Gosinu virðist lokið – En hvað svo ?

Birta á :
Þetta kort er að finna á vefsíðunni ferlir.is og sýnir útbreiðslu hrauna á Reykjanesskaga eftir landnám. Ath að þarna vantar nýju hraunin í Fagradalsfjallseldstöðinni.

Gosinu við Litla-Hrút virðist hafa lokið í gær, laugardaginn 6. ágúst.  Það stóð því í 26 daga og kom upp talsvert meira magn kviku en í gosinu í Meradölum í fyrra.  Gosið var þó miklu minna en gosið í Geldingadölum 2021 þó byrjunin á þessu gosi hafi verið kröftug.

Þetta fer því í flokk smágosa á Reykjanesskaganum.  Hraunið þekur aðeins um 1,5 ferkílómetra.  Þetta var þriðja gosið í Fagradalsfjallseldum en spurningin er hvað gerist í framhaldinu.  Það er dálítið erfitt að ráða í söguna og miða við fyrri eldsumbrotatímabil á Reykjanesskaganum þar sem ekki hefur gosið í Fagradalsfjallseldstöðinni i 6000 ár fyrr en nú.   Á síðasta eldsumbrotatímabili sem hófst um árið 800 virðist virknin hafa hafist nokkurnveginn samtímis í Krísuvíkurkerfinu og í Brennisteinsfjöllum.  Síðan á næstu árhundruðum fært sig vestur eftir skaganum.  Nú virðist þessu ekki þannig háttað.  Umbrotahrinur, landris og skjálftar hafa verið í Reykjaneskerfinu, Svartsengi og í Krísuvíkurkerfinu fyrir utan Fagradalsfjallskerfið.  Þrátt fyrir að goshlé hafi verið hvað lengst í Brennisteinsfjallakerfinu þá hefur ekki orðið vart við sambærileg umbrot þar og í hinum kerfunum.  

Vísindamenn hafa varpað fram þeirri kenningu að í raun sé aðeins ein stór kvikuþró undir skaganum sem fæði öll kerfin.  Sú kvikuþró er þá nærri miðjum skaganum, semsagt á ca 17-20 km dýpi undir Fagradalsfjalli eða þar um bil.  

Tvær sviðsmyndir virðast út frá þessu líklegastar hvað varðar næstu ár og kanski áratugi.  Annarsvegar að við fáum fleiri gos í þessu kerfi og þau verði norðar, þ.e. í kringum og norður af Keili.  Líklegast smágos.  Hitt er kanski ekkert síður líklegt að virknin færi sig fljótlega yfir í Krísuvíkurkerfið þar sem talsvert hefur verið um skjálfta og umbrot undanfarin ár.  Þar eru gos líklegust á svokallaðri Trölladyngjurein vestan við Sveifluháls.  Á þeim slóðum urðu nokkuð mikil eldgos á 12. öld (ca. 1155-1188) þar sem m.a. Kapelluhraun rann til sjávar þar sem álverið í Straumsvík stendur og Ögmundarhraun rann til sjávar sunnan megin á skaganum.  Trúlega ekki í sama gosinu þó.  Ekki er hægt að útiloka eldsumbrot nær  Kleifarvatni þar sem forna gíga er að finna td. Grænavatn.

Hvað sem verður er þó líklegast að við fáum í það minnsta nokkurra mánaða hlé áður en skaginn bærir aftur á sér.  Það hefur liðið tæpt ár á milli gosa síðan þau hófust en ómögulegt er að segja til um hvort hléin verði svipuð að lengd.

Scroll to Top