Heimsókn í steinasafnið Ljósbrá í Hveragerði

Birta á :

Eldgos.is heimsótti á dögunum steinasafnið Ljósbrá í Hveragerði.  Það er staðsett í húsnæði N1 bensínstöðvarinnar þegar komið er inn í bæinn.   Hér er um að ræða eitt stærsta steinasafn í einkaeigu á Íslandi og má finna þar langflestar steindir sem finnast á landinu auk fróðlegra jarðfræðilegra útskýringa.  Mælum við eindregið með heimsókn í Ljósbrá fyrir áhugafólk um jarðfræði og ekki skemmir fyrir að aðgangur er ókeypis.

Íslensk náttúra er ríkari af merkilegum steindum en marga grunar þrátt fyrir ungan aldur landsins í jarðfræðilegum skilningi.

Það er Hafsteinn Þór Auðunsson sem rekur safnið ásamt fjölskyldu sinni en steinum sem finna má á safninu hefur verið safnað síðan um árið 1960.  Þá er einnig mjög áhugavert handverk að finna á safninu.

Safnið er opið frá 9 – 17 á virkum dögum og 10-17 um helgar.  Vefsíða safnsins:  mineralsoficeland.com

Snarpir skjálftar við Grímsey

Birta á :
Upptök skjálfta nærri Grímsey síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálfta nærri Grímsey síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrinan sem hófst í lok janúar NA af Grímsey hefur færst mikið í aukana síðastliðinn sólarhring.  Skjálftarnir eru margir og þéttir.  Stærsti skjálftinn mældis M 4,1.  Jarðfræðingar útiloka ekki frekari tíðindi en þá er verið að tala um stóran jarðskjálfta frekar en eldgos sem eru fátíð á þessum slóðum.

Tjörnesbrotabeltið er hinsvegar fært um að framkalla jarðskjálfta allt að stærð M 7 og er orðið all langt síðan slíkur skjálfti hefur orðið.  Það sem einkennir oft hrinur á þessum slóðum er að þær geta verið nokkuð langvarandi og færast gjarnan í aukana eftir því sem líður á þær. Það er einmitt tilfellið með hrinuna núna.

Þetta svæði er sniðreksbelti sem tilheyrir Tjörnesbeltinu.  Þá er einnig vitað um jarðhitavirkni á þessu svæði þannig að talsverð umbrot eru viðvarandi á þessum slóðum.

UPPFÆRT 19.FEBRÚAR

Mikill kraftur hljóp í jarðskjálftahrinuna snemma að morgni 19.febrúar.  Hafa vel á annað þúsund skjálfta mælst síðustu sólarhringa og stærsti skjálftinn mældinst M 5,2.  Er þetta orðin öflugasta jarðskjálftahrina á Grímseyjarsvæðinu í 30 ár.

Mælingar benda ekki til kvikuhreyfinga. Þessir skjálftar tengjast flekahreyfingum.

Stærsti skjálftinn í Bárðarbungu frá goslokum

Birta á :
Myndin er af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í Bárðarbungu
Myndin er af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í Bárðarbungu

Í kvöld mældust snarpir jarðskjálftar í norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar.  Stærsti skjálftinn mældist M 4,9 og er stærsti skjálftinn í Bárðarbungu frá goslokum árið 2015.  Tveir aðrir nokkuð snarpir skjálftar mældust, M 3,8 og 3,7.  Skjálftarnir voru fremur grunnir eða á tæplega tveggja kílómetra dýpi.  Þá hafa á annan tug smærri skjálfta mælst.

Þrýstingurinn í  kringum eldstöðina virðist vaxa hægt og örugglega og skjálftarnir stækka i samræmi við það.  Það er athyglisvert að fyrir nákvæmlega ári síðan varð skjálftahrina í eldstöðinni á nákvæmlega sama stað nema hvað þeir skjálftar voru töluvert dýpri.  Sjá hér

Á meðan Bárðarbunga er að færa sig upp á skaftið virðist Öræfajökull vera að róast og þar er lítið um skjálfta.  Líklega hefur kvikuinnskotið sem þar hefur verið í gangi stöðvast , í bili amk.

Skjálftahrina í Skjaldbreið

Birta á :
Skjaldbreiður séður frá Þingvöllum Mynd  Óskar Haraldsson
Skjaldbreiður séður frá Þingvöllum
Mynd Óskar Haraldsson

Allmargir jarðskjálftar mældust í Skjaldbreið í gærkvöldi og í nótt.  Sá stærsti M 3,7 og tveir aðrir yfir M 3.   Heldur dró úr virkninni með morgninum en hún gæti vel tekið sig upp aftur.  Skjaldbreið er innan sprungusveims Langjökulskerfisins og það er algengt að í því kerfi verði hrinur, jafnvel nokkuð öflugar.  Þær hrinur eru þó oftast vestan til í kerfinu, i grennd við Eiríksjökul eða Þórisjökul.

Skjaldbreiður er um 9000 ára gömul hraundyngja og mjög líklega mynduð i einu löngu gosi sem jafnvel hefur mallað í áratug.  Skjaldbreiður er því ekki sjálfstætt eldfjall eða eldstöðvakerfi.  Dyngjugosin voru um margt sérstök, þau virtust geta komið upp hvar sem er innan eldstöðvakerfanna og kvikan kom mjög djúpt að, úr möttlinum.  Slík eldgos eru afar sjaldgæf í dag og hafa í raun ekki orðið á Íslandi í nokkur þúsund ár.  Ástæða dyngjugosanna var bráðnun ísaldarjökulsins, landið lyftist tiltölulega hratt, miklar þrýstingsbreytingar fylgdu því og eldgosavirkni var allt að þrítugföld miðað við það sem nú er.

Það verður því að telja afar ólíklegt að Skjaldbreiður sé að fara að gjósa , líklega eru þetta dæmigerðir brotaskjálftar í grennd við flekaskil.  Langjökulskerfið sem heild er þó síður en svo dautt úr öllum æðum, það er mikil jarðskjálftavirkni í því en gosvirkni hinsvegar mjög lítili.  Aðeins eitt gos frá landnámi , er Hallmundarhraun rann um árið 900.  Það var reyndar mikið gos og hraunið rann um 50 km leið til byggða við Hvítársíðu.  Þetta hraun myndar t.d. landslagið í Kringum Hraunfossa nærri Húsafelli.

Gos í eldfjallinu Agung á Balí

Birta á :
frá gosinu sem hófst í Agung í gær
frá gosinu sem hófst í Agung í gær

Indónesía er eldvirkasta svæði jarðar, hundruð eldfjalla raða sér eftir endilöngum eyjunum, Súmötru , Jövu og minni eyjunum austan við Jövu.  Balí er ein þeirra.  Það sem veldur eldvirkninni í Indónesíu er að Indó-Ástralíuflekinn svokallaði rennur undir Evrasíu flekann.  Sá fyrr nefndi er gerður úr úthafsskorpu sem er mun þyngri en meginlandsskorpan sem Evrasíuflekinn er gerður úr.  Það verða því mikil átök þegar þessir tveir stóru flekar mætast og Indó-Ástralíuflekinn treður sér undir Evrasíuflekann.  Þetta þýðir mikil jarðskjálftavirkni sem og eldvirkni í Indónesíu.

Balí er vinsæl ferðamannaparadis i Indónesíu.  Þrátt fyrir að eyjan sé lítil, aðeins um 5000 ferkílómetrar þá eru á henni nokkur eldfjöll.  Mest virkni hefur verið í eldkeilunni Agung sem jafnframt er hæsta fjallið eyjunni eða 3.142 metrar.  Agung gaust síðast árið 1963 og fórust þá um 1,500 manns.  Það er því engin furða að eyjaskeggjar séu óttaslegnir þegar þetta mikla eldfjall bærir á sér.

Mikil skjálftavirkni hefur verið í Agung undanfarna mánuði og hefur verið ljóst í nokkurn tíma að fjallið mundi gjósa fljótlega.  Hafa því verið gerðar ráðstafanir

Á þessari mynd sést hvernig Indó-Ástralíuflekinn rennur undir Evrasíuflekann við Indónesíu
Á þessari mynd sést hvernig Indó-Ástralíuflekinn rennur undir Evrasíuflekann við Indónesíu

til að rýma hættusvæði.  Helstu ferðamannastaðir á Balí eru nokkuð frá Agung og ættu ekki að vera í neinni hættu þó aska gæti fallið þar.

Eldgos hófst fyrir alvöru í fjallinu í gær, sunnudag 26.nóvember og hefur þegar orðið talsvert öskufall í næsta nágrenni fjallsins og flug til og frá Balí hefur farið úr skorðum.  Efnahagur Balí byggir nær eingöngu á ferðamannaþjónustu svo fyrir heimamenn er þetta bagalegt ástand.

Eldfjöll í Indónesíu eru oft óútreiknanleg.  Á Íslandi er algengast að mestur kraftur sé upphafi eldgoss. Það er ekki endilega þannig í Indónesíu og þó gosið sé enn sem komið er fremur lítið þá er ómögulegt að segja til um hvernig það þróast.

Scroll to Top