Snarpir skjálftar í Mýrdalsjökli

Birta á :

Milli kl. 9 og 10 í morgun hófst óvenju öflug jarðskjálftahrina í Mýrdalsjökli.  Stærsti skjálftinn mældist M 4,8 og tveir aðrir M 4,5 og 4,4.  Þetta eru öflugasta skjálftahrina í jöklinum frá því árið 2016.   Stærsti skjálftinn er þó líklega öflugasti skjálfti í Mýrdalsjökli síðan 1977 eða í 46 ár.  

 Upptök skjálftanna eru í norðaustanverðri Kötluöskjunni, þar sem eru þekkt jarðhitasvæði.  Flest bendir einmitt til þess að skjálftarnir tengist jarðhitasvæðunum frekar en kvikuhreyfingum þar sem skjálftarnir eru mjög grunnir.  Einkenni kvikuhreyfinga eru margir smáir skjálftar á talsverðu eða miklu dýpi. Því er ekki fyrir að fara hér, amk. ekki eins og staðan er núna.

Myndin er fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í Mýrdalsjökli.

Það er því ólíklegt að þessir skjálftar séu undanfari eldgoss en heldur ekki hægt að útiloka það.  Tímasetningin er frekar óvenjuleg því yfirleitt er mestur órói í Kötlu á haustin eftir sumarleysingar í jöklinum. 

Skjálftarnir eru hinsvegar óvenju stórir miðað við skálfta af völdum vatns og jarðhita.  Það er ekki hægt að útiloka hlaup úr þeim jarðhitakötlum sem óróinn er mögulega tengdur og verður eflaust vel fylgst með því næstu sólarhringana.

Það hefur verið nokkuð um skjálfta undanfarnar vikur í Kötlu, mun meira en venjulega er á þessum árstima.   

 

Veruleg jarðskjálftavirkni norðan Herðubreiðar

Birta á :
Upptök skjálftanna við Herðubreið

Jarðskjálftavirkni hefur verið viðvarandi rétt norðan Herðubreiðar í þrjá sólarhringa og virðist draga lítið úr henni.  Stærsti skjálftinn varð í upphafi hrinunnar, M 4,0 og fannst hann á Norðurlandi.  það er sterkasti skjálftinn á þessum slóðum allt frá því að mælingar hófust þar fyrir rúmum 30 árum.  Skjálftahrinur hafa orðið af og til á þessu svæði undanfarin ár, einkum við Herðubreiðartögl.  

Athygli vekur að hluti skjálftanna eiga upptök á verulegu dýpi, 10- 15 km sem alltaf bendir til kvikuhreyfinga.  það verður þó að teljast afar ólíklegt að sú kvika komist upp á yfirborðið á þessu svæði.  Eldgos væri alltaf líklegast nær Öskju þó´sprungusveimur kerfisins teygi sig norður fyrir Herðubreið.

Órói hefur verið í Öskjukerfinu í heild frá Holuhraunsgosinu og verulegt landris mælst þar síðustu árin.  Telja vísindamenn að mikið magn kviku hafi safnast fyrir í kvikuhólfi undi Öskju. 

Snörp jarðskjálftahrina austur af Grímsey

Birta á :
Upptök skjálfta við Grímsey síðasta sólarhring. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálftahrina hófst um 10 km austur af Grímsey síðastliðna nótt með skjálfta upp á M 4,9 sem var mjög snarpur í Grímsey.  Síðan hefur skolfið stöðugt og fjölmargir skjálftar yfir M 3.  Hrinur sem þessar á Tjörnesbrotabeltinu eru algengar og verða svo að segja á hverju ári einhversstaðar á beltinu.  Reikna má með að hrinan haldi áfram einhverja sólarhringa í viðbót. 

Eldgos eru ekki óþekkt úti fyrir norðurlandi.  Síðast er vitað um gos við Mánáreyjar á 19.öld, nánar tiltekið árið 1867.  Kolbeinsey hefur einnig risið úr sæ í neðansjávargosi ekki fyrir svo löngu.  Grímsey sjálf er öllu eldri.  Ekkert bendir þó til þess að gos sé í aðsigi.

Flekaskilin liggja um þessar slóðir og eru nokkuð flókin því sniðreksbelti liggur í austur og skiptist í einar þrjár megingreinar.  Grímseyjarbeltið svokallað sem þarna liggur er virkast af af þessum greinum á sniðreksbeltinu hvað jarðskjálfta varðar en eldgos sjaldgæf.

Mjög stórir skjálftar geta orðið á Tjörnesbrotabeltinu, allt að M 7.

 

 

 

ELDGOS HAFIÐ Í MERADÖLUM

Birta á :
Þessa mynd tók síðuhöfundur við Reykjanesbraut rétt eftir að gosið braust út. Greina má gosmökkinn yfir Fagradalsfjallgarðinn.

ELDGOS HÓFST Í MERADÖLUM UM KL. 13 20 Í DAG.  GOSIÐ ER MIKLU STÆRRA EN GOSIÐ Í FYRRA, UM 5 – 10 SINNUM STÆRRA.  GOSSPRUNGAN ER UM 4-500 METRA LÖNG OG HRAUN RENNUR NIÐUR Í  MERADALI.  INNVIÐIR ERU EKKI TALDIR Í HÆTTU HALDIST GOSIÐ Á ÞESSUM STAÐ.

Það kom jarðvðisindamönnum allsekki á óvart þegar gosið hófst í dag, það þótti ljóst þegar gervihnattamyndir bárust í gær að kvikugangurinn lægi mjög grunnt undir yfirborðinu og stutt væri í gos. Staðsetningin kemur heldur ekki á óvart nema hvað alveg eins var búist við að sprunga opnaðist nokkuð norðar í átt að Keili.  Þessi staðsetning er  þó óumdeilanlega betri því hraunið rennur í Meradali og lokast þar af.  Það þarf að gjósa ansi lengi af þessum krafti á þessum stað ef hraun á að fara að ógna innviðum.

Helsta ógnin frá þessu gosi er gasmengun.  Þar sem gosið er miklu stærra þá má reikna með að gas geti orðið til vandræða og mögulega hættulegt nálægt gosstöðvunum. Það þarf því að gæta þess að ganga ekki um í lægðum nærri nýju hrauni eða gossprungum þegar verið er á svæðinu.  Óþægindi geta vel skapast vegna gasmengunar í byggð, td. Grindavík ef og þegar mökkinn leggur þangað.

Framvinda gossins er auðvitað með öllu óljós. Jarðskjálftavirkni er enn nokkur þrátt fyrir að gosið sé hafið en ætti að draga úr henni á næstu dögum.  Enn er eftir að efnagreina gosefnin en telja verður langlíklegast að þau séu þau sömu og í síðasta gosi og kvikan því ættuð úr möttlinum.  Gætum við því aftur fengið nokkurra mánaða langt gos.

KVIKAN LIGGUR GRUNNT- ELDGOS AÐ VERÐA MJÖG LIKLEGT

Birta á :

Harðir jarðskjálftar urðu á Reykjanesskaga í gærkvöldi og fram á nótt, sá sterkasti 5,0 og átti upptök á Sveifluhálsi vestan Kleifarvatns.  Sá skálfti var eðlilega harðastur í Krísuvík en fannst mjög vel á höfuðborgarsvæðinu og reyndar nær öllu suður og vesturlandi. 

Í dag bárust gervihnattamyndir sem sýna að kvikugangurinn liggur mjög grunnt norður af gosstöðvunum frá því í fyrra og í átt að Keili, jafnvel á innan við 1 km dýpi.  Innstreymi kvikunnar er tvöfalt á við það sem var fyrir gosið í fyrra og má því búast við mun öflugra gosi.

Gosstöðvarnar yrðu væntanlega norðanvestan við Meradali þar sem greið leið yrði fyrir hraunrennsli í norður niður farvegi eldri dyngjuhrauna í átt að Reykjanesbrautinni.  Það eru þó einir 8-9 km þangað svo bráð hætta er varla fyrir hendi.

Skjálftavirkni hefur farið heldur minnkandi nú seinni partinn og fram á kvöld en það gæti verið merki um að kvikan sé komin það nálægt yfirborði að hún sé við það að hætta að  þurfa að brjóta bergið og að þá styttist í gosið.

Scroll to Top