Snörp hrina í Bárðarbungu

Birta á :
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna i Bárðarbungu.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna i Bárðarbungu.

Laust eftir hádegið hófst jarðskjálftahrina í Bárðarbungu sem stendur enn þegar þetta er skrifað.  Stærsti sjálftinn mældist M4,3 en annar M4,1 varð skömmu síðar.  Um kl 15 20 mældist svo skjálfti upp á M3,4.

Skjálftarnir eru á svipuðum slóðum og aðrir stórir skjálftar sem mælsta hafa í Bárðarbungu síðasta árið, nema hvað að þeir eru töluvert dýpri sem hlýtur að vekja athygli.  Þeir eru á um 9-12 km dýpi en þar má ætla að kvikuhólf eldstöðvarinnar sé.  Flestir skjálftar síðasta árið hafa mælst á 3-6 km dýpir sem bendir til þess að átök i hringsprungum ofan við kvikuhólfið hafi valdið þeim.  Það á tæplega við um þessa skjálfta núna.  Dýpi þeirra gæti bent til þess að uppstreymi kviku í kvikuhólfið sé að þrýsta á berglögin í kring.

Vitað er að eldstöðin er að þenjast út einmitt vegna uppstreymis kviku en eldgos í bráð er þó frekar ólíklegt , enda langt í það að kvikuinnstreymið nái að fylla kvikuhólfið að sama marki og það hefur væntanlega verið í þegar umbrotin hófust 2014.

Snarpur skjálfti í Kötlu

Birta á :
Skjálftar í Kötlu 26.jan 2017.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar í Kötlu 26.jan 2017. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálfti sem miðað við fyrstu tölur mældist M 4,3 varð í miðri Kötluöskjunni í dag.  Nokkrir smærri eftirskjálftar hafa fylgt.  Þetta er stærsti skjálftinn i Kötlu siðan i hrinunni 29. ágúst þegar tveir skjálftar 4,5 og 4,6 mældust og það voru þá stærstu skjálftar í Mýrdalsjökli i 39 ár.

Skjálftinn í dag fannst í Vík í Mýrdal en það er hreint ekki algengt að skjálftar í Kötlu finnist í byggð.  Skjálftarnir í dag eiga það sameiginlegt með langflestum skjálftum í Kötlu undanfarið að þeir virðast mjög grunnir, mælast á um 1km dýpi eða við yfirborðið.  Það bendir frekar til þess að einhverjar breytingar á jökulfarginu valdi skjálftunum frekar en kvikuhreyfingar.  Það er þó engan veginn hægt að útiloka að þrýstingsbreytingar af þessu tagi geti haft áhrif á kvikuhólf eldstöðvarinnar og  komið af stað eldgosi.

Fréttir fjölmiðla af skjálftanum í dag:

Ruv.is: Stór skjálfti í Kötlu

Mbl.is: 4,3 stiga skjálfti i Kötlu

Skjálftar á Hengilssvæðinu

Birta á :
Upptök jarðskjálftana í Hengilskerfinu í dag.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök jarðskjálftanna í Hengilskerfinu í dag. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Rétt fyrir hádegi varð jarðskjálfti um 3 km. Sunnan Þingvallavatns sem mældist M 3,8.  Um 30 eftirskjálftar hafa mælst, allir minni en stóri skjálftinn en hann fannst víða á Suðvesturlandi.  Þessi hrina er á nokkuð afmörkuðu svæði í Grafningnum.  Það er ekkert óvanalegt að það skjálfi við Hengilinn.  Þar var mikil jarðskjálftavirkni árin 1994-99 en þar urðu meginhrinurnar í fjalllendinu við Hrómundartind.  Þá var vafalítið um kvikuhreyfingar að ræða þó ekki hafi gosið.  Urðu þá skjálftar um og yfir M 5 af stærð.  Skjálftahrinan í dag er líklega afleiðing uppsafnaðrar spennu fremur en að kvikuhreyfingar eigi hlut að máli , staðsetningin bendir til þess enda eru kvikuhólf eldstöðvakerfisins ekki á þessum slóðum.

Það hefur reyndar ekki gosið í eldstöðvakerfi Hengils í um 2000 ár þó jarðskjálftavirkni sé þar allmikil.  Á um 200 ára fresti verða  öflugar rek- og gliðnunarhrinur í kerfinu, sú síðasta varð árið 1789 með öflugum jarðskjálftum og jarðsigi.  Stækkaði Þingvallavatn þá umtalsvert og munu þessar hræringar hafa átt í það minnsta einhvern þátt í því að Alþingi var flutt til Reykjavíkur nokkrum árum síðar.

Visir.is: Tugir eftirskjálfta á Hengilssvæðinu

Mbl.is: Mikil skjálftavirkni við Hengilinn

Annáll Kötlugosa

Birta á :

GOSANNÁLL KÖTLUKatla

Hér á eftir verða rakin þau gos sem vitað er um og staðfest í Kötlu.  Þessi annáll verður einnig settur inn á aðalsíðuna um Kötlu.

Á nútíma, þ.e. síðustu 10-12.000 ár hefur Katla gosið amk. 300 sinnum og virðist gostíðnin á köflum hafa verið meiri fyrir sögulegan tíma.  Ummerki eru um stórgos í eldstöðinni, eitt það stærsta fyrir um 12.000 árum þegar sprengigos varð þar sem upp komu líklega um 10 rúmkílómetrar af gjósku.   Til samanburðar komu upp um 0,3 rúmkílómetrar í Eyjafjallajökulsgosinu árið 2010.  Þá eru ummerki um stór sprungugos utan jökuls, t.d. Hólmsáreldar fyrir um 6800 árum.

Á sögulegum tíma er framan af lítið um heimildir, helst minnst á allra stærstu viðburði eins og Eldgjárgosið.  Gjóskulagarannsóknir hafa þó opinberað nokkur gos, stærð þeirra og tímatal að nokkru leiti.  Gos á sögulegum tíma eru um 20 talsins.

Níunda öld , sennilega á bilinu 894-898.  Fyrsta Kötlugosið eftir landnám og var þetta gos lítið.  Engar heimildir eru til um gosið en tilurð þess er studd með gjóskulagarannsóknum.

920 Meðalstórt gos.  Engar heimildir til  um gosið en gjóska úr því hefur fundist víða á Suður- og Suðvesturlandi, m.a. í Reykjavík.

— …

Yfir 100 skjálftar í Kötlu í dag

Birta á :
Jarðskjálftar í Kötlu síðasta sólarhringinn.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftar í Kötlu síðasta sólarhringinn. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Yfir 100 jarðskjálftar hafa mælst í Kötluöskjunni  í Mýrdalsjökli síðasta sólarhringinn sem er mesta tíðni skjálfta þar síðan amk. árið 2011.  Skjálftarnir eru flestir grunnir og smáir.  Ekki fylgir gosórói og ekkert sem bendir enn til þess að skjálftarnir tengist kvikuhreyfingum í eldstöðinni.  Líklegast tengjast skjálftarnir jarðhitavirkni í jöklinum.  Stærstu skjálftarnir eru um M3 af stærð en fyrir réttum mánuði mældust skjálftar um M 4,5 sem voru þá stærstu skjálftar í Kötlu í tæp 40 ár.   Þá er fremur há leiðni í Múlakvísl sem aftur bendir til þess að jarðhitavirkni valdi skjálftunum.

Þrátt fyrir að ekki virðist um kvikuhreyfingar að ræða og eldgos því fremur ólíklegt í óbreyttri stöðu þá hefur virkni verið með mesta móti í Kötlu þetta haustið.

——–

 

UPPFÆRT 30.SEPT KL 1800

ÓVISSUSTIGI LÝST YFIR OG SKJÁLFTARNIR NÚ TALDIR TENGJAST KVIKUHREYFINGUM

Skjálftahrinan hefur haldið áfram af fullum krafti í dag og mældust nokkrir skjálftar yfir M3 um hádegisbilið.  Í framhaldi af því hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna Kötlu sem þýðir að stærri atburðir séu mögulegir.  Nákvæm skilgreining á óvissustigi samkvæmt vef Almannavarna er þessi:

“Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarrás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.”

Vísindamenn funduðu um stöðu mála í dag og telja skv. fréttum á Rúv að skjálftarnir tengist kvikuhreyfingum undir eldstöðinni.   Það vekur óneitanlega athygli hversu grunnir skjálftarnir mælast því vitað er að kvikuhólf Kötlu er á nokkurra kílómetra dýpi.  Þessir skjálftar mælast hinsvegar við yfirborð öskjunnar.  Skýringin gæti verið sú að þrýstingur að neðan vegna kvikuhreyfinganna brjóti upp bergið ofar í öskjunni.  Ef sú er raunin þá er alls ekki hægt að útiloka eldgos í framhaldinu en enn verður að meta það svo að meiri líkur eru á  því að hrinan lognist útaf.

Hinsvegar eru menn einnig á varðbergi gagnvart svipuðum atburðum og urðu árið 2011 þegar allstórt hlaup kom í Múlakvísl og nú er talið að það hafi verið vegna lítils eldgoss sem náði ekki að bræða sig í gegnum jökulinn.  Slíkt kann oft að hafa gerst áður en ekki er vitað um tíðni þessara “leynigosa” en atburðir undanfarin ár bæði í Mýrdalsjökli og Vatnajökli benda til þess að þau kunni að vera nokkuð tíð.

Fréttir af jarðskjálftunum í Kötlu

Visir.is:  Fimmtíu jarðskjálftar í Kötlu

Ruv.is: Aukin skjálftavirkni í Kötluöskju

Mbl.is: Skjálftahrinur í Kötlu

 

Scroll to Top