Jarðskjáltar um víða veröld
 • Tue 08:58:14 (UTC) 4.1, - Details
 • Tue 08:48:18 (UTC) 4.0,Offshore Guerrero, - Details
 • Tue 08:42:04 (UTC) 4.2,New Zealand - Details
 • Tue 08:22:19 (UTC) 4.0,Offshore Chiapas, - Details
 • Tue 08:17:59 (UTC) 4.4,Mendoza, - Details
 • Tue 07:57:24 (UTC) 4.1,Michoacan, - Details
 • Tue 07:44:34 (UTC) 3.8,Sumbawa Region, - Details
 • Tue 07:20:25 (UTC) 3.8,Northern Sumatra, - Details
 • Tue 07:14:09 (UTC) 3.6,Sumba Region, - Details
 • Tue 07:13:46 (UTC) 3.8,27 km of Soomar, Kermans.. - Details
(http://www NULL.chess NULL.com?ref_id=4222785)
Free online chess games! (http://www NULL.chess NULL.com/)

Annáll Heklugosa

Hekla verður að teljast nokkuð líkleg til að gjósa á næstu vikum eða mánuðum þó enn sé of snemmt að fullyrða það.  Því er ekki úr vegi að fara lauslega yfir  Heklugos á sögulegum tíma.  Vegna nálægðar Heklu við byggð þá er ekkert vafamál að öll Heklugosin eru þekkt, ólíkt því sem á við um eldstöðvar sem eru lengra uppi á hálendinu eða í Vatnajökli sem dæmi.

1104  Fyrsta gosið í Heklu eftir landnám og jafnframt það mesta.  Goshlé hefur verið amk. 250 ár frá næsta gosi á undan en svo langt hlé hefur ekki orðið á Heklugosum síðan.  Gosið var eingöngu gjóskugos og komu upp um 2,5 km3 af súrri gjósku.  Mjög mikið tjón varð enda var blómleg byggð í Þjórsárdal um þetta leyti sem eyddist svo að segja öll í gosinu.    Aðeins eitt öskugos hefur verið stærra síðan land byggðist, það varð í Öræfajökli árið 1362.  Veturinn 1105 var kallaður “sandfallsvetur” og er skýringin væntanlega öskufall eða öskufok frá gosstöðvunum enda súr ríólít askan kísilrík og eðlisléttari en gosefni úr basalti sem eru algengari.  Ekki er vitað hve lengi gosið stóð.

1158  Fremur lítið er vitað um þetta gos sem hófst í janúarmánuði.  Það mun þó hafa verið allmikið og jafnvel síst minna en gosið 1104.  Tjónið hinsvegar lítið, sjálfsagt bæði vegna þess að það kemur upp um hávetur og að byggð næst fjallinu hafði hvort eð er laggst af í gosinu 1104.

 

1206  Heklugos hefst 4. desember og sást eldur í fjallinu til vors árið eftir.  “eldgangur mikill með stórdynkjum, vikurfalli og sandrigningu víða um sveitir”  Segir í riti Þorvalds Thoroddsen um gosið sem var þó mun minna en hin tvö fyrri gos og olli litlum sem engum skaða.

 

1222  Gos sem var frekar lítið og svipað gosinu á undan.  Heimildir geta þess þó sérstaklega að sól hafi verið rauð að sjá.  Askan í þessu gosi var fíngerð og fór hátt og hefur því valdið þessum breytingum á ásjónu sólar.  Ekki er vitað hve lengi gosið stóð.

1294  Segir frá miklu Heklugosi í Oddverjaannál.  Hinsvegar hefur ekkert fundist, hvork hraun né gjóska, sem styður frásagnir um þetta gos og því er ártölum líklega ruglað og á heimildin við mikið gos árið 1300.

1300  Mikið gos sem hófst um miðjan júlí, þ.e. á versta tíma fyrir bændur sem voru meginuppistaðan í Íslensku samfélagi á þessum tíma.  “Eldsuppkoma í Heklufelli með svo miklu afli að sjást um meðan Ísland er byggt” segir í annálum.  Askan barst norður og varð mest tjón í Fljótum og í Skagafirði.  Mikið hallæri fylgdi gosinu á þeim slóðum og varð fjölda fólks að bana.  Gosið mun hafa staðið yfir í um ár en eins og flest eða öll Heklugos, langöflugast í byrjun.  Í þessu gosi féllu um 0,5 km3 af gjósku og sett í samhengi við gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 þar sem féllu um 0,3 km3 af gjósku þá sést vel hve öflugt það var.

1341  Heklugos hefst 19. maí.  Gosið var mun minna en árið 1300 en olli þó töluverðum skaða á suður og vesturlandi enda kom það upp í sumarbyrjun.  Mikið tjón varð á búpeningi og í Þjórsárdal sem hafði byggst upp að hluta til aftur eftir gosið mikla árið 1104 urðu veruleg skakkaföll.

1389-1390   Gos sem virðist hafa verið svipað af afli og gosið á undan og olli talsverðu tjóni.   Það mun hafa staðið í nokkra mánuði veturinn.  Hófst það í fjallinu sjálfu en færði sig síðar til suðvesturs í skóg sem þá var fyrir ofan bæinn Skarð. “og kom þar upp með svo miklum býsnum, að þar urðu eftir tvö fjöll og gjá á milli” segir í annál.  Væntanlega eru lýsingarnar eitthvað örlítið ýktar.

1440  Litlar og óáreiðanlegar heimildir eru til um þetta gos sem varð ekki í Heklu sjálfri heldur skammt suðaustur af fjallinu.  Ártalið er meira að segja eitthvað á reiki, Þorvaldur Thorodssen telur þetta gos hafa verið árið 1436.   Tilvist gossins er studd með gjóskulagarannsóknum en líklega hefur það verið lítið.  Þrátt fyrir að gosið hafi ekki verið í Heklu sjálfri þá varð það í eldstöðvakerfi Heklu og tilheyrir því Heklugosum.

1510 Mikið gos sem hófst 25.júlí og olli miklu tjóni á suðurlandi.  Maður í Skálholti, allfjarri Heklu, rotaðist þegar hann fékk grjóthnullung frá gosinu í hausinn.  Eins og svo oft áður kom gosið upp að sumri til sem er versti tími fyrir frumstæðan landbúnað,  eins og þjóðin lifði á þá, til að takast á við náttúruhamfarir af þessu tagi.  Heimildir geta um eldgos á hálendinu norðan Vatnajökuls sama ár þó ekki hafi tekist að staðsetja það en eftir þessar hamfarir kom sótt um allt land og önduðust um 400 manns fyrir norðan.

1554  Gos sem ýmist er kennt við Rauðbjalla eða Vondubjalla skammt suðvestur af Heklu.  Gosið varð semsé ekki í Heklu sjálfri en telst þó til Heklugosa enda í eldstöðvakerfi Heklu.   Óvenjusnarpir jarðskjálftar fylgdu upphafshrinu gossins, það harðir að fólk í nágrenninu hafðist við utandyra.  Það stóð í um 6 vikur og olli ekki miklu tjóni.  Hraun rann sem kallað er Pálssteinshraun og er um 10 ferkílómetrar.

1597  Gos hófst 3.janúar þetta ár, stóð það í um hálft ár en olli ekki miklu tjóni enda upphafshrinan og mesta gjóskufallið um hávetur.  18 eldar voru taldir sjást í fjallinu frá sumum bæjum á suðurlandi og frá Skálholti sýndir fjallið vera allt í einum loga.  Það er því ljóst að þetta hefur verið nokkuð tilkomumikið gos, etv. mikil kvikustrókavirkni.

1636  Þann 8.maí hófst fremur lítið gos í Heklu en það stóð lengi, mallaði í rúmt ár.  Töluvert  tjón varð á búfénaði og högum í næsta nágrenni fjallsins en ekki varð skaði annarsstaðar á landinu.

1693  hófst þann 13. febrúar eitt af mestu og skaðsömustu Heklugosum síðan land byggðist og stóð það með einhverjum hléum líklega í um 10 mánuði.  Upphafshrinan var eins og svo oft langöflugust en öskufalls varð þó vart fram í mars.  Askan í þessu gosi barst til Noregs og rigndi niður á skip á Atlantshafinu. Margar jarðir lögðust í eyði í Landsveit, Í Hreppum og Tungum.  Fénaður sýktist víða, fiskur drapst í ám og vötnum og mikill fugladauði varð.

1725 Varð eldgos skammt suðaustan við Heklu en ekki í fjallinu sjálfu.  Telst það þó sem fyrr til Heklugosa enda í sama eldstöðvakerfinu.  Var það lítið og olli engu tjóni fyrir utan að nokkuð harðir jarðskjálftar urðu í upphafi gossins og segir sagan að bærinn Haukadalur á Rangárvöllum hafi hrunið vegna þeirra.  Þetta sama ár var mikil goshrina á Mývatnsöræfum í hámarki.

1766  Þann 5. apríl hófst lengsta Heklugos á sögulegum tíma.  Stóð það í tvö ár.  Gorbyrjunin var mjög áköf.  Vikurfall olli skaða á Suðurlandi, 5 bæir í Rangárvallasýslu fóru í eyði, Ytri- Rangá stíflaðist vegna öskufalls og norðan heiða hrundi búpeningur í hrönnum.  Mikið grjótflug fylgdi gosinu í upphafi og barst það langar leiðir.  Allmikið hraun rann í þessu gosi, mest af því til suðvesturs frá Heklu.  Hallæri, sóttir og fjárfellir kom í kjölfar gossins.

1845  Þann 2. september hófst gos í Heklu sem stóð í um 7 mánuði en olli þó litlum skaða miðað við mörg fyrri gos.  Eitthvað var um að fénaður sýktist, nokkuð mikil aska féll í Skaftártungum og á Síðu.  Flytja þurfti bæinn Næfurholt því hraun rann of nærri og spillti graslendi þar.  Öskunar varð vart á skipum sem sigldu við Shetlandseyjar og Orkneyjar við Bretland.

1878  27.febrúar hófst gos á sprungu við Krakatind skammt austan Heklu.  Allsnarpir jarðskjálftar urðu áður en sást til gossins.  Gosið stóð í 2 mánuði og olli engu tjóni, öskufall lítið.

1913  þann 25.apríl hefst aftur gos á svipuðum slóðum og árið 1878 um 6 km. austur af Heklu.  Gaus á tveimur sprungum og lifði gosið í annarri sprungunni til 4.maí en hálfum mánuði lengur í hinni.  Öskufall varð lítið og tjón ekkert.

1947 hófst allkröftugt gos í Heklu sjálfri þann 29.mars  eftir 102 ára hlé.  Gosið var sérlega öflugt í byrjun og í upphafi þess varð mjög snarpur jarðskjálfti. Í fyrsta sinn voru teknar ljósmyndir af Heklugosi.  Gosmökkurinn náði 30 km. hæð á fyrstu stundum gossins.  Þetta gos olli ekki teljandi tjóni en var má segja tímamótagos því í fyrsta sinn var eldgos á Íslandi rannsakað gaumgæfilega, fyrst og fremst fyrir tilstuðlan Sigurðar Þórarinssonar.   Þær rannsóknir voru þó ekki án fórna því Íslenskur vísindamaður, Steinþór Sigurðsson, lést er hann varð fyrir glóandi hraunhellu sem hrundi úr hraunjaðrinum.    Gosið stóð í um 13 mánuði

1970 þann 5.maí hófst gos sem kennt er við Skjólkvíar.  Varð það ekki nema að litlu leiti í fjallinu sjálfu en að mestu við rætur Heklu suðvestantil.  Var þetta fremur lítið og gjarnan talið fyrsta túristagosið á Íslandi enda sérlega aðgengilegt.  Gosið kom að vissu leiti á óvart því ekki voru liðin nema 23 ár frá síðasta gosi í Heklu.

1980- 1981 Hafi gosið árið 1970 komið á óvart þá urðu menn forviða árið 1980 þegar Heklugjá opnaði sig á 5,5 km. langri sprungu í háfjallinu eftir aðeins 10 ára goshlé.  Fyrsta hrinan var nokkuð snörp og barst askan til norðurs.  Olli hún einhverju tjóni á högum en eins og gefur að skilja voru menn orðnir betur búnir undir hamfarir af þessu tagi en fyrr á tímum.  Gosið stóð aðeins í 3 daga en tók sig svo öllum að óvörum upp aftur 10.mars 1981 en þá rann aðeins lítilsháttar hraun og stóð gosið þá í 7 daga.  Eru gosin flokkuð saman sem eitt gos.

1991  Enn kemur Hekla á óvart þegar gos hefst þann 17.janúar.  Nú var orðið ljóst að Hekla hafði breytt um goshegðu, gýs oftar en aflminni gosum.  Gosið var mjög svipað gosinu 1980, svipað hraunmagn rann en minni gjóska og tjón varð ekkert.  Eldur var í fjallinu í 52 daga.

2000 Enn eitt smágosið í Heklu hefst 26. febrúar og stóð því sem næst í 10 daga.  Í fyrsta sinn tókst vísindamönnum að segja fyrir og vara við yfirvofandi eldgosi á Íslandi með um klukkustundar fyrirvara.  Gosið var lítið og olli ekki tjóni.  Gjóska féll til norðurs frá gosstöðvunum.

Heimildir sem notaðar voru:  Heklueldar eftir Sigurð Þórarinsson , Landskjálftar á Íslandi eftir Þorvald Thoroddsen, Íslenskar eldstöðvar eftir Ara Trausta Guðmundsson.

Þessi annáll verður einnig færður inná aðalsíðuna um Heklu.

 

Athugasemdir

3 Responses to Annáll Heklugosa

 • counseling tees (http://counseling-hoodies NULL.com) says:

  If I were to cocain up that shovel picture in a different
  initialise like JPEG it would regress it’s character the large the appearance gets.
  Mens Ed Hardy over the net females must acquire checked out by
  each and every female as she will undoubtedly get one thing that provides
  out the best of her femininity. 2012 when the Lady Hatters split with
  the Lady Colonials and snapped a 128-game losing streak.

 • women's march on washington (http://shoptshirt NULL.us) says:

  All purchases on are topic to terms and conditions, which may
  possibly change at any time.

 • unique tees (http://uniquetees NULL.xyz) says:

  Cost is just £2 plus postage and packing.

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt.

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>

Færslusafn eftir mánuðum