnætti hófst snörp skjálftahrina í grennd við Svartsengi.  Miðja hrinunnar virðist vera ca 0,5-1 km sunnan við Bláa Lónið, um 4-5 km norðan Grindavíkur.  Stærsti skjálftinn hingað til mældist M 4,5 og fannst vel á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu.  Veðurstofan telur að um gikkskjálfta sé að ræða sem þýðir að þarna er ekki kvika að troða sér upp heldur verða þeir vegna aflögunar sem stafar af kvikusöfnun undir Fagradalsfjalli.

Það virðist jafnframt vera sem meiri kraftur hafi færst í landrisið undanfarnar vikur þ.e. meiri kvika flæðir inn undir Fagradalsfjall.  Það má því reikna með að stutt sé orðið í myndun kvikugangs eins og fyrir síðustu gos á svæðinu.  Langlíklegast er að slíkur gangur myndist í grennd við Fagradalsfjall á stöðum nærri upptökum fyrri eldgosa á svæðinu undanfarin ár.  Skjálftarnir geta hinsvegar orðið víða um Reykjanesskagann vegna aflögunar eins og nú er að gerast.

Óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna skjálftanna og fólk beðið að huga að lausamunum og forðast staði þar sem grjóthruns má vænta.  Heldur virtist draga úr hrinunni eftir hádegi en það getur vel verið tímabundið.

Landris og óvissa á Reykjanesskaga

Grunnkortið er frá Veðurstofu Íslands og sýnir Gps stöðvar á Reykjanesskaga. Ég hef sett rauða hringi á þær stöðvar sem greina má landris og stóri hringurinn sýnir nokkurnveginn áhrifasvæðið.   Slóð á mælistöðvar: GNSS time-series (vedur.is)

Svo virðist sem landris sé þegar hafið á Reykjanesskaga í kjölfar gossins sem lauk fyrir rúmum mánuði.  Bendir það til nokkuð ákveðinnar kvikusöfnunar því risið er mun hraðar og á sér stað fyrr en eftir síðustu gos á skaganum.   Þá hafa rannsóknir á kvikunni í síðustu gosum leitt í ljós að hún er líkari kviku ættuð úr möttulstróknum undir austur gosbeltinu en áður hefur fundist í hraunlögum á Reykjanesskaga.

Veðurstofan vaktar Reykjanesskagann mjög vel með Gps stöðvum þar sem allar færslur á landi eru mældar með mikilli nákvæmni.  Þessar mælingar sýna að þensla virðist hafa hafist um miðbik skagans um það leiti sem síðasta gosi lauk , þ.e. snemma í ágúst.  Land  hefur risið um ca 1,5 cm við Festarfjall á rúmum mánuði en er einnig greinilegt á fleiri stöðvum, svosem við Krísuvík, við Voga og jafnvel við Helgafell sunnan Hafnarfjarðar.  Þó má ætla að upptakastaðurinn sé nokkurnveginn undir Fagradalsfjalli þó breytingar mælist víða um miðbik Reykjanesskagans.   Það bendi því flest til þess að innstreymi kviku úr möttli sé að aukast.  Nokkur smáskjálftavirkni hefur verið undanfarnar vikur.  Mest hefur hún verið í grennd við Keili, einnig við Krísuvík/Kleifarvatn og í grennd við Fagradalsfjall.  Hún tengist vafalítið kvikusöfnun og landrisi.

Efnisinnihald kvikunnar sem hefur komið upp í síðustu gosum vekur upp margar spurningar.  Eins og áður segir er kvikan lík kviku sem gjarnan kemur upp í austur gosbeltinu þ.e. í stórum eldstöðvum eins og Kötlu, Torfajökli, Bárðarbungu og Öskju.  Ef að möttulstrókurinn undir landinu er farinn að teygja sig undir Reykjanesskagann þá er mögulegt að eldvirkni þar aukist umtalsvert, gosin verði bæði tíðari og stærri.  Þetta gerist þó líklega á hundruðum ára frekar en alveg í náinni framtíð.

Að framansögðu má ljóst vera að reikna verður með frekari tíðindum á Reykjanesskaga fljótlega, jafnvel á þessu ári.  Kvikan hefur fundið sér leið upp á sprungurein við og norðan við Fagradalsfjall og líklegast er að á þessu svæði verði næstu gos.  Hversu mörg  þau verða og hversu lengi þessir goshrina stendur er erfitt að svara en svona eldgosahrinur sem gjarnan eru kallaðir “eldar”  t.d. Kröflueldar standa gjarnan í ca 10-30 ár með nokkuð reglulegum gosum.  Ef miðað er við síðustu goshrinu á Reykjanesskaganum ca frá árinu 800-1240 þá gengu nokkrir svona “eldar” yfir og nokkuð löng goshlé á milli.  það sem flækir hinsvegar málið núna er að Fagradalsfjallskerfið hefur ekki gosið í 6000 ár fyrr en nú og menn vita ekki hvernig það hagar sér.  Einnig veldur aðkoma möttulstróksins fyrrnefnda óvissu.

Gosinu virðist lokið – En hvað svo ?

Þetta kort er að finna á vefsíðunni ferlir.is og sýnir útbreiðslu hrauna á Reykjanesskaga eftir landnám. Ath að þarna vantar nýju hraunin í Fagradalsfjallseldstöðinni.

Gosinu við Litla-Hrút virðist hafa lokið í gær, laugardaginn 6. ágúst.  Það stóð því í 26 daga og kom upp talsvert meira magn kviku en í gosinu í Meradölum í fyrra.  Gosið var þó miklu minna en gosið í Geldingadölum 2021 þó byrjunin á þessu gosi hafi verið kröftug.

Þetta fer því í flokk smágosa á Reykjanesskaganum.  Hraunið þekur aðeins um 1,5 ferkílómetra.  Þetta var þriðja gosið í Fagradalsfjallseldum en spurningin er hvað gerist í framhaldinu.  Það er dálítið erfitt að ráða í söguna og miða við fyrri eldsumbrotatímabil á Reykjanesskaganum þar sem ekki hefur gosið í Fagradalsfjallseldstöðinni i 6000 ár fyrr en nú.   Á síðasta eldsumbrotatímabili sem hófst um árið 800 virðist virknin hafa hafist nokkurnveginn samtímis í Krísuvíkurkerfinu og í Brennisteinsfjöllum.  Síðan á næstu árhundruðum fært sig vestur eftir skaganum.  Nú virðist þessu ekki þannig háttað.  Umbrotahrinur, landris og skjálftar hafa verið í Reykjaneskerfinu, Svartsengi og í Krísuvíkurkerfinu fyrir utan Fagradalsfjallskerfið.  Þrátt fyrir að goshlé hafi verið hvað lengst í Brennisteinsfjallakerfinu þá hefur ekki orðið vart við sambærileg umbrot þar og í hinum kerfunum.  

Vísindamenn hafa varpað fram þeirri kenningu að í raun sé aðeins ein stór kvikuþró undir skaganum sem fæði öll kerfin.  Sú kvikuþró er þá nærri miðjum skaganum, semsagt á ca 17-20 km dýpi undir Fagradalsfjalli eða þar um bil.  

Tvær sviðsmyndir virðast út frá þessu líklegastar hvað varðar næstu ár og kanski áratugi.  Annarsvegar að við fáum fleiri gos í þessu kerfi og þau verði norðar, þ.e. í kringum og norður af Keili.  Líklegast smágos.  Hitt er kanski ekkert síður líklegt að virknin færi sig fljótlega yfir í Krísuvíkurkerfið þar sem talsvert hefur verið um skjálfta og umbrot undanfarin ár.  Þar eru gos líklegust á svokallaðri Trölladyngjurein vestan við Sveifluháls.  Á þeim slóðum urðu nokkuð mikil eldgos á 12. öld (ca. 1155-1188) þar sem m.a. Kapelluhraun rann til sjávar þar sem álverið í Straumsvík stendur og Ögmundarhraun rann til sjávar sunnan megin á skaganum.  Trúlega ekki í sama gosinu þó.  Ekki er hægt að útiloka eldsumbrot nær  Kleifarvatni þar sem forna gíga er að finna td. Grænavatn.

Hvað sem verður er þó líklegast að við fáum í það minnsta nokkurra mánaða hlé áður en skaginn bærir aftur á sér.  Það hefur liðið tæpt ár á milli gosa síðan þau hófust en ómögulegt er að segja til um hvort hléin verði svipuð að lengd.

Gosið í jafnvægi – Gæti orðið langt

Á Rúv 2 er eldgosið í beinni frá Litla-Hrút þar sem sjá má gíginn og hraunánna sem frá honum rennur.

Eldgosið við Litla – Hrút hefur verið í jafnvægi má segja frá því á degi þrjú.  Nú er gosið átta daga gamalt og hraunrennsli um 10-13 rúmmetrar á sekúndu.  Það er töluvert meira en var að jafnaði í gosinu í Geldingadölum 2021.  Gosið nú er farið að líkjast því gosi mun meira en Meradalagosinu 2022 af því leyti að það er í jafnvægi eftir upphafsfasann og virðist nokkuð greið leið fyrir kvikuna til yfirborðs.  Hinsvegar eru meiri líkindi með efnasamsetningu kvikunnar nú og við gosið 2022.  Jarðfræðingar treysta sér ekki til að fullyrða hve lengi gosið getur varað, tala um vikur , mánuði eða ár.  Miðað við hve stöðugt hraunrennslið er þá má frekar gera ráð fyrir nokkuð löngu gosi því það bendir til þess að nóg framboð sé af kviku.

Enn er eitthvað um jarðskjálfta við kvikuganginn og flestir þeirra í grennd við Keili.  Hættusvæði er þvi skilgreint yfir kvikuganginum enda ekki hægt að útiloka að nýjar gossprungur opnist.

Hraunflæðilíkön benda til þess að hraunið flæði úr Meradölum í næstu viku og eigi þaðan nokkuð greiða leið niður á Suðurstrandarveg.  Þangað gæti það náð uppúr miðjum ágúst ef hraunflæði helst svipað og nú er.  Það er erfitt að verja veginn ef út í það fer.  Varnargarðar eða leiðigarðar gætu tafið hraunið einhverja daga en varla mikið lengur og spurning hvort menn reyni það yfirhöfuð.

Scroll to Top