Eldfjallasafnið í Stykkishólmi heimsótt

Birta á :

Eldgos.is heimsótti í vikunni Eldfjallasafnið í Stykkishólmi sem Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur stofnsetti fyrir nokkrum misserum.  Þetta er afar fróðlegt safn þar sem sjá má listaverk frá öllum heimshornum sem tengjast eldgosum auk ýmissa muna bæði frá Íslandi og erlendis frá.  Haraldur hefur á starfsferli sínum komið víða við þar sem eldfjöll eru annarsvegar og ber safnið þess glögglega merki.  Er óhætt að mæla með þessu fróðlega safni fyrir alla sem eiga leið um á þessu svæði.  Vefslóð safnsins er www.eldfjallasafn.is.  Haraldur heldur einnig úti fróðlegri bloggsíðu og er slóðin á hana http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/ Hér að neðan eru myndir frá safninu, smellið á smámyndirnar til að opna stærri mynd.

Snarpir skjálftar á Reykjaneshrygg

Birta á :

Allsnarpir jarðskjálftar urðu í gærkvöldi um 20-30 km. suðvestur af Reykjanesi.  Stærsti skjálftinn mældist 4.0 á Richter og annar varð upp á 3.6.   Skjálftarnir eru á flekaskilum og algengt að þarna verði skjálftar af þessari stærð og jafnvel mun stærri.  Engin ástæða er til að ætla að þeir boði eldvirkni.

Einnig hafa mælst skjálftar við Krísuvík undanfarna daga, sá stærsti 2,8 á Richter og fannst hann í Hafnarfirði.  Meðfylgjandi kort er fengið af vef Veðurstofu Íslands.

Mikil leiðni í Múlakvísl

Birta á :

Enn og aftur er Katla að valda mönnum áhyggjum.  Leiðni jókst í kvöld í Múlakvísl og einnig vatnshæð og hitastig.  Af öryggisástæðum var þjóðveginum um Mýrdalssand lokað tímabundið meðan verið var að kanna aðstæður.  Er þetta enn eitt dæmið um aukinn jarðhita í Mýrdalsjökli.  Sigkötlum hefur fjölgað og þeir sem fyrir voru hafa stækkað til muna undanfarna daga.  Katla er því nánast komin í gjörgæslu vísindamanna.

Mbl.is – Náið fylgst með Mýrdalsjökli

Ruv.is – Breytingar i Múlakvísl

Visir.is – Aukin leiðni í Múlakvísl og órói í Mýrdalsjökl

Næturskjálftar í Kötlu

Birta á :

Í nótt varð jarðskjálftahrina í Kötlu.  Stærsti skjálftinn var samkvæmt upphaflegum mælingum 3.8 ár Richter en eitthvað virðist stærð skjálftans á reiki því skömmu síðar var hann lækkaður í 2.6.  Hann virðist þó hafa verið hækkaður aftur skv. vef veðurstofunnar í upprunalegan styrk.  Skjálftarnir röðuðu sér á SV-NA línu frá miðri öskjunni og til norðausturs.  Ró komst aftur yfir svæðið síðla nætur.

Þetta er framhald þess óróa sem verið hefur í Mýrdalsjökli undanfarið og bendir til einhverra hreyfinga í kvikuhólfi Kötlu.  Enn sem komið er eru skjálftar þó tiltölulega vægir miðað við það sem vænta má í undanfara Kötlugoss ef um slíkt er að ræða.  Myndin er fengin af vef veðurstofunnar og sýnir upptök skjálfta í Kötlu undanfarinn sólarhring.

Orsakaði eldgos hlaupið úr Hamrinum ?

Birta á :

Nú eru taldar líkur á að lítið eldgos hafi orsakað jökulhlaupið í Sveðju og Köldukvísl í fyrradag. Samkvæmt frétt Bylgjunnar og Vísis átti hlaupið upptök sín á svæði skammt austan við Hamarinn og mynduðust tveir sigkatlar á stað þar sem ekki var vitað um jarðhita áður.  Þó þetta hafi verið mjög lítið gos þá er þetta staðfesting á aukinni virkni á þessu svæði.  Ekki er vitað nákvæmlega hvenær gaus í Hamrinum síðast en algengara er að gos í Bárðarbungukerfinu verði nær Bárðarbungu sjálfri.  Hamarinn er megineldstöð sem tilheyrir Bárðarbungukerfinu.  Jarðskjálftar hafa verið tíðir í grennd við Hamarinn undanfarin ár.

Scroll to Top