NÝJAR GOSSPRUNGUR OPNAST – SVÆÐIÐ RÝMT

Birta á :

Um hádegisbilið í dag opnaðist skyndilega um 200 metra löng gossprunga u.þ.b. 600 metrum norðaustur af eldri gígunum.  Skömmu síðar opnaðist önnur minni sprunga dálítið vestar.  Hraun rennur um þröngan farveg niður í Meradali þar sem það breiðir úr sér.  Við fyrstu sýn virðist lítið hafa dregið úr gosinu í eldri gígunum þannig að hér gæti verið um hreina viðbót í gosefnaframleiðslu að ræða.  Gossprungurnar eru á því svæði sem talið var að kvikugangurinn næði frá eldstöðinni í átt að Keili.  

Talað hafði verið um að kvikan í þeim gangi væri storknuð og lítil hætta á gosi þar.  Þetta breytir þeirri sviðsmynd talsvert.  Suðvesturendi þessa gangs er í Nátthaga og verður því að gera ráð fyrir að þar geti opnast sprunga en gönguleiðin upp í Geldingadali liggur um það svæði.  Það þarf væntanlega að endurskoða gönguleiðina eftir þessa atburði.

Það verður að gera ráð fyrir að gosið geti svo að segja hvar sem er yfir þessum kvikugangi , frá Keili og niður í Nátthaga.  Þetta er nær örugglega kvika úr sömu uppsprettu og úr gömlu gígunum, þ.e. beint úr möttli en rannsóknir á efnainnihaldi þarf til að staðfesta það.

Vefmyndavél Rúv fangaði nýju sprungurnar örstuttu eftir að þær opnuðust og sýnir nú beint frá nýju sprungunum.

Þá má sjá einstakar myndir af nýju sprungunum á facebook síðu Almannavarna

Vefmyndavél Rúv fangaði gosið skömmu eftir að það hófst úr fyrri sprungunni sem opnaðist. Hér sést skjáskot þegar gosið var nokkurra mínútna gamalt.

Mynd frá Facebook síðu almannavarna. hraunið rennur hratt í mjórri rás niður í Meradali.

Önnur mynd frá Almannavörnum. Hraunáin niður í Meradali þar sem hraunið byrjar að breiða úr sér. Þetta er fyrsta hraunrennslið niður í Meradali í þessu gosi en búist hafði verið við að hraun úr eldri gígunum tæki að renna þangað á næstu dögum.
Scroll to Top