Skjálfti yfir 3 á Richter í Kötlu

Birta á :

Um kl 18 45 í gærkvöldi varð jarðskjálfti í Kötlu upp á 3,2 á Richter samkvæmt sjálfvirkum mælum Veðurstofunnar.  Mældist skjálftinn á tæplega 3ja kílómetra dýpi í norðvestur- hluta öskjunnar.  Nokkuð hefur verið um skjálfta á svæðinu í allt sumar og langflestir þeirra í öskjunni.  Þó er einnig alltaf eitthvað um skjálfta vestar á svæðinu, í grennd við Goðabungu.

Það er alkunn staðreynd að skjálftum fjölgar í Mýrdalsjökli þegar nær dregur hausti og tengist það ísbráðnun á jöklinum sem nær hámarki á þessum árstíma.  Flest eldgos á sögulegum tíma í Kötlu hafa orðið á tímabilinu ágúst-nóvember.  Aukin jarðhitavirkni og nýjir sigkatlar í jöklinum ásamt nokkurri skjálftavirkni gefa fulla ástæðu til að fylgjast með þó of snemmt sé að segja að eldgos sé yfirvofandi.  Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Snarpur jarðskjálfti rétt við Grindavík

Birta á :

Klukkan 22 14 í kvöld varð jarðskjálfti sem mældist 3.7 á Richter á sjálfvirkum mælum Veðurstofunnar. Upptök skjálftans eru aðeins 2,6 km ANA af Grindavík.  Fannst hann á Suðurnesjum og á Höfuðborgarsvæðinu.  Þarna hefur skolfið undanfarna daga en þetta er þó stærsti skjálftinn i þessari hrinu.  Skjálftar eru algengir á þessum slóðum.

Eldfjallasafnið í Stykkishólmi heimsótt

Birta á :

Eldgos.is heimsótti í vikunni Eldfjallasafnið í Stykkishólmi sem Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur stofnsetti fyrir nokkrum misserum.  Þetta er afar fróðlegt safn þar sem sjá má listaverk frá öllum heimshornum sem tengjast eldgosum auk ýmissa muna bæði frá Íslandi og erlendis frá.  Haraldur hefur á starfsferli sínum komið víða við þar sem eldfjöll eru annarsvegar og ber safnið þess glögglega merki.  Er óhætt að mæla með þessu fróðlega safni fyrir alla sem eiga leið um á þessu svæði.  Vefslóð safnsins er www.eldfjallasafn.is.  Haraldur heldur einnig úti fróðlegri bloggsíðu og er slóðin á hana http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/ Hér að neðan eru myndir frá safninu, smellið á smámyndirnar til að opna stærri mynd.

Snarpir skjálftar á Reykjaneshrygg

Birta á :

Allsnarpir jarðskjálftar urðu í gærkvöldi um 20-30 km. suðvestur af Reykjanesi.  Stærsti skjálftinn mældist 4.0 á Richter og annar varð upp á 3.6.   Skjálftarnir eru á flekaskilum og algengt að þarna verði skjálftar af þessari stærð og jafnvel mun stærri.  Engin ástæða er til að ætla að þeir boði eldvirkni.

Einnig hafa mælst skjálftar við Krísuvík undanfarna daga, sá stærsti 2,8 á Richter og fannst hann í Hafnarfirði.  Meðfylgjandi kort er fengið af vef Veðurstofu Íslands.

Mikil leiðni í Múlakvísl

Birta á :

Enn og aftur er Katla að valda mönnum áhyggjum.  Leiðni jókst í kvöld í Múlakvísl og einnig vatnshæð og hitastig.  Af öryggisástæðum var þjóðveginum um Mýrdalssand lokað tímabundið meðan verið var að kanna aðstæður.  Er þetta enn eitt dæmið um aukinn jarðhita í Mýrdalsjökli.  Sigkötlum hefur fjölgað og þeir sem fyrir voru hafa stækkað til muna undanfarna daga.  Katla er því nánast komin í gjörgæslu vísindamanna.

Mbl.is – Náið fylgst með Mýrdalsjökli

Ruv.is – Breytingar i Múlakvísl

Visir.is – Aukin leiðni í Múlakvísl og órói í Mýrdalsjökl

Scroll to Top