Íslaust Öskjuvatn vekur athygli

Birta á :

það hefur vakið athygli jarðfræðinga nýlega að Öskjuvatn (Askja i Dyngjufjöllum) er íslaust sem undir venjulegum kringumstæðum gerist ekki á þessum árstíma.  Þrátt fyrir methita í mars þá er það mjög hæpin skýring enda öll önnur vötn á norðausturlandi ísilögð.  Mestar líkur verður að telja að aukin jarðhitavirkni i eldstöðinni valdi þessu.  Öskjuvatn er dýpsta stöðuvatn landsins, um 220 metra djúpt.  Af þeim sökum er vatnið afar rúmmálsmikið og því ljóst að mikinn hita þarf til að halda því íslausu á þessum árstíma.

Nokkur virkni hefur verið á svæðinu undanfarin ár, aukin jarðskjálftavirkni og einhver kvikutilfærsla á svæðinu umhverfis Upptyppinga en vafamál er þó hvort það tengist Öskjueldstöðinni með beinum hætti.  Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort svæðið verður sérstaklega vaktað en fylgst verður með því.

Vegna legu eldstöðvarinnar þá telst hún ekki sérlega hættuleg enda órafjarri mannabyggðum og gos á þessum slóðum veldur ekki jökulhlaupi og gerir varla skaða á virkjanasvæðum.  En þrátt fyrir fjarlægðirnar þá olli stórgosið i Öskju 1875 gríðarlegu öskufalli og stórtjóni af völdum þess á Austurlandi.

Það getur gosið í öskjunni sjálfri eða í fjöllunum umhverfis hana.  Síðast gaus í kerfinu árið 1961.  Nokkrar jarðhræringar voru i aðdraganda gossins, jarðskjálftar og leirhverir opnuðust í svokölluðu Öskjuopi en þar gaus svo í október sama ár.

Mbl.is 4.apríl

Ábending: fólk fari ekki inn að Öskju

Mbl.is greinir frá því nú síðdegis að mælst er til þess að  fólk fari ekki inná svæðið umhverfis Öskju að óþörfu því mögulegt er að eitraðar gastegundir séu að leita upp.  Ekki er vitað hvaða atburðarás er í gangi á svæðinu.  Sérstaklega er varað við Öskjuvatni og  gígnum Víti sem er rétt við vatnið.

Þess má geta að árið 1986 fórust um 1700 manns í Afríkuríkinu Cameroon þegar eitraðar gastegundir stigu frá botni Nyos stöðuvatnsins.  Voru það íbúar í nágrenni vatnsins.  Það var einmitt Íslenskur eldfjallafræðingur, Haraldur Sigurðsson, sem fyrstur manna áttaði sig á hvað var að gerast á þeim slóðum.  Á þessari stundu er ekkert sérstakt sem bendir til þess að eitraðar gastegundir séu endilega að stíga upp en allur er varinn góður meðan menn vita ekki hvað er að gerast þarna.

Skjálftar við Geirfuglasker

Birta á :

Jarðskjálftahrina hófst við Geirfuglasker ca. 25 km. suðvestur af Reykjanestá um kl. 20 30 í kvöld.  Skjálftarnir eru flestir milli 2-3 á Richter samkvæmt mælum veðurstofunnar en athygli vekur að flestir þeirra eru á um 10-15 km dýpi.  Það er frekar djúpt miðað við hefðbundna flekaskjálfta á eða við Ísland.  Hrinan er enn í fullum gangi en þess ber að geta að skjálftar á þessum slóðum á Reykjaneshrygg eru mjög algengir.

Fyrir rúmum mánuði varð heldur öflugri hrina úti fyrir Reykjanesi en það var fjær landi en hrinan í kvöld.  Þá er skemmst að minnast skjálftanna við Hafnarfjörð í byrjun mars.  Það virðist því nokkur óróleiki í gangi á vestara gosbeltinu.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í kvöld.

Snarpir skjálftar rétt við Hafnarfjörð

Birta á :

Um kl. 00 30 í kvöld varð allsnarpur jarðskjálfti sem fannst vel a höfuðborgarsvæðinu.  Skjálftinn átti upptök við Helgafell uþb. 10 km. suður af Hafnarfirði og er skv. mælum Veðurstofunnar á um 3,8 km. dýpi.   Þegar þetta er skrifað um kl. 01 04 varð annar snarpur skjálfti sem fannst mjög vel í höfuðborginni og má ætla að hafi verið um 3,5 -4 af stærð.  Heyrðist greinilegur hvinur á undan honum.  Samkvæmt sjálfvirkum mælum viðurstofunnar mælist hann 3,9.

Fyrr í kvöld urðu tveir skjálftar  af svipaðri stærð norður af Gjögri, fyrir minni Eyjafjarðar.  Fundust þeir kippir víða við vestanverðan Eyjafjörð.

Meðfylgjandi mynd er af vef Veðurstofunnar og sýnir jarðskjálfta síðustu 2 sólarhringa.

UPPFÆRT KL. 14 26

Hrinan við Helgafell fjaraði út á nokkrum klukkustundum en gæti tekið sig upp aftur.  Varla er þó við því að búast að skjálftarnir verði stærri en þeir sem urðu í nótt en sá síðari mældist 4,2M.  Eins og fram kemur í þessari frétt mbl.is þá urðu skjálftarnir nær höfuðborgarsvæðinu en vant er og á minna sprungnu svæði.  Því fundust þeir mjög vel og ollu jafnvel einhverjum skemmdum á húsum í Vallarhverfinu í Hafnarfirði samkvæmt fréttum.

Skjálftarnir í nótt urðu á sprungu sem liggur frá Kleifarvatni, um Sveifluháls og að Rauðavatni.  Þannig gætu orðið skjálftar á þessari sprungu enn nær byggð en í gærkvöldi þó ekkert bendi svosem til þess.

Vert er að vekja athygli á góðri bloggfærslu Ómars Ragnarssonar um þessa skjálfta og Reykjanesskagann.

Nokkuð snarpir skjálftar á Reykjaneshrygg

Birta á :

Jarðskjálftahrina hófst í nótt á Reykjaneshrygg um 60-70 km. sv. af Reykjanestá.  Hrinan stendur enn og eru stærstu skjálftarnir hingað til um og yfir 3 á Richter samkvæmt sjálfvirkum mælum Veðurstofunnar. Jarðskjálftahrinur á þessum slóðum eru algengar og oft mun öflugri en þessi.  Ein slík hrina varð í ágúst 2011 en þá mun nær landi og með skjálftum upp á 4 á Richter.

Meðfylgjandi mynd sem fengin er af vef Veðurstofu Íslands sýnir upptök skjálftanna.  Grænar stjörnur eru skjálftar yfir 3 á Richter.

Uppfært kl. 13:36 Hrinan færðist nokkuð í aukana uppúr kl. 10 í morgun og allmargir skjálftar um 2,5-3 hafa orðið síðan þá.  Ekkert bendir þó til annars en að þetta sé hefðbundin jarðskjálftahrina á Reykjaneshryggnum.

Nokkur skjálftavirkni við Mýrdalsjökul og á Hengilssvæðinu

Birta á :

Siðastliðinn sólarhring hafa orðið allmargir smáskjálftar á víð og dreif við Mýrdalsjökul en þó flestir í Kötluöskjunni og svo vestan við hana, á Goðabungusvæðinu.  Þá hófst hrina smáskjálfta á Hengilssvæðinu sem tengist væntanlega niðurdælinu vatns á svæðinu á vegum Orkuveitunnar.

Samkvæmt óyfirförnum mælingum á vef Veðurstofunnar varð skjálfti upp á 5,0 um 196 km SSV af Eldeyjarboða á Reykjaneshrygg um kl. 19:24.   Telja verður líklegt að sjá skjálfti hafi ekki orðið eða sé mun minni en þessar mælingar sýna.

Scroll to Top