Reykjanesskagi

KVIKUINNSKOT UNDIR FAGRADALSFJALL-MIKILL FJÖLDI SMÁSKJÁLFTA

Skjáskot af vefnum https://vafri.is/quake og sýnir upptök skjálftanna

Mjög þétt smáskjálftavirkni hófst við Fagradalsfjall síðdegis í dag og hefur ef eitthvað er orðið öflugri eftir því sem hefur liðið á kvöldið.  Nær öruggt má telja að þetta sé kvikuinnskot.  Skjálftarnir eru enn sem komið er smáir en mjög þéttir.  Fáir þeirra hafa fundist.  Sambærileg kvikuinnskot voru fyrirboðar eldgosanna árið 2021 og 2022.  Einnig átti sér stað kvikuinnskot í desember 2021, nokkrum mánuðum eftir að fyrra gosinu lauk en það stöðvaðist áður en það náði til yfirborðs.

Enn er óljóst hve mikil kvika er þarna á ferðinni og hversu djúpt innskotið liggur.  Upptök skjálftanna eru á svipuðum slóðum og eldgosin urðu á.  Er því langlíklegast að ef gos hefst þá verður það á svipuðum slóðum og áður.  Það er reyndar mjög heppileg staðsetning. 

Rólegt hefur verið á Reykjanesskaganum síðan eldgosinu lauk í ágúst á síðasta ári en nú virðast þau rólegheit yfirstaðin.  Landris virðist hafa hafist í apríl síðastliðinn og nemur um 2-3 cm á víðáttumiklu svæði á skaganum.  Það bendir til þess að kvika sé að safnast fyrir á allmiklu dýpi og sú kvika er væntanlega að leita ofar núna í formi innskots.  Hvort eldgos verði á næstu dögum eða vikum er of snemmt að segja til um en allavega er ljóst að rólegheitatímabilinu eftir síðasta gos er lokið.

UPPFÆRT 5.JÚLÍ KL. 12:32

Verulega bætti í skjálftahrinuna í nótt og í morgunsárið urðu skjálftar af stærð M 4,8 og M 4,5 sem fundust allvíða á suðvesturlandi.  Skjálftarnir eru grynnri og kvikan því að færast nær yfirborðinu á svæði á milli Keilis og Meradala þar sem gaus í fyrrasumar.  Líkur á gosi hafa aukist mikið og hafa Almannavarnir lýst yfir óvissustigi.  

ELDGOS HAFIÐ Í MERADÖLUM

Þessa mynd tók síðuhöfundur við Reykjanesbraut rétt eftir að gosið braust út. Greina má gosmökkinn yfir Fagradalsfjallgarðinn.

ELDGOS HÓFST Í MERADÖLUM UM KL. 13 20 Í DAG.  GOSIÐ ER MIKLU STÆRRA EN GOSIÐ Í FYRRA, UM 5 – 10 SINNUM STÆRRA.  GOSSPRUNGAN ER UM 4-500 METRA LÖNG OG HRAUN RENNUR NIÐUR Í  MERADALI.  INNVIÐIR ERU EKKI TALDIR Í HÆTTU HALDIST GOSIÐ Á ÞESSUM STAÐ.

Það kom jarðvðisindamönnum allsekki á óvart þegar gosið hófst í dag, það þótti ljóst þegar gervihnattamyndir bárust í gær að kvikugangurinn lægi mjög grunnt undir yfirborðinu og stutt væri í gos. Staðsetningin kemur heldur ekki á óvart nema hvað alveg eins var búist við að sprunga opnaðist nokkuð norðar í átt að Keili.  Þessi staðsetning er  þó óumdeilanlega betri því hraunið rennur í Meradali og lokast þar af.  Það þarf að gjósa ansi lengi af þessum krafti á þessum stað ef hraun á að fara að ógna innviðum.

Helsta ógnin frá þessu gosi er gasmengun.  Þar sem gosið er miklu stærra þá má reikna með að gas geti orðið til vandræða og mögulega hættulegt nálægt gosstöðvunum. Það þarf því að gæta þess að ganga ekki um í lægðum nærri nýju hrauni eða gossprungum þegar verið er á svæðinu.  Óþægindi geta vel skapast vegna gasmengunar í byggð, td. Grindavík ef og þegar mökkinn leggur þangað.

Framvinda gossins er auðvitað með öllu óljós. Jarðskjálftavirkni er enn nokkur þrátt fyrir að gosið sé hafið en ætti að draga úr henni á næstu dögum.  Enn er eftir að efnagreina gosefnin en telja verður langlíklegast að þau séu þau sömu og í síðasta gosi og kvikan því ættuð úr möttlinum.  Gætum við því aftur fengið nokkurra mánaða langt gos.

KVIKAN LIGGUR GRUNNT- ELDGOS AÐ VERÐA MJÖG LIKLEGT

Harðir jarðskjálftar urðu á Reykjanesskaga í gærkvöldi og fram á nótt, sá sterkasti 5,0 og átti upptök á Sveifluhálsi vestan Kleifarvatns.  Sá skálfti var eðlilega harðastur í Krísuvík en fannst mjög vel á höfuðborgarsvæðinu og reyndar nær öllu suður og vesturlandi. 

Í dag bárust gervihnattamyndir sem sýna að kvikugangurinn liggur mjög grunnt norður af gosstöðvunum frá því í fyrra og í átt að Keili, jafnvel á innan við 1 km dýpi.  Innstreymi kvikunnar er tvöfalt á við það sem var fyrir gosið í fyrra og má því búast við mun öflugra gosi.

Gosstöðvarnar yrðu væntanlega norðanvestan við Meradali þar sem greið leið yrði fyrir hraunrennsli í norður niður farvegi eldri dyngjuhrauna í átt að Reykjanesbrautinni.  Það eru þó einir 8-9 km þangað svo bráð hætta er varla fyrir hendi.

Skjálftavirkni hefur farið heldur minnkandi nú seinni partinn og fram á kvöld en það gæti verið merki um að kvikan sé komin það nálægt yfirborði að hún sé við það að hætta að  þurfa að brjóta bergið og að þá styttist í gosið.

STÓR SKJÁLFTI M 5,4 VIÐ GRINDAVÍK- KVIKAN FÆRIST OFAR

Mynd fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands og sýnir yfirfarna skjálfta. Stærsti hringurinn nærri Grindavík er stóri skjálftinn í dag.

Um kl. 18 í dag varð mjög öflugur skjálfti með upptök aðeins 3 km norðaustur af Grindavík.  Til að byrja með var stærðin nokkuð á reiki þar sem annar nokkuð minni skjálfti varð nær samtímis og ruglaði mælinguna.  Nú er ljóst að  hann var M 5,4 eða þar um bil.  Hann fannst víða á suður og vesturlandi, allt vestur á Snæfellsnes og á Hellu og Hvolsvelli. 

Öflugastur var hann í Grindavík og ljóst er að þar varð eitthvað tjón, t.d. á vatnslögn og mikið hrundi úr hillum í verslunum og eflaust í heimahúsum líka.

Skjálftinn varð ekki nærri kvikuganginum sem trúlega er að myndast , heldur var hann svokallaður gikkskjálfti sem verður vegna spennubreytinga sem eiga sér stað þegar kvika er að troða sér inn í jarðskorpuna allfjarri upptökum skjálftans.  Einnig er mikið af skjálftum með upptök nærri Krýsuvík þó þar sé ekki kvika á ferðinni.

Kvikugangurinn sjálfur og megnið af skjálftunum eiga sér stað nokkra km. norður af gosstöðvunum frá því í fyrra og nú telja jarðfræðingar að þar sé líklegast að gjósi, komi til goss.  Kvikan hefur færst ofar frá því í gær og nú er talið að hún sé á aðeins 2-3 km dýpi. Ef sami krafturinn helst í kvikuinnstreyminu á næstu dögum eða vikum þá verður að telja gos mjög liklegt.

Ef eldgos verður þar sem megnið af skjálftunum eiga upptök núna þá er það á nokkuð þægilegu svæði nærri miðjum Reykjanesskaganum.  Það væru ca 8-9 km í Reykjanesbrautina og þyrfti verulega stórt gos til að ógna henni.  Fagradalsfjallgarðurinn myndi vernda Grindavík, Suðurstrandarveginn og liklega innviðina í Svartsengi líka. 

ÖFLUGT KVIKUINNSKOT VIÐ FAGRADALSFJALL OG MIKIL SKJÁLFTAVIRKNI

Þetta kort er fengið af vefnum vafri.is 

Um hádegisbil í dag hófst öflug jarðskjálftahrina skammt norðaustur af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga. Fljótlega varð ljóst að kvikuhreyfingum á um 5-7 km dýpi væri um að kenna.  Langlíklegast er að um sé að ræða kvikuinnskot eða kvikugang líkt og í undanfara gossins í fyrra. 

Svipaður atburður átti sér stað í desember sl. en hrinan núna virðist mun öflugri sem þýðir einfaldlega að það er meiri kvika á hreyfingu.  Þó er hrinan ekki  nærri eins öflug og sú sem varð fyrir gosið , amk. ekki enn sem komið er.  

Stærstu skjálftarnir hafa verið M 4,4  og M 4,0 og fundust báðir víða á suðvesturhorninu.  Skjálftarnir eru flestir staðsettir fáeinum km. norðaustur af gosstöðvunum frá því í fyrra en engu að síður verður að telja líklegast að ef til eldgoss kæmi þá væri líklegasta staðsetning áðurnefndar gosstöðvar því þar er fyrirstaðan minnst.

Þessi atburður hefur verið kallað kvikuhlaup en það er nú varla réttnefni því þá er oftast átt við að kvika ferðist úr grunnstæðu kvikuhólfi lárétt eftir sprungukerfum.  Þarna er ekkert grunnstætt kvikuhólf, heldur kvikuþró á 16-20 km dýpi og er því freka um að ræða lóðrétta hreyfingu kviku, þ.e. kvikuinnskot.

Þessi hrina getur vel staðið í nokkra daga en ómögulegt er að segja hvort hún endi með gosi.  Líklega eru minni en helmings líkur á því.  Svona hrinur munu verða oft og reglulega næstu áratugina eins og jarðfræðingar hafa bent á þar sem Reykjanesskaginn er vaknaður af tæplega 800 ára svefni.

Það er hægt að fá rauntímakort á vef Veðurstofu Íslands en einnig bendum við á mjög góð rauntímakort hér:  Skjálfti 2.0 (vafri.is)

Scroll to Top
%d bloggers like this: