Stórir jarðskjálftar undan ströndum Súmötru

Birta á :

Jarðskjálfti af stærðinni M 8,6 reið yfir á Indlandshafi í morgun, um 500 km. undan ströndum Súmötru.  Eftirskjálfti 8,2 mældist skömmu síðar.  Stærri skjálftinn fannst t.d. í Tælandi, Singapúr, Indlandi og Indónesíu.  Flóðbylgjuviðvörun var gefin út á Indlandshafi en nú þegar er ljóst að ekki verður nein flóðbylgja í líkingu við þá sem skall á ströndum ríkja við Indlandshaf árið 2004 vegna þessa skjálfta.

Undanfarin ár hafa nokkrir mjög  stórir jarðskjálftar orðið undan ströndum Súmötru.   Sá stærsti í desember 2004 mældist 9,1 en árin 2005, 2006 og 2007 urðu skjálftar á svipuðum slóðum upp á 8,5- 8,6.  Við vissar aðstæður geta myndast skaðlegar flóðbylgjum (tsunami)við svo öfluga skjálfta.

Vert er að benda á athyglisverða frétt á mbl.is þar sem Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að skjálftinn í morgun sé að mörgu leiti óvenjulegur.  Hann er ekki á hefðbundnum flekamótum eins og flestir skjálftar, heldur við sniðgengishreyfingu við úthafsfleka þar sem jarðskorpan er þunn og hefur hingað til verið talið að svo stórir skjálftar gætu ekki orðið við slíkar aðstæður.  Sniðgengishreyfingin veldur því að hafsbotninn hreyfist í lárétta stefnu en lyftist ekki upp eins og gerist á flekamótum þar sem einn fleki skríður undir annan, líkt og olli stóru skjálftunum og flóðbylgjunum við Indónesíu 2004 og Japan 2011.  Þegar hreyfingin er lárétt eru miklu minni líkur á flóðbylgju.

Skjálftinn í morgun kemst  í hóp 15 stærstu jarðskjálfta sem mælst hafa á jörðinni frá því farið var að mæla jarðskjálfta.

Fréttir um skjálftana:

cnn.com: Quake off Indonesia triggers tsunami alert

mbl.is:  Jarðskjálfti upp á 8,7 stig

ruv.is: Skjálfti upp á 8,7 við Súmötru

Á neðri myndinni sést dreyfing stærstu skjálftanna í hrinunni í dag samkvæmt Google earth.  Séu þessar staðsetningar réttar er um mjög óvenjulegan atburð að ræða því venjulega raða skjálftar sér nokkurnveginn í röð eftir misgenginu en hér eru þeir óreglulegir.

Breytingar á eldgos.is – Erlent efni

Birta á :

Nú munu fara að birtast á eldgos.is fréttir af erlendum atburðum þ.e. jarðskjálftum og eldgosum þegar um meiriháttar atburði er að ræða.  Leitast verður við að útskýra orsakir atburðanna.  Að auki er fyrirhugað að setja inn greinar um ofureldstöðvar (supervolcanos) og stærstu eldgosum sögunnar gerð skil.

Skjálftar við Kistufell

Birta á :

Hrina smáskjálfta hófst við Kistufell í Vatnajökli snemma í morgun.  Um tugur skjálfta hefur mælst þar en einnig hafa mælst skjálftar sunnar í Bárðarbungu.  Kistufell er um 20-25 km. norðaustur af miðju Bárðarbungu og tilheyrir þeirri eldstöð.  Einnig hafa mælst nokkrir skjálftar í Kverkfjöllum í norðanverðum Vatnajökli í morgun.  Þá er ennþá líf í Tungnafellsjökli sem er einnig á þessum slóðum.

Síðast varð hrina í Kistufelli í desember síðastliðnum.  Jarðskjálftahrinur á þessu svæði hafa verið algengar undanfarin ár, sem og víðar í Bárðarbungueldstöðinni ss. í Hamrinum sunnan til í Bárðarbungukerfinu.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálftar við Tungnafellsjökul

Birta á :

Á Skírdag hófst skjálftahrina við Tungnafellsjökul sem er 1540 metra hátt lítt virkt eldfjall um 25 km. norðvestur af Bárðarbungu.  Af og til hafa komið fram skjálftar í sprungusveim fjallsins, þeir stærstu árið 1996 þegar spennulosun varð á svæðinu vegna elgossins í Gjálp.   Tungnafellsjökull er á mörkum þess að teljast virk eldstöð, aðeins er vitað um tvö lítil hraun við eldfjallið sem gætu verið frá nútíma.

Um 20 skjálftar hafa mælst í hrinunni, sá stærsti tæplegar 3 á Richter varð í nótt.  Athygli vekur að flestir eru skjálftarnir á um 10-12 km dýpi sem gæti bent til einhvernskonar kvikuhreyfinga undir eldstöðinni.

Meðfylgjandi mynd er fengin af skálftavefsjá veðurstofu Íslands.

Fréttir í öðrum miðlum um skjálftana:

mbl.is Jarðskjálftahrina við Tungnafellsjökul

vísir.is Skjálftahrina við Tungnafellsjökul

dv.is Jarðskjálftahrina hófst á Skírdag

ruv.is Skjálftar við Tungnafellsjökul

Annar fróðleikur um Tungnafellsjökul Meistaravörn Þórhildar Björnsdóttur, úrdráttur.

Íslaust Öskjuvatn vekur athygli

Birta á :

það hefur vakið athygli jarðfræðinga nýlega að Öskjuvatn (Askja i Dyngjufjöllum) er íslaust sem undir venjulegum kringumstæðum gerist ekki á þessum árstíma.  Þrátt fyrir methita í mars þá er það mjög hæpin skýring enda öll önnur vötn á norðausturlandi ísilögð.  Mestar líkur verður að telja að aukin jarðhitavirkni i eldstöðinni valdi þessu.  Öskjuvatn er dýpsta stöðuvatn landsins, um 220 metra djúpt.  Af þeim sökum er vatnið afar rúmmálsmikið og því ljóst að mikinn hita þarf til að halda því íslausu á þessum árstíma.

Nokkur virkni hefur verið á svæðinu undanfarin ár, aukin jarðskjálftavirkni og einhver kvikutilfærsla á svæðinu umhverfis Upptyppinga en vafamál er þó hvort það tengist Öskjueldstöðinni með beinum hætti.  Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort svæðið verður sérstaklega vaktað en fylgst verður með því.

Vegna legu eldstöðvarinnar þá telst hún ekki sérlega hættuleg enda órafjarri mannabyggðum og gos á þessum slóðum veldur ekki jökulhlaupi og gerir varla skaða á virkjanasvæðum.  En þrátt fyrir fjarlægðirnar þá olli stórgosið i Öskju 1875 gríðarlegu öskufalli og stórtjóni af völdum þess á Austurlandi.

Það getur gosið í öskjunni sjálfri eða í fjöllunum umhverfis hana.  Síðast gaus í kerfinu árið 1961.  Nokkrar jarðhræringar voru i aðdraganda gossins, jarðskjálftar og leirhverir opnuðust í svokölluðu Öskjuopi en þar gaus svo í október sama ár.

Mbl.is 4.apríl

Ábending: fólk fari ekki inn að Öskju

Mbl.is greinir frá því nú síðdegis að mælst er til þess að  fólk fari ekki inná svæðið umhverfis Öskju að óþörfu því mögulegt er að eitraðar gastegundir séu að leita upp.  Ekki er vitað hvaða atburðarás er í gangi á svæðinu.  Sérstaklega er varað við Öskjuvatni og  gígnum Víti sem er rétt við vatnið.

Þess má geta að árið 1986 fórust um 1700 manns í Afríkuríkinu Cameroon þegar eitraðar gastegundir stigu frá botni Nyos stöðuvatnsins.  Voru það íbúar í nágrenni vatnsins.  Það var einmitt Íslenskur eldfjallafræðingur, Haraldur Sigurðsson, sem fyrstur manna áttaði sig á hvað var að gerast á þeim slóðum.  Á þessari stundu er ekkert sérstakt sem bendir til þess að eitraðar gastegundir séu endilega að stíga upp en allur er varinn góður meðan menn vita ekki hvað er að gerast þarna.

Scroll to Top