STÓR SKJÁLFTI M 5,4 VIÐ GRINDAVÍK- KVIKAN FÆRIST OFAR
Um kl. 18 í dag varð mjög öflugur skjálfti með upptök aðeins 3 km norðaustur af Grindavík. Til að byrja með var stærðin nokkuð á reiki þar sem annar nokkuð minni skjálfti varð nær samtímis og ruglaði mælinguna. Nú er ljóst að hann var M 5,4 eða þar um bil. Hann fannst víða á suður og vesturlandi, allt vestur á Snæfellsnes og á Hellu og Hvolsvelli.
Öflugastur var hann í Grindavík og ljóst er að þar varð eitthvað tjón, t.d. á vatnslögn og mikið hrundi úr hillum í verslunum og eflaust í heimahúsum líka.
Skjálftinn varð ekki nærri kvikuganginum sem trúlega er að myndast , heldur var hann svokallaður gikkskjálfti sem verður vegna spennubreytinga sem eiga sér stað þegar kvika er að troða sér inn í jarðskorpuna allfjarri upptökum skjálftans. Einnig er mikið af skjálftum með upptök nærri Krýsuvík þó þar sé ekki kvika á ferðinni.
Kvikugangurinn sjálfur og megnið af skjálftunum eiga sér stað nokkra km. norður af gosstöðvunum frá því í fyrra og nú telja jarðfræðingar að þar sé líklegast að gjósi, komi til goss. Kvikan hefur færst ofar frá því í gær og nú er talið að hún sé á aðeins 2-3 km dýpi. Ef sami krafturinn helst í kvikuinnstreyminu á næstu dögum eða vikum þá verður að telja gos mjög liklegt.
Ef eldgos verður þar sem megnið af skjálftunum eiga upptök núna þá er það á nokkuð þægilegu svæði nærri miðjum Reykjanesskaganum. Það væru ca 8-9 km í Reykjanesbrautina og þyrfti verulega stórt gos til að ógna henni. Fagradalsfjallgarðurinn myndi vernda Grindavík, Suðurstrandarveginn og liklega innviðina í Svartsengi líka.