það hefur vakið athygli jarðfræðinga nýlega að Öskjuvatn (Askja i Dyngjufjöllum) er íslaust sem undir venjulegum kringumstæðum gerist ekki á þessum árstíma. Þrátt fyrir methita í mars þá er það mjög hæpin skýring enda öll önnur vötn á norðausturlandi ísilögð. Mestar líkur verður að telja að aukin jarðhitavirkni i eldstöðinni valdi þessu. Öskjuvatn er dýpsta stöðuvatn landsins, um 220 metra djúpt. Af þeim sökum er vatnið afar rúmmálsmikið og því ljóst að mikinn hita þarf til að halda því íslausu á þessum árstíma.
Nokkur virkni hefur verið á svæðinu undanfarin ár, aukin jarðskjálftavirkni og einhver kvikutilfærsla á svæðinu umhverfis Upptyppinga en vafamál er þó hvort það tengist Öskjueldstöðinni með beinum hætti. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort svæðið verður sérstaklega vaktað en fylgst verður með því.
Vegna legu eldstöðvarinnar þá telst hún ekki sérlega hættuleg enda órafjarri mannabyggðum og gos á þessum slóðum veldur ekki jökulhlaupi og gerir varla skaða á virkjanasvæðum. En þrátt fyrir fjarlægðirnar þá olli stórgosið i Öskju 1875 gríðarlegu öskufalli og stórtjóni af völdum þess á Austurlandi.
Það getur gosið í öskjunni sjálfri eða í fjöllunum umhverfis hana. Síðast gaus í kerfinu árið 1961. Nokkrar jarðhræringar voru i aðdraganda gossins, jarðskjálftar og leirhverir opnuðust í svokölluðu Öskjuopi en þar gaus svo í október sama ár.
Ábending: fólk fari ekki inn að Öskju
Mbl.is greinir frá því nú síðdegis að mælst er til þess að fólk fari ekki inná svæðið umhverfis Öskju að óþörfu því mögulegt er að eitraðar gastegundir séu að leita upp. Ekki er vitað hvaða atburðarás er í gangi á svæðinu. Sérstaklega er varað við Öskjuvatni og gígnum Víti sem er rétt við vatnið.
Þess má geta að árið 1986 fórust um 1700 manns í Afríkuríkinu Cameroon þegar eitraðar gastegundir stigu frá botni Nyos stöðuvatnsins. Voru það íbúar í nágrenni vatnsins. Það var einmitt Íslenskur eldfjallafræðingur, Haraldur Sigurðsson, sem fyrstur manna áttaði sig á hvað var að gerast á þeim slóðum. Á þessari stundu er ekkert sérstakt sem bendir til þess að eitraðar gastegundir séu endilega að stíga upp en allur er varinn góður meðan menn vita ekki hvað er að gerast þarna.