Reykjanesskagi

Goshlé í tvær vikur – Skjálftar mælast á ný við Keili

Upptök skjálfta á Reykjanesskaga síðasta sólarhring. Mynd fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Ísland

Nú hefur ekki verið teljandi virkni í gosinu í Geldingadölum í tvær vikur.  Í gær hófst skjálftavirkni skammt suðvestur af Keili, á sömu slóðum og skjálftahrinan hófst í undanfara eldgossins.    

Hvað þessi nýja skjálftavirkni þýðir er ekki endilega augljóst ,nema hvað að umbrotunum er hvergi nærri lokið.  Þessir skjálftar eru flestir á 6-7 km dýpi og eru þess eðlis að þarna virðist vera kvika á ferð.  Stærstu skjálftarnir eru á milli M 3,0 og 3,5. Mögulega er þarna einhver fyrirstaða eða stífla í kvikuganginum, þ.e. kvikan er enn að leita yfirborðs en kemst ekki þá leið sem hún fór áður að Fagradalsfjalli.  Þetta gæti þýtt aukna skjálftavirkni á næstunni þangað til kvikan nær að ryðja sér leið til yfirborðs.  Líklegasti staðurinn fyrir gos er nú samt sem áður núverandi gosstöðvar. 

Það sem aðskilur þessi umbrot frá hefðbundnum eldsumbrotum á Reykjanesskaga er uppruni kvikunnar.  Kvikan er upprunnin á 17-20 km dýpi í möttli og í flestum tilvikum leitaði slík kvika í kvikuhólf undir eldstöðvum og staldraði þar við í einhver ár eða lengur áður en hún leitaði yfirborðs.  Í þessu tilviki leitar kvikan yfirborðs strax í stað þess að fylla á kvikuhólf.  Það þýðir líka að staðsetning eldsuppkomunnar er tilviljakenndari og óreglulegri en ef  kvikan kæmi úr grunnstæðari kvikuhólfi.

Einhverjir vísindamenn hafa í dag talið skýringuna á skjálftunum mögulega vera að jarðskorpan væri að jafna sig eftir gosið eða að þetta væru hefðbundnir skjálftar á flekaskilum.  Það finnst mér ólíklegt, bæði vegna staðsetningar skjálftanna á litlu svæði við kvikuganginn og eðli þeirra.  Mikill fjöldi sjáskjálfta.  Það verður því fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu dögum og vikum.

Gosvirknin lotubundin – Veruleg gosmengun á höfuðborgarsvæðinu

Gosmóðan var greinileg á höfuðborgarsvæðinu síðustu nótt. Mynd: Óskar Haraldsson

Gosið í Fagradalsfjalli hefur enn einu sinni tekið hamskiptum.  Í Tvígang hefur það algjörlega legið niðri í upp undir 12 tíma en tekið sig svo upp aftur af enn meiri krafti en áður.  Hefur virknin fallið svo mikið og lengi að margir hafa talið að gosinu væri hreinlega lokið.  Hafa goshléin verið útskýrð með því að hrun hafi orðið í gígnum og hann stíflast.  Þetta verður að teljast heldur hæpin kenning því gosórói hefði átt að mælast ef kvikan væri að hamast við að brjóta sér leið upp aftur.  Líklegra er að framboð kviku að neðan hafi tímabundið minnkað.  Ef svo er þá má ætla að farið sé að styttast í goslok.

Það er þó ekki að sjá á gosinu í dag að því sé að ljúka, það hefur verið mjög öflugt frá því í gærkvöldi.  Hraun rennur bæði í Nátthaga og Meradali, þó heldur meira í Meradali.  Það hefur ekki bæst við það mikið í Nátthaga að stíflunni sem þar var gerð til varnar Suðurstrandavegi sé ógnað í bili amk.  

Í hægum vindi safmanst gosmóðan gjarnan upp og mjakast einhverja tugi kílómetra frá upptökunum.  Í gær lá talsverð móða yfir höfuðborgarsvæðinu og voru viðkvæmir beðnir að halda sig helst innandyra. 

Lítil jarðskjálftavirkni hefur fylgt gosinu alveg frá því það hófst og mælast nú mjög fáir og litlir skjálftar á Reykjanesskaganum.  Það bendir til þess að gosrásin sé vel smurð og kvikan flæðir áreynsulaust upp á yfirborðið.

Gönguleiðir að gosinu lokast vegna hraunflæðis

 

Þetta kort frá 7. júní sem sýnir útbreiðslu hraunsins er að finna á vefnum https://www.visitreykjanes.is/is/allt-um-eldgosid/gonguleidin/kort-af-svaedinu 

Hraun tók að renna þvert á gönguleið A í gær og lokaði þar með leiðinni að helsta útsýnisstaðnum.  Svonefndur “Gónhóll” hafði þegar lokast af en hóll aftan við hann hafði tekið við hlutverkinu sem besti útsýnisstaðurinn.  Svo er ekki lengur og var svæðinu lokað í dag.  Verið er að hugsa næstu skref hvað varðar gönguleiðir.

Gosið sjálft hefur einnig breytt um takt.  Nú er sírennsli úr gígnum.  Mikil hrauntjörn er í gígnum sem kraumar og sýður í.  Hraunár eru sjáanlegar á yfirborði til austurs og suðausturs en líklega er rennslið þó mest í lokuðum rásum undir storknuðu yfirborði.

Meradalir eru nú vel botnfullir af hrauni.  Nú rennur niður á Nátthaga frá þremur stöðum, stíflunum tveim í “Nafnlausadal” og svo liggur nú taumur frá Geldingadal yfir gönguleið A og beint niður í Nátthaga.  Sá dalur getur þó tekið við allmiklu og þó hraunið þokist nær þjóðveginum þá verður að telja líklegt að það taki enn nokkrar vikur í viðbót fyrir hraunið að ógna veginum.

Einnig er möguleiki að hraunið í Geldingadal finni sér leið niður í Nátthagakrika eftir gönguleið A.  Hvað sem þessum vangaveltum líður er ljóst að sífellt erfiðara er að finna aðgengilegan stað til þess að horfa á gíginn sjálfan þar sem hraunið flæðir lengra frá gígnum í allar áttir eftir því sem á líður.

Síðustu mælingar benda til þess að hraunrennslið sé um 13 rúmmetrar á sekúndu en það kæmi ekki á óvart þó næsta mæling sýndi nokkra aukningu.  

Heimsókn á gosstöðvarnar – Hraunið sækir fram í Nátthaga

Undirrituðum gafst loksins tækifæri til þess að heimsækja gosstöðvarnar á Reykjanesskaga í gærkvöldi.  Eins og búast mátti við blasti við stórfenglegt sjónarspil móður náttúru.

Í sjálfu sér hefur ekki mikið nýtt átt sér stað hvað gosið varðar síðustu tvær vikurnar eða svo.  Tilraunin með varnargarðana var góðra gjalda verð.  Þeir hægja vissulega á hraunstraumi niður í Nátthaga en hraunið hefur nú þegar komist yfir eystri varnargarðinn í allmiklu magni og eitthvað lekið yfir þann vestari.

Jarðfræðingar eru ekki sammála um hve langan tíma tekur fyrir hraunið að komast að Suðurstrandavegi.  Heyrst hefur frá einni viku og upp í fáeina mánuði.  Þess má geta að fyrsta sólarhringinn sem hraunið rann niður í Nátthaga komsta það um þriðjung leiðarinnar að veginum!  Hallinn er þó minni eftir því sem neðar dregur auk þess sem náttúruleg fyrirstaða er í minni dalsins sem ætti að tefja hraunflæðið verulega.  Auk þess  er mögulegt að hlaða upp varnargörðum svipuðum og gert var í nafnlausa dalnum svokallaða en ólíklegt verður að telja að það sé einhver langtíma lausn.

Nú hefur gosið staðið í rúmlega tvo mánuði og meðalhraunrennsli er talsvert meira nú en fyrstu vikurnar.  Mikil hrauntjörn hefur myndast suðaustur af gígnum sem gæti verið fyrsta vísbending um dyngjumyndun.  Tjörnin mun eftir því sem á líður þjóna hlutverki einskonar miðlunarlóns sem deilir hraunstraumum í allar áttir.  

Nú veltum við fyrir okkur sviðsmyndum varðandi lengd gossins:

Hvað gerist ef gosið stendur í 6-12 mánuði?  

Hraunið mun óhjákvæmilega ná niður á Suðurstrandaveg og til sjávar.  Vegurinn verður að sjálfsögðu úr leik allan þann tíma.  Hraunið í Geldingadal mun nær örugglega loka leiðinni uppá “Sjónarhól” og reyndar líklegt að það gerist innan tveggja vikna eða svo.

Hvað gerist ef gosið stendur í 1-5 ár ?

Svosem ekki mikið meira en ef það stendur í 6-12 mánuði nema hvað hraunið mun algjörlega fylla Meradali, Geldingadali og Nátthaga.  Líklegt er að hrauntangi verði til út í sjó neðan nátthaga.  Hraun mun flæða uppúr Geldingadal og niður eftir gönguleiðinni og að endingu rjúfa enn stærra skarð í Suðurstrandaveg sem að sjálfsögðu verður ónothæfur allan tímann sem gosið varir.

Hvað gerist ef gosið varir í 5-20 ár eða lengur?

Við sjáum stóra dyngju myndast.  Hún gæti jafnvel hulið fjallendið í kring að miklu leyti.  Hraun rennur eftir sem áður aðallega til suðurs og austurs en leitar einnig leiða til suðvesturs og vesturs.  Það gæti komið til þess að huga þurfi að því að verja Grindavík, beina hrauninu frá bænum.  Núverandi gönguleiðir að eldstöðvunum færu allar undir hraun. 

Mögulega gæti myndast dyngja á stærð við Þráinsskjöld en miðað við núverandi hraunrennsli tæki slík myndun um 20 ár en heildarrúmmál Þráinsskjaldar er um 5 rúmkílómetrar.  Reikna má með að 10-20 kílómetrar af Suðurstrandavegi færu undir hraun.  Þá er ekki hægt að útiloka hraunflæði til norðurs en landslagi þarna háttar þannig að mjög ólíklegt verður að telja að hraunið færi að ógna Reykjanesbrautinni.  Líklega yrði þegar farið að gjósa annarsstaðar á Reykjanesskaganum þar sem ógnin væri meiri hvað það varðar.

 

Mikil aukning á gosvirkni milli vikna

 

Myndin er fengin af vef Jarðvísindastofnunar Háskólans og sýnir þróun hraunrennslis og efnafræði kvikunnar.

Jarðvisindastofnun Háskólans mælir vikulega hraunrennsli og efnasamsetningu kvikunnar í eldgosinu í Fagradalsfjalli.  Nýjustu mælingarnar frá því í gær verða að teljast allnokkur tíðindi því nú mælist meðal hraunflæði 12,9 rúmmetrar á sekúndu en hefur hingað til verið á milli 5-7 m3. á sekúndu.  Það er því greinilegt að gosið er að sækja í sig veðrið svo um munar, þetta er tvöföldun á hraunrennsli frá því sem áður var.

Líklegasta ástæðan fyrir aukningunni er trúilega útvíkkun gosrásarinnar frá kvikuþrónni í efri lögum möttuls, sennilega hlutbráð, þ.e. kvikan bræðir veggi gosrásarinnar smámsaman og víkkar hana þannig að meira magn kviku getur flætt um hana.  

Það eru ekki komnar nýjar tölur um gaslosun en hún hlýtur að vera í samræmi við hraunrennslið sem þýðir að meiri hætta stafar af gasi í grennd við gosstöðvarnar en áður.  

Hvað þetta þýðir fyrir framhald gossins er ekki gott að segja nema þá að fullyrða má að það sé langt í goslok.  Eins og áður hefur verið fjallað um þá er efnasamsetning kvikunnar mjög lík efnasamsetningu í dyngjum á Reykjanesskaganum, sér í lagi stóru dyngjunum.  Líkur á löngu gosi sem endar í dyngjumyndum verða að teljast allmiklar.  Þá erum við að tala um nokkur ár eða jafnvel lengur.

Scroll to Top