Heimsókn á Krakatá

Birta á :

Anak KrakatoaSíðuhöfundur varð þeirrar ánægju aðnjótandi um helgina að heimsækja eitt frægasta eldfjall heims, Krakatá (Krakatoa) í Indónesíu.   Krakatá var eyja á milli hinna tveggja stóru eyja í Indónesíu, Súmötru og Jövu.  Í gríðarlegu gosi árið 1883 splundraðist eyjan og hvarf að mestu í hafið.  Hér er fróðleikur um það gos.

Anak Krakatoa eða barn Krakatá hefur risið úr sæ í öskjunni og er þar nokkuð viðvarandi eldvirkni.  Síðast var virkni i Anak Krakatoa fyrir aðeins 2 vikum og eins og sést á myndunum þá stíga enn gosgufur uppúr toppgígnum.

Það var 3ja tíma ökuferð frá höfuðborg Indónesíu, Jakarta, að ströndinni við vesturenda Jövu og svo 90 mínútna bátsferð til Krakatá.  Ógleymanlegt ævintýri.

Bretar rannsaka áhrif mögulegs stórgoss á Íslandi

Birta á :

Samkvæmt frétt RÚV er hópur Breskra vísindamanna að hefja vinnu við að rannsaka áhrif sem eldgos á stærð við Skaftárelda kann að valda í Bretlandi.  Gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 virðist hafa hreyft við Bretum enda setti gosið flugsamgöngur í Evrópu algjörlega á hliðina í nokkra daga.  Þau skakkaföll eru þó smámunir miðað við möguleg áhrif frá stórgosi á Íslandi.

Fram kemur í fréttinni að stórgos eins og Skaftáreldar verði á um 250-500 ára fresti á Íslandi.  Sennilega eru 500 ár nærri lagi en frá því land byggðist hafa orðið tvö gos af þessari stærðargráðu,  Eldgjárgosið árin 932-4 og Skaftáreldar 1783-5.    Það er vitað að Skaftáreldar ollu miklum búsifjum í Evrópu.  Uppskerubrestur varð og veðurfar kólnaði.  Flest bendir til þess að yfir 2 milljónir manns hafi látið lífið í hungursneið af völdum Skaftárelda í Evrópu og reyndar víðar.    Eldgjárgosið var reyndar enn stærra.  Það er þó ekki bara stærð gossins sem hefur áhrif heldur einnig hvers eðlis gosið er og samsetning gjóskunnar sem dæmi.  Ríkjandi vindátt hefur svo mikið að segja.  Í Eyjafjallajökulsgosinu lagðist allt á eitt.  Þó gosið hafi alls ekki verið stórt í samanburði við td. Skaftárelda þá var askan mjög fíngerð, barst langt og vindáttir voru einstaklega óhagstæðar.

En eru líkur á öðru Eldgjárgosi eða Skaftáreldum ?  Svarið er eiginlega nei.  Eldgjárgosið var mjög óhefðbundið Kötlugos þar sem gossprungan teygði sig langt norðaustur fyrir jökulinn og var óhemju stórt af Kötlugosi að vera.  Slík gos verða á mörg þúsund ára fresti í Kötlueldstöðinni og líkur á svona gosi á okkar tímum afar litlar.  Síðasta gos af þessari stærðargráðu í Kötlu er talið hafa orðið fyrir um 12000 árum.

Sama má segja um Skaftárelda.  Þeir voru mjög óhefðbundið Grímsvatnagos, þ.e. kvikuhlaup varð úr Grímsvötnum til suðausturs og gosið einnig óhemjustórt miðað við Grímsvatnagos.  Þúsundir eða jafnvel tugþúsundir ára líða á milli slíkra gosa frá Grímsvötnum.

Hvar eru þá mestar líkur á stórgosi sem getur valdið búsifjum út fyrir Ísland ?  Langlíklegasta eldstöðin er Bárðarbunga.   Á um 500-800 ára fresti veldur hún stórum eldgosum á hálendinu suðaustur af Bárðarbungu, þ.e. kvikuhlaup eiga sér stað líkt og í Eldgjár- og Lakagígagosunum.  Vatnaöldugosið árið 870 og Veiðivatnagosið árið 1477 voru í hópi mestu eldgosa Íslandssögunnar þó ekki væru þau jafnöflug og Skaftáreldar eða Eldgjárgosin.  Gos á þessum slóðum geta orðið enn stærri, t.d. er Þjórsárhraunið mikla sem rann til sjávar milli Ölfusár og Þjórsár fyrir um 8000 árum ættað úr samskonar gosi, þe. frá Bárðarbungukerfinu.  Er það talið mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni úr einu gosi frá því ísöld lauk fyrir  um 10-12000 árum.

Óróleiki hefur verið í Bárðarbungu í áratugi þó ekki hafi orðið gos.  Jarðskjálftar eru þar mjög tíðir og gæti þessi óróleiki vel verið undanfari stórgoss.  Það getur þó kraumað undir í nokkra áratugi í viðbót áður en til tíðinda dregur en það er okkar mat að Bárðarbunga er langlíklegust í stórgos af Íslenskum eldstöðvum.

Smáskjálftahrina í gangi við Vífilsfell

Birta á :

vifilfell18nov2013

.

Á laugardag hófst jarðskjálftahrina við Vifilsfell við enda Bláfjallaranans.  Í dag herti mikið á hrinunni og mældust yfir 100 skjálftar, þar af tveir um M 2,9 af stærð en langflestir eru þeirþó um 0,5-1,5 af stærð.  Miðað við staðsetninguna mátti fyrst ætla að þessir skjálftar tengdust niðurælingu affallvatns hjá Orkuveitunni en þetta er reyndar nokkrum kílómetrum suðvestur af því svæði og er því ekki skýringin.

Hinsvegar eru smáskjálftahrinur mjög algengar á Reykjanesskaganum og Hengilssvæðinu án nokkurra eftirmála svo þessi hrina kemur lítið á óvart og má búast við að eitthvað skjálfi þarna áfram.

Myndin sem fengin er af vef Veðurstofu Íslands sýnir upptök, fjölda og stærð skjálftanna undanfarna sólarhringa.

Snarpur skjálfti og mikill fjöldi eftirskjálfta við Reykjanestá

Birta á :
Upptök jarðskjálfta við Reykjanestá.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök jarðskjálfta við Reykjanestá. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Uppúr miðnætti hófst jarðskjálftahrina við Reykjanestá.  Mikill fjöldi skjálfta hefur mælst.  Til að byrja með voru þeir flestir smáir, um 1-2 af stærð en kl. 7.32 í morgun varð skjálfti af stærðinni 4,8 sem fannst víða um Suðvestanvert landið.  Er þetta með stærri skjálftum sem mælst hafa á Reykjanesskaga undanfarin ár.  Fjölmargir eftirskjálftar hafa mælst og hrinan enn í fullum gangi þó eitthvað hafi dregið úr henni.

Þrátt fyrir að þetta sé mjög eldbrunnið svæði þá er ekkert sem bendir til annars en að þetta séu hefðbundnir brotaskjálftar á flekaskilum.  Skjálftahrinur á Reykjanesskaganum geta verið þrálátar og má þvi ætla að þarna skjálfi eitthvað áfram og ekki hægt að útiloka fleiri skjálfta á bilinu 4-5 af stærð.  Flestir skjálftarnir eru á um 4-6 km. dýpi.

 

Fréttir af skjálftunum:

Mbl.is:  Jörð skelfur við Reykjanestá

Ruv.is:  Skjálfti af stærð 4,8 fannst víða

.

.

.

.

.

 

Við Reykjanestá
Við Reykjanestá. Þarna gaus síðast á 13. öld, líklegast árið 1226.

 

Kvikuinnskot í Eyjafjarðarál ?

Birta á :

Skjálftar úti fyrir NorðurlandiMargt bendir til þess að kvikuinnskot undir Eyjafjarðarál orsaki mikinn fjölda smáskjálfta sem þar hafa mælst undanfarna daga.  Þessi mikli fjöldi tiltölulega lítilla skjálfta, allir undir M3 af stærð, er óvenjulegur en ætla mætti að stærri skjálftar fylgdu með.  Þeir  hafa hinsvegar ekki orðið.  Skjálftarnir eru ennfremur á nokkuð afmörkuðu svæði og meirihluti þeirra á 10-12 km dýpi sem bendir til kvikuinnskots eins og fram kom í viðtali við jarðeðlisfræðing í hádegisfréttum Rúv í dag.

Öflugar jarðskjálftahrinur hafa orðið undanfarin misseri á brotabeltunum úti fyrir Norðurlandi og er þetta etv. eðlilegt framhald á þeirri virkni.  Innskot í jarðlög á um 10 km. dýpi boðar ekki eldgos, það er amk. mjög ólíklegt.  Staðreyndin er að mikill meirihluti kviku storknar djúpt í jörðu sem innskot án þess að ná nokkurntímann til yfirborðs.  Að sjálfsögðu er þó rétt að fylgjast vel með þessari virkni.

Scroll to Top