Skjálfti upp á 3,7 úti fyrir Norðurlandi

Birta á :

Í morgun mældist skjálfti upp á 3,7  um 30 km suðaustur af Kolbeinsey.  Einhverjir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið.  Jarðskjálftar á þessu svæði sem tilheyrir Tjörnesbrotabeltinu eru algengir og geta orðið mjög harðir.  Hefur einmitt verið bent á það nýlega að langt er síðan sterkir skjálftar hafa orðið úti fyrir norðurlandi en þar geta skjálftar orðið jafnharðir og Suðurlandsskjálftarnir og jafnvel öflugri.

Eldgos á þessum slóðum eru hinsvegar sjaldgæf.  Síðasta eldgos sem vitað er um úti fyrir norðurlandi varð árið 1867 við Mánáreyjar um 5 sjómílur útaf Tjörnesi.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

Fréttir í fjölmiðlum:

DV.is  Jarðskjálfti að stærð 3,7 suðaustur af Kolbeinsey

Mbl.is  Jarðskjálfti upp á 3,7 stig

Katla að vakna af vetrarblundi

Birta á :

Það er nánast fastur liður eins og venjulega að skjálftavirkni eykst í Kötlu á sumrin og virknin helst nokkuð mikil fram á haust.  Jarðskjálftum hefur fjölgað í Kötlu í mánuðinum og í nótt varð hrina með um 20 grunnum smáskjálftum sem virðast tengjast jarðhitakerfum í Kötluöskjunni.

Eldfjöll bera að sjálfsögðu ekki skinbragð á árstíðir en það sem veldur aukinni virkni á sumrin og haustin í Kötlu eru þrýstingsbreytingar vegna snjóbráðnunar á jöklinum.  Það er því engin tilviljun að flest gos í Kötlu á sögulegum tíma verða síðla sumars og á haustin.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir skjálfta í Mýrdalsjökli undanfarna sólarhringa.

Allsnarpur jarðskjálfti norður af Öskju

Birta á :

Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands varð jarðskjálfti af stærðinni 3,5 um 30 km. NNA af Öskju um kl. 12 45 í dag.  Skjálftinn er enn óyfirfarinn og kemur á vefnum fram sem tveir skjálftar en líklega er um einn atburð að ræða.  Enn er óljóst hvað um er að vera en smáskjálftahrinur hafa verið algengar á þessum slóðum undanfarin ár.  Upptökin eru fáeina kílómetra frá Herðubreið en hún er ekki virkt eldfjall.  Samkvæmt óróamælum er ekki um lágtíðniskjálfta að ræða en þeir fylgja kvikuhreyfingum neðanjarðar.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftans sem græna stjörnu.

UPPFÆRT KL. 01 18 –  Hátt í 100 skjálftar hafa mælst í kvöld á svæðinu.  Flestir af stærðinni 1,5 -2.

Hitastig í Öskjuvatni eðlilegt – Ísleysið ekki eðlilegt

Birta á :

Fyrstu niðurstöður á nýjum mælingum á hitatstigi Öskjuvatn sýna að hitinn er aðeins um 1 gráða sem er eðlilegt á þessum árstíma.  Hinsvegar er ekki eðlilegt að vatnið sé íslaust á þessum árstíma og því er það enn ráðgáta hvað veldur ísleysinu.  Frekari mælingar eru fyrirhugaðar, bæði hvort um landris er að ræða á svæðinu og á efnasamsetningu vatnsins.

Landrisið eitt og sér hefði þó tæplega þau áhrif að vatnið leggur ekki.  Ekki hefur verið óeðlileg skjálftavirkni á svæðinu.

Rúv – Loftmyndir af Öskjuvatni

UPPFÆRT 17/4

Bæði Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hafa tjáð sig um þetta mál á bloggsíðum sínum og telja að óvenjulegt tíðarfar valdi ísleysinu.  Færa þeir fyrir því sterk rök.

Haraldur Sigurðsson – Flettu vindar ísnum af Öskjuvatni ?

Einar Sveinbjörnsson – Ísinn á Öskjuvatni – eðlilegar veðurfarsskýringar ?

Scroll to Top