Heimsókn í Lava Centre á Hvolsvelli – Glæsileg sýning

Birta á :

Umsjónarmaður Eldgos.is heimsótti um helgina hið nýja “Lava Centre” á Hvolsvelli.  Lava Centre er , svo notaður sé þeirra eigin texti: “LAVA er tæknileg, gagnvirk afþreyingar- og upplifunarmiðstöð til fræðslu um fjölbreytta eldvirkni og jarðskorpuhreyfingar á Íslandi og hvernig landið hefur orðið til á milljónum ára.”

Er skemmst frá því að segja að Lava Centre kom mér verulega á óvart.  Þarna hefur verið unnið frábært starf af miklum metnaði og algjörri fagmennsku.  Sérstaklega var það öll gagnvirknin sem síðuhöfundur hreifst af.  Margir snertiskjáir og í einum salnum var gagnvirkur risaskjár sem náði yfir þrjár hliðar salarins og sýndi þær fimm eldstöðvar sem eru í næsta nágrenni við Hvolsvöll- gjósandi!

Sýningin er mjög fræðandi og myndræn.  Hraunrennsli í návígi, upplífun jarðskjálfta, möttulstrókurinn undir Íslandi – öllu er þessu lýst eins vel og hægt er.  Byggingin sjálf er sérlega skemmtileg og fellur vel í landslagið.  Auk sýningarsala er stór og smekklega innréttaður veitingasalur þar sem verð á mat og veitingum eru sanngjörn.  Þá er verslun með mynjagripi og vörur tengdar eldvirkni á staðnum.

Heimasíða sýningarinnar: Lava Centre.  Einnig er  á sýninguna undir “Tenglar um jarðfræði”.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá sýningunni.  Hægt er að smella á þær til að stækka.

20170625_160937_HDR 20170625_161633_HDR 20170625_162051_HDR 20170625_162330_HDR 20170625_163039_HDR 20170625_163458_HDR 20170625_164301_HDR 20170625_164525_HDR

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Allsnarpur skjálfti við Árnes í Þjórsárdal

Birta á :
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök jarðskjálfta á Suðurlandi í dag.  Græna stjarnan táknar stóra skjálftann.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök jarðskjálfta á Suðurlandi í dag. Græna stjarnan táknar stóra skjálftann.

Jarðskjálfti sem mældist M 4,4 varð skammt suðaustur af Árnesi í Þjórsárdal um hádegisbilið í dag.  Skjálftinn fannst víða á Suðurlandi og var nokkuð harður nærri upptökunum.  Þetta er vel þekkt skjálftasvæði og tengist ekki eldvirkni.  Hekla er sú eldstöð sem er næst þessari jarðskjálftasprungu en þó alveg ótengd henni.

Suðurlandsskjálftar eiga yfireitt ekki upptök á þessum slóðum, beltið sem þeir verða oftast á liggur nokkuð sunnar.   Þó varð skjálfti árið 1630 sem talinn er hafa verið um M 7 af stærð líklega á þessari sprungu.   Vel má vera að þarna skjálfi næstu daga en ólíklegt að þeir skjálftar verði  öflugri en sá sem varð í dag, þó aldrei sé hægt að útiloka að um forskjálfta að stærri skjálfta sé að ræða.

Snörp hrina í Bárðarbungu

Birta á :
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna i Bárðarbungu.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna i Bárðarbungu.

Laust eftir hádegið hófst jarðskjálftahrina í Bárðarbungu sem stendur enn þegar þetta er skrifað.  Stærsti sjálftinn mældist M4,3 en annar M4,1 varð skömmu síðar.  Um kl 15 20 mældist svo skjálfti upp á M3,4.

Skjálftarnir eru á svipuðum slóðum og aðrir stórir skjálftar sem mælsta hafa í Bárðarbungu síðasta árið, nema hvað að þeir eru töluvert dýpri sem hlýtur að vekja athygli.  Þeir eru á um 9-12 km dýpi en þar má ætla að kvikuhólf eldstöðvarinnar sé.  Flestir skjálftar síðasta árið hafa mælst á 3-6 km dýpir sem bendir til þess að átök i hringsprungum ofan við kvikuhólfið hafi valdið þeim.  Það á tæplega við um þessa skjálfta núna.  Dýpi þeirra gæti bent til þess að uppstreymi kviku í kvikuhólfið sé að þrýsta á berglögin í kring.

Vitað er að eldstöðin er að þenjast út einmitt vegna uppstreymis kviku en eldgos í bráð er þó frekar ólíklegt , enda langt í það að kvikuinnstreymið nái að fylla kvikuhólfið að sama marki og það hefur væntanlega verið í þegar umbrotin hófust 2014.

Snarpur skjálfti í Kötlu

Birta á :
Skjálftar í Kötlu 26.jan 2017.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar í Kötlu 26.jan 2017. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálfti sem miðað við fyrstu tölur mældist M 4,3 varð í miðri Kötluöskjunni í dag.  Nokkrir smærri eftirskjálftar hafa fylgt.  Þetta er stærsti skjálftinn i Kötlu siðan i hrinunni 29. ágúst þegar tveir skjálftar 4,5 og 4,6 mældust og það voru þá stærstu skjálftar í Mýrdalsjökli i 39 ár.

Skjálftinn í dag fannst í Vík í Mýrdal en það er hreint ekki algengt að skjálftar í Kötlu finnist í byggð.  Skjálftarnir í dag eiga það sameiginlegt með langflestum skjálftum í Kötlu undanfarið að þeir virðast mjög grunnir, mælast á um 1km dýpi eða við yfirborðið.  Það bendir frekar til þess að einhverjar breytingar á jökulfarginu valdi skjálftunum frekar en kvikuhreyfingar.  Það er þó engan veginn hægt að útiloka að þrýstingsbreytingar af þessu tagi geti haft áhrif á kvikuhólf eldstöðvarinnar og  komið af stað eldgosi.

Fréttir fjölmiðla af skjálftanum í dag:

Ruv.is: Stór skjálfti í Kötlu

Mbl.is: 4,3 stiga skjálfti i Kötlu

Skjálftar á Hengilssvæðinu

Birta á :
Upptök jarðskjálftana í Hengilskerfinu í dag.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök jarðskjálftanna í Hengilskerfinu í dag. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Rétt fyrir hádegi varð jarðskjálfti um 3 km. Sunnan Þingvallavatns sem mældist M 3,8.  Um 30 eftirskjálftar hafa mælst, allir minni en stóri skjálftinn en hann fannst víða á Suðvesturlandi.  Þessi hrina er á nokkuð afmörkuðu svæði í Grafningnum.  Það er ekkert óvanalegt að það skjálfi við Hengilinn.  Þar var mikil jarðskjálftavirkni árin 1994-99 en þar urðu meginhrinurnar í fjalllendinu við Hrómundartind.  Þá var vafalítið um kvikuhreyfingar að ræða þó ekki hafi gosið.  Urðu þá skjálftar um og yfir M 5 af stærð.  Skjálftahrinan í dag er líklega afleiðing uppsafnaðrar spennu fremur en að kvikuhreyfingar eigi hlut að máli , staðsetningin bendir til þess enda eru kvikuhólf eldstöðvakerfisins ekki á þessum slóðum.

Það hefur reyndar ekki gosið í eldstöðvakerfi Hengils í um 2000 ár þó jarðskjálftavirkni sé þar allmikil.  Á um 200 ára fresti verða  öflugar rek- og gliðnunarhrinur í kerfinu, sú síðasta varð árið 1789 með öflugum jarðskjálftum og jarðsigi.  Stækkaði Þingvallavatn þá umtalsvert og munu þessar hræringar hafa átt í það minnsta einhvern þátt í því að Alþingi var flutt til Reykjavíkur nokkrum árum síðar.

Visir.is: Tugir eftirskjálfta á Hengilssvæðinu

Mbl.is: Mikil skjálftavirkni við Hengilinn

Scroll to Top