130 ár frá eldgosinu mikla í Krakatá

Birta á :
Anak Krakatoa
Myndi er frá litlu gosi í Anak Krakatoa árið 2008

Krakatá (Krakatoa) er eyja á milli tveggja stærstu eyja Indónesíu, Súmötru og Jövu.  Eldgos hófst á Krakatá í maí 1883 og fram í ágúst sama ár gaus kröftuglega með hléum.  Jarðskjálftar og höggbylgjur frá gosinu riðu yfir nágrennið.  Þann 26. ágúst herti gosið mjög og náði gosmökkurinn 25 km hæð með tilheyrandi öskufalli í Indónesíu.

Morguninn eftir, þann 27. ágúst kváðu við fjórar gríðarlegar sprengingar og eyjan Krakatá hreinlega splundraðist.  Svo mikill var krafturinn í sprengingunum að þær heyrðust til borgarinnar Perth í Ástralíu sem er í 3.100 km. fjarlægð.  Risavaxnar flóðbylgjur (tsunami) sem náðu allt að 40 metra hæð skullu á eyjunum í kring og urðu amk. 36.000 manns að bana.

Þetta er eitt af allra mestu eldgosum sem mannkynið hefur orðið vitni að.  Árið eftir kólnaði veðurfar um allan heim vegna ösku í háloftunum og varð ekki eðlilegt fyrr en 5 árum síðar.

Eyjan Krakatá  minnkaði mikið og breyttist í kjölfar gossins, askja myndaðist sem er um 300 metra djúp og um 6km í þvermál.  Eyja myndaðist í öskjunni í  gosi árið 1930 sem nefnd var Anak Krakatoa eða barn Krakatá og hefur gosið af og til síðan.

Lítið hlaup úr Lóni í Kverkfjöllum

Birta á :

Frá KverkfjöllumJökulstíflað lón í Kverkfjöllum við Vatnajökul sem heitir Gengissig hefur hlaupið síðustu daga í ána Volgu og þaðan í Jökulsá á Fjöllum.  Hlaupið er lítið en hafði þó það af að taka af göngubrú yfir Volgu.  Ekki varð meira tjón af völdum hlaupsins og í raun var rennsli í Jöklulsá á Fjöllum ekki meira en á hlýjum sumardegi í hlaupinu.

Mikill jarðhiti er í Kverkfjöllum, ekki síst undir umræddu lóni.  Hefur það hlaupið nokkrum sinnum svo vitað sé.  Ummerki eru  um gufusprengingar eftir hlaup þar sem stafa af snöggum þrýstingslétti.

Lengi var talið að Kverkfjöll væru afkastamikil eldstöð sem hafi gosið alloft eftir landnám.  Nýjustu rannsóknir benda hinsvegar til þess að Kverkfjöll hafi í raun alls ekki gosið eftir landnám og í raun sjaldan á nútíma.  Flest eða öll þau öskulög sem menn eignuðu Kverkfjöllum hafa eftir rannsóknir reynst koma frá Grímsvötnum eða Bárðarbungu.  Hinsvegar eru merki um mikil forsöguleg gos og stórhlaup frá Kverkfjöllum en það eru mjög gamlar gosmenjar.  Jarðskjálftavirkni er þó alltaf nokkur á svæðinu.

Fréttir í fjölmiðlum um hlaupið:

mbl.is – Hlaup úr Gengissiginu

Dv.is – Lítilsháttar jökulhlaup úr Kverkfjöllum

Smáskjálftar aukast á ný í Kötlu

Birta á :
Nýlegir skjálftar í Kötlu
Nýlegir skjálftar í Kötlu

.

.

 

Nú virðist vera farin í gang hefbundin síðsumars og haustvirkni í Kötlu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem fengin er af vef Veðurstofunnar.  Smáskjálfta virkni hefur verið undanfarna sólarhringa bæði í Kötluöskjunni og undir Goðabungu.  Búast má við áframhaldandi smáskjálftavirkni næstu mánuði en ekkert bendir enn til frekari tíðinda í Kötlu.

Undanfarnir mánuðir hafa verið með afbrigðum rólegir hvað jarðskjálftavirkni varðar á og við landið og fátt fréttnæmt gerst.  Smáskjálftar hafa þó verið í víð og dreif eins og endranær , helst á Suðurlandi, úti fyrir Norðurlandi og í norðanverðum Vatnajökli.

Mayon á Filippseyjum veldur usla

Birta á :

Þegar lítið er um að vera hér á landi er ekki úr vegi að fræðast aðeins um eldfjöll erlendis.  Á Filippseyjum eru fjölmörg eldfjöll enda eyjaklasinn á hinu svokalla eldbelti “ring of fire” sem umlykur Kyrrahafsflekann svokallaða.  Virkasta eldfjall Filippseyja er hin 2462 metra háa eldkeila Mayon sem þykir einstaklega regluleg í laginu.

Þann 7. maí síðastliðinn komst Mayon í fréttirnar þegar þar  fórust 5 fjallgöngumenn  þegar lítið sprengigos ,eða öllu heldur ein stök sprenging, varð í fjallinu. Vitað er um 48 gos í Mayon á síðustu 400 árum.  Nýleg gos í Mayon: 2009-10, 2008, 2006, 1993, 1986 og 1984.  Mayon hefur oft valdið dauðsföllum og tjóni enda allmikil byggð í héröðum nærri fjallinu.  Þá fylgja gjóskuflóð gjarnan eldgosum í Mayon en þau eru einhver hættulegustu fyrirbrigði sem fylgja eldgosum.

Á meðfylgjandi mynd má einmitt sjá gjóskuflóð æða niður hlíðar Mayon í eldgosi árið 1984.

Mayon_Volcano

 

 

Skjálftar undan Reykjanesi

Birta á :
Upptök skjálftanna á Reykjaneshrygg síðasta sólarhring.
Upptök skjálftanna á Reykjaneshrygg síðasta sólarhring.

.

Í gærkvöldi hófst skjálftahrina við Geirfuglasker á Reykjaneshrygg, um 30 km. suðvestur af Reykjanestá.  Nokkrir skjálftar mældust um 3M af stærð, svo dró úr hrinunni í morgun en laust fyrir kl. 11 tók hún sig upp aftur með skjálfta af stærðinni 4,1 og fannst hann á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu.

Hrinur verða á þessum slóðum alloft.  Í mars 2012 varð hrina svo að segja á sama stað en hrinan nú er þó mun öflugri.  Þá urðu hrinur í apríl og september í fyrra en þær voru heldur fjær landi.

Jarðskjálftahrinur á þessum slóðum tengjast flekaskilunum sem liggja þarna um.  Mörg dæmi eru um eldgos á Reykjaneshrygg en ekkert sérstakt bendir til þess nú.

Myndin hér til hægri er tekin af vef Veðurstofu Íslands.

Fréttir um skjálftana í fjölmiðlum:

Ruv.is:  Skjálfti á Reykjanestanga

Mbl.is:  Skjálfti á Reykjanestanga

Visir.is:  Tugir eftirskjálfta

UPPFÆRT 10/5 kl. 01 20

Skjálftahrinan færist í aukana – Skjálfti upp á 4,5

Skjálftahrinan á Reykjaneshrygg hefur haldið látlaust áfram frá því í morgun og hefur heldur færst í aukana.  Um kl. 19 20 í kvöld varð skjálfti upp á 4,5 M og fannst hann víða á Suðvesturlandi.  Hrinan er enn í fullum gangi þegar þetta er skrifað og má því búast við skjálftum um og yfir 4 M eitthvað áfram.  Ekki er að sjá á upptakakorti Veðurstofunnar að staðsetning á upptökum skjálftanna hafi breyst síðan hrinan hófst.

Scroll to Top