STÓR SKJÁLFTI M 5,4 VIÐ GRINDAVÍK- KVIKAN FÆRIST OFAR

Birta á :
Mynd fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands og sýnir yfirfarna skjálfta. Stærsti hringurinn nærri Grindavík er stóri skjálftinn í dag.

Um kl. 18 í dag varð mjög öflugur skjálfti með upptök aðeins 3 km norðaustur af Grindavík.  Til að byrja með var stærðin nokkuð á reiki þar sem annar nokkuð minni skjálfti varð nær samtímis og ruglaði mælinguna.  Nú er ljóst að  hann var M 5,4 eða þar um bil.  Hann fannst víða á suður og vesturlandi, allt vestur á Snæfellsnes og á Hellu og Hvolsvelli. 

Öflugastur var hann í Grindavík og ljóst er að þar varð eitthvað tjón, t.d. á vatnslögn og mikið hrundi úr hillum í verslunum og eflaust í heimahúsum líka.

Skjálftinn varð ekki nærri kvikuganginum sem trúlega er að myndast , heldur var hann svokallaður gikkskjálfti sem verður vegna spennubreytinga sem eiga sér stað þegar kvika er að troða sér inn í jarðskorpuna allfjarri upptökum skjálftans.  Einnig er mikið af skjálftum með upptök nærri Krýsuvík þó þar sé ekki kvika á ferðinni.

Kvikugangurinn sjálfur og megnið af skjálftunum eiga sér stað nokkra km. norður af gosstöðvunum frá því í fyrra og nú telja jarðfræðingar að þar sé líklegast að gjósi, komi til goss.  Kvikan hefur færst ofar frá því í gær og nú er talið að hún sé á aðeins 2-3 km dýpi. Ef sami krafturinn helst í kvikuinnstreyminu á næstu dögum eða vikum þá verður að telja gos mjög liklegt.

Ef eldgos verður þar sem megnið af skjálftunum eiga upptök núna þá er það á nokkuð þægilegu svæði nærri miðjum Reykjanesskaganum.  Það væru ca 8-9 km í Reykjanesbrautina og þyrfti verulega stórt gos til að ógna henni.  Fagradalsfjallgarðurinn myndi vernda Grindavík, Suðurstrandarveginn og liklega innviðina í Svartsengi líka. 

ÖFLUGT KVIKUINNSKOT VIÐ FAGRADALSFJALL OG MIKIL SKJÁLFTAVIRKNI

Birta á :
Þetta kort er fengið af vefnum vafri.is 

Um hádegisbil í dag hófst öflug jarðskjálftahrina skammt norðaustur af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga. Fljótlega varð ljóst að kvikuhreyfingum á um 5-7 km dýpi væri um að kenna.  Langlíklegast er að um sé að ræða kvikuinnskot eða kvikugang líkt og í undanfara gossins í fyrra. 

Svipaður atburður átti sér stað í desember sl. en hrinan núna virðist mun öflugri sem þýðir einfaldlega að það er meiri kvika á hreyfingu.  Þó er hrinan ekki  nærri eins öflug og sú sem varð fyrir gosið , amk. ekki enn sem komið er.  

Stærstu skjálftarnir hafa verið M 4,4  og M 4,0 og fundust báðir víða á suðvesturhorninu.  Skjálftarnir eru flestir staðsettir fáeinum km. norðaustur af gosstöðvunum frá því í fyrra en engu að síður verður að telja líklegast að ef til eldgoss kæmi þá væri líklegasta staðsetning áðurnefndar gosstöðvar því þar er fyrirstaðan minnst.

Þessi atburður hefur verið kallað kvikuhlaup en það er nú varla réttnefni því þá er oftast átt við að kvika ferðist úr grunnstæðu kvikuhólfi lárétt eftir sprungukerfum.  Þarna er ekkert grunnstætt kvikuhólf, heldur kvikuþró á 16-20 km dýpi og er því freka um að ræða lóðrétta hreyfingu kviku, þ.e. kvikuinnskot.

Þessi hrina getur vel staðið í nokkra daga en ómögulegt er að segja hvort hún endi með gosi.  Líklega eru minni en helmings líkur á því.  Svona hrinur munu verða oft og reglulega næstu áratugina eins og jarðfræðingar hafa bent á þar sem Reykjanesskaginn er vaknaður af tæplega 800 ára svefni.

Það er hægt að fá rauntímakort á vef Veðurstofu Íslands en einnig bendum við á mjög góð rauntímakort hér:  Skjálfti 2.0 (vafri.is)

Nokkuð snarpur skjálfti í Kötlu

Birta á :
Upptök jarðskjálftanna í Kötlu í kvöld. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Í kvöld varð skjálfti M 4,1 í sunnanverðri Kötluöskjunni.  Nokkrir eftirskjálftar fylgdu, allir mun minni.  Skjálftinn virðist ekki hafa fundist í nágrenninu, amk. hafa engar tilkynningar um það borist.  

Skjálftavirkni er venjulega mest í Mýrdalsjökli síðsumars og á haustin. Reikna má með skjálftahrinum í jöklinum næstu mánuði en það er svosem ekkert sem bendir til stærri atburða þrátt fyrir að goshléið í Kötlu sé orðið það lengsta sem vitað er um á sögulegum tíma, enda ekki gosið svo staðfest sé síðan 1918.

Þessir skjálftar eru á vatnasviði Sólheimajökuls en hlaup úr jöklinum frá því svæði eru vel þekkt þó ekki komi til eldgoss, þar er væntanlega jarðhitavirkni um að kenna.

Óvenju snarpur skjálfti í Langjökli

Birta á :
Upptök skjálftanna í Langjökli. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Kl. 22 12 í kvöld varð jarðskjálfti í Langjökli sem mældist M 4,6.  Skjálftinn fannst mjög víða, um allt vesturland, norður í Húnavatnssýslu, á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu.  Miðað við þetta kæmi varla á óvart að hann hafi verið mun stærri en þessar fyrstu niðurstöður benda til.  Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst, þeir stærstu um M 3.

Skjálftinn varð í syðri hluta jökulsins, af því er virðist í jaðri öskjunnar sem þarna er undir jöklinum á tæplega 4 km dýpi.  Skjálftavirkni á þessu svæði hefur verið allnokkur í gegnum tíðina en þó sjaldgæft að þetta stórir skjálftar ríði yfir.  Langjökull tilheyrir vestara gosbeltinu eins og Reykjanesskaginn sem nú er að vakna upp af tæplega 800 ára blundi.  Hvort Langjökulskerfið vakni líka skal ósagt látið en síðasta gos í kerfinu varð um árið 900 þegar Hallmundarhraun rann um 50km leið frá jökulsporðinum niður í Hvítársíðu í verulega stóru gosi.

 

Snarpir skjálftar í Eldvörpum – Óvissustigi lýst yfir vegna skjálftanna á Reykjanesskaga

Birta á :
Upptök yfirfarinna skjálfta á Reykjanesskaga síðustu 7 daga. Þarna má sjá nokkrar skjálftaþyrpingar þar sem öflugar hrinur hafa orðið síðastliðna viku. Myndin er fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands.

Enn ein öflug jarðskjálftahrinan gekk yfir á Reykjanesskaganum í dag, í þetta skiptið eru upptökin í eldvörpum sem eru 10 km löng gígaröð sem varð til í goshrinu á 13.öld.  Stærsti skjálftinn mældist M 4,6 og allnokkrir á bilinu M 3 – 4,2.  Aðeins virtist draga úr hrinunni seint í kvöld.  Þensla og landris vegna kvikusöfnunar á Svartsengissvæðinu veldur þessum skjálftum en svipaður atburður átti sér stað á þessum slóðum árið 2020.  

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna skjálftanna á Reykjanesskaga.

Eldvörp tilheyra Svartsengiskerfinu og eru í vesturhluta þess.  Gos á þessum stað væri mun skárri kostur en austar í kerfinu þar sem færri mannvirki væru í hættu.  

Jarðskjálftinn sem varð í Þrengslunum í gær virðist hafa verið brotaskálfti á flekaskilum og sú virkni hefur fjarað  út í dag.  Óvíst er að sá skjálfti tengist hrinunni vestar á skaganum.

Nú líða fáir dagar orðið á milli öflugra jarðskjálftahrina á Reykjanesskaganum og virknin flakkar á milli kerfa.  Miðlæg kvikusöfnun virðist vera á miklu dýpi undir Fagradalsfjalli.  Kvika er á hreyfingu grynnra í öllum hinum kerfunum á mið- og vestanverðum skaganum sem veldur þessum skjálftahrinum þ.e. í Reykjaneskerfinu vestast, þá í grenndi við Svartsengi og fjallið Þorbjörn og einnig hefur verið órói á Krísuvíkursvæðinu.  Reikna verður með áframhaldandi virkni á næstunni, mögulega grunnstæðari kvikuinnskotum og eldgos er alls ekki hægt að útiloka.

 

Scroll to Top