Snarpur jarðskjálfti á Hellisheiði

Birta á :
Upptök jarðskjálfta á Hellisheiði.  Myndin er fengin af jarðskjálftavefsjá Veðurstofu Íslands.
Upptök jarðskjálfta á Hellisheiði. Myndin er fengin af jarðskjálftavefsjá Veðurstofu Íslands.

Rétt fyrir kl.3 í nótt vöknuðu margir íbúar á suðvesturhorni landsins við jarðskjálfta.  Greina mátti drunur á undan skjálftanum og svo titring sem stóð yfir í fáeinar sekúndur.   Skjálftinn átti upptök sunnarlega á Hellisheiði, rúma 3 km vsv af Skálafelli og mældist M 4,4 af stærð.

Skjálftinn hefur væntanlega verið harðastur í Hveragerði, Selfossi, Ölfusi og byggðarlögum suður með sjó, t.d. Þorlákshöfn. Um 25 eftirskjálftar hafa mælst 10 klst. síðar en allir litlir.

Þetta er brotaskjálfti á flekaskilum og þó hann eigi upptök á mjög eldbrunnu svæði þá bendir ekkert til annars en að um stakan brotaskjálfta sé að ræða.

Þetta er jafnframt við vestari endann á Suðurlandsskjálftasvæðinu.   Í skjálftunum árin 2000 og 2008 vantaði í raun stóran skjálfta á þessu svæði til að “klára” ferlið.  Þetta er þó klárlega ekki sá skjálfti, til þess hefði hann þurft að vera mun stærri.  Hvort að sá skjálfti komi yfirhöfuð fyrr en í næstu Suðurlandsskjálftahrinu er erfitt að segja til um.

Skjálfti suður af Bláfjöllum fannst á höfuðborgarsvæðinu

Birta á :
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök jarðskjálftanna í kvöld.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök jarðskjálftanna í kvöld.

 

Kl. 20:17 í Kvöld fannst skjálfti M 4,1 á höfuðborgarsvæðinu og eru upptökin um 6km suður af Bláfjallaskála.  Skjálftinn hefur væntanlega fundist í Hveragerði, Selfossi og suður með sjó.  Nokkuð margir smáskjálftar hafa mælst eftir stóra skjálftann en flestir undir M 1.

Skjálftar á þessu svæði koma ekkert sérstaklega á óvart, eru algengir án þess að þeir boði nokkuð meira.  Síðast varð á þessum slóðum stór skjálfti um M 5,0 17.Júní árið 2000, sama dag og stóri Suðurlandsskjálftinn reið yfir og var í raun hluti af þeirri hrinu.

Þarna hefur ekki orðið eldgos í um 1000 ár.  Þegar goshrinur ganga yfir Reykjanesskaga þá hefjast þær yfirleitt austast á skaganum (í grennd við Bláfjöll) og færast svo í vesturátt.  Síðasta goshrina hófst þarna um árið 1000 (Kristnitökuhraunið) og lauk um árið 1240 með gosum vestast á skaganum.

Heimsókn í steinasafnið Ljósbrá í Hveragerði

Birta á :

Eldgos.is heimsótti á dögunum steinasafnið Ljósbrá í Hveragerði.  Það er staðsett í húsnæði N1 bensínstöðvarinnar þegar komið er inn í bæinn.   Hér er um að ræða eitt stærsta steinasafn í einkaeigu á Íslandi og má finna þar langflestar steindir sem finnast á landinu auk fróðlegra jarðfræðilegra útskýringa.  Mælum við eindregið með heimsókn í Ljósbrá fyrir áhugafólk um jarðfræði og ekki skemmir fyrir að aðgangur er ókeypis.

Íslensk náttúra er ríkari af merkilegum steindum en marga grunar þrátt fyrir ungan aldur landsins í jarðfræðilegum skilningi.

Það er Hafsteinn Þór Auðunsson sem rekur safnið ásamt fjölskyldu sinni en steinum sem finna má á safninu hefur verið safnað síðan um árið 1960.  Þá er einnig mjög áhugavert handverk að finna á safninu.

Safnið er opið frá 9 – 17 á virkum dögum og 10-17 um helgar.  Vefsíða safnsins:  mineralsoficeland.com

Snarpir skjálftar við Grímsey

Birta á :
Upptök skjálfta nærri Grímsey síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálfta nærri Grímsey síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrinan sem hófst í lok janúar NA af Grímsey hefur færst mikið í aukana síðastliðinn sólarhring.  Skjálftarnir eru margir og þéttir.  Stærsti skjálftinn mældis M 4,1.  Jarðfræðingar útiloka ekki frekari tíðindi en þá er verið að tala um stóran jarðskjálfta frekar en eldgos sem eru fátíð á þessum slóðum.

Tjörnesbrotabeltið er hinsvegar fært um að framkalla jarðskjálfta allt að stærð M 7 og er orðið all langt síðan slíkur skjálfti hefur orðið.  Það sem einkennir oft hrinur á þessum slóðum er að þær geta verið nokkuð langvarandi og færast gjarnan í aukana eftir því sem líður á þær. Það er einmitt tilfellið með hrinuna núna.

Þetta svæði er sniðreksbelti sem tilheyrir Tjörnesbeltinu.  Þá er einnig vitað um jarðhitavirkni á þessu svæði þannig að talsverð umbrot eru viðvarandi á þessum slóðum.

UPPFÆRT 19.FEBRÚAR

Mikill kraftur hljóp í jarðskjálftahrinuna snemma að morgni 19.febrúar.  Hafa vel á annað þúsund skjálfta mælst síðustu sólarhringa og stærsti skjálftinn mældinst M 5,2.  Er þetta orðin öflugasta jarðskjálftahrina á Grímseyjarsvæðinu í 30 ár.

Mælingar benda ekki til kvikuhreyfinga. Þessir skjálftar tengjast flekahreyfingum.

Stærsti skjálftinn í Bárðarbungu frá goslokum

Birta á :
Myndin er af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í Bárðarbungu
Myndin er af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í Bárðarbungu

Í kvöld mældust snarpir jarðskjálftar í norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar.  Stærsti skjálftinn mældist M 4,9 og er stærsti skjálftinn í Bárðarbungu frá goslokum árið 2015.  Tveir aðrir nokkuð snarpir skjálftar mældust, M 3,8 og 3,7.  Skjálftarnir voru fremur grunnir eða á tæplega tveggja kílómetra dýpi.  Þá hafa á annan tug smærri skjálfta mælst.

Þrýstingurinn í  kringum eldstöðina virðist vaxa hægt og örugglega og skjálftarnir stækka i samræmi við það.  Það er athyglisvert að fyrir nákvæmlega ári síðan varð skjálftahrina í eldstöðinni á nákvæmlega sama stað nema hvað þeir skjálftar voru töluvert dýpri.  Sjá hér

Á meðan Bárðarbunga er að færa sig upp á skaftið virðist Öræfajökull vera að róast og þar er lítið um skjálfta.  Líklega hefur kvikuinnskotið sem þar hefur verið í gangi stöðvast , í bili amk.

Scroll to Top