BIÐSTAÐA Í GRINDAVÍK – ELDGOS ENN LÍKLEGT

Birta á :
  • Kvikugangur liggur undir Grindavík, nær út í sjó og um 12-15 km. í norðaustur eftir Sundhnúkasprungunni.
  • Gríðarlegar skemmdir i bænum eftir að sigdalur myndaðist i vesturhlutanum.
  • Kvika talin vera á aðeins 400-800 metra dýpi í ganginum í og við Grindavík.
  • Eldgos enn líklegasti möguleikinn en þó smávon um að svo fari ekki.
Þessi mynd er aðeins breytt skjáskot úr þessu youtube videóli. https://www.youtube.com/watch?v=lzSKQhbn_DM Kvikan er talin koma austan að úr möttulstróknum og hefur hingað til reynt að komast upp í þrem eldstöðvakerfum á skaganum á stuttum tíma.

Síðustu dagar hafa verið afar erfiðir fyrir Grindvíkinga enda allir sem einn þurft að flýja heimil sín. Þegar mestu lætin gengu yfir á föstudagskvöldið þá bjuggust menn við eldgosi jafnvel innan sólarhrings.  Það hefur ekki orðið.  Einhver fyrirstaða er greinilega í efstu jarðlögunum sem meinar kvikunni aðgang að yfirborði.  Því miður eru enn talsverðar líkur á eldgosi því innstreymi í kvikuganginn er talið vera um 75 rúmmetrar á sekúndu sem er býsna mikið samanborið við innstreymi í kvikugangana í fyrri gosum þegar það var að jafnaði um 10-15 rúmmetrar.  Um tíma á föstudagskvöldið var þetta innstreymi hinsvegar gríðarlegt, meira en 1000 rúmmetrar á sekúndu.  

Enn er talsvert sjáskjálftavirkni í þessum kvikugangi.  Það veldur því að sprungur í Grindavík eru enn að hreyfast, sigdalurinn að dýpka og skemmdir á mannvirkjum enn að myndast.

En hvað veldur þessum ósköpum ?  Menn voru ekki vissir í fyrstu hvaðan kvikan í þessum nýja kvikugangi kæmi en nú virðist ljóst að þetta er kvikan sem hefur valdið landrisinu í Svartsengi undanfarnar vikur.  Leið hefur opnast fyrir hana undir Sundhnúkagígaröðina enda hefur á sama tíma orðið mikið landsig við Svartsengi sem skýrir atburðarrásina nokkuð vel. Þessi leið virðist ennþá greið, þ.e. kvikan sem kemur upp í silluna við Svartsengi streymir ennþá beint niður í Sundhnúka af talsverðu afli.  Þetta hefur því minnkað verulega líkur á gosi í Svartsengi.  

Hinsvegar er ennþá til staðar landris í Fagradalsfjalli og óvíst hvað gerist þar.  Best væri að sú kvika héldi sig bara á þeim slóðum and hættuminnstu gosin þar.

En hvaðan kemur kvikan í Svartsengi og Fagradalsfjall ?  Jarðvísindamenn vita nú að kvikan sem kom upp í síðustu gosum hefur öll einkenni möttulstrókskviku sem ALDREI áður hefur sést á Reykjanesskaganum.  Þetta eru mikil tíðindi því það bendir allt til þess að leið hafi opnast fyrir kviku frá kvikuuppsprettum stóru megineldstöðvanna t.d. Bárðarbungu og Öskju undir Reykjanesskagann.  Þetta setur samanburð þessarar virkni sem hófst fyrir fáum árum við fyrri virknistímabil á Reykjanesskaganum úr skorðum.  Þau tímabil sem eru nokkuð þekkt hafa hafist með gosum austast á skaganum, í Brennisteinsfjallakerfinu og unnið sig svo á mörgum áratugum, jafnvel öldum vestur eftir skaganum.  Nú hefst virknin á miðjum skaganum og fleiri en eitt kerfi vakna sem er líka óvenjulegt.   Hvað þetta þýðir fyrir framtíðarhorfur næstu ár og áratugi er óljóst en útlitið er ekkert sérstaklega gott ef við erum að fá þessu möttulstrókskviku í miklu mæli inná skagann.

Myndin sem fylgir lýsir þessum hugmyndum nokkuð vel og útskýrir hvað er  að öllum líkindum að gerast.

 

 

Scroll to Top