Gosið í jafnvægi – Gæti orðið langt

Birta á :
Á Rúv 2 er eldgosið í beinni frá Litla-Hrút þar sem sjá má gíginn og hraunánna sem frá honum rennur.

Eldgosið við Litla – Hrút hefur verið í jafnvægi má segja frá því á degi þrjú.  Nú er gosið átta daga gamalt og hraunrennsli um 10-13 rúmmetrar á sekúndu.  Það er töluvert meira en var að jafnaði í gosinu í Geldingadölum 2021.  Gosið nú er farið að líkjast því gosi mun meira en Meradalagosinu 2022 af því leyti að það er í jafnvægi eftir upphafsfasann og virðist nokkuð greið leið fyrir kvikuna til yfirborðs.  Hinsvegar eru meiri líkindi með efnasamsetningu kvikunnar nú og við gosið 2022.  Jarðfræðingar treysta sér ekki til að fullyrða hve lengi gosið getur varað, tala um vikur , mánuði eða ár.  Miðað við hve stöðugt hraunrennslið er þá má frekar gera ráð fyrir nokkuð löngu gosi því það bendir til þess að nóg framboð sé af kviku.

Enn er eitthvað um jarðskjálfta við kvikuganginn og flestir þeirra í grennd við Keili.  Hættusvæði er þvi skilgreint yfir kvikuganginum enda ekki hægt að útiloka að nýjar gossprungur opnist.

Hraunflæðilíkön benda til þess að hraunið flæði úr Meradölum í næstu viku og eigi þaðan nokkuð greiða leið niður á Suðurstrandarveg.  Þangað gæti það náð uppúr miðjum ágúst ef hraunflæði helst svipað og nú er.  Það er erfitt að verja veginn ef út í það fer.  Varnargarðar eða leiðigarðar gætu tafið hraunið einhverja daga en varla mikið lengur og spurning hvort menn reyni það yfirhöfuð.

Scroll to Top