Gosið að mestu óbreytt- Kvikuhólf eða ekki kvikuhólf?

Birta á :

Enn er mikill kraftur í gosinu og eru að koma upp um 100-200 rúmmetrar upp úr sprungunni á sekúndu.  Ef eitthvað er þá hefur heldur bætt í gosið síðustu sólarhringa en þó mun aðeins nyrðri sprungan virk og hún hefur ekki lengst.  Skjálfti upp á 5,2 varð i Bárðarbunguöskjunni í nótt sem væntanlega staðfestir áframhaldandi sig i öskjunni.  Það vakti athygli að eftir þennan skjálfta varð mikil hrina örlítilla skjálfta rétt norðvestan við Herðubreið á um 5-20 km. dýpi.  Það fór að bera á skjálftum þarna fyrir nokkrum dögum en þetta var þéttasta hrinan á þeim slóðum til þessa.  Það er vitað að einhver kvika kraumar undir á þessum slóðum en þess er þó tæplega að vænta að þar verði einhver meiriháttar tíðindi en tengingin við Bárðarbungu er athyglisverð.

KVIKUHÓLF EÐA EKKI?

Skýringarmyndin sem við birtum í síðustu færslu vakti nokkra athygli.  Efra kvikuhólfið er umdeilt, sumir jarðvisindamenn telja að það sé aðeins kvikuþró á nokkru dýpi undir Bárðarbungu en ekki kvikuhólf á ca 2-6 km dýpi eins og er undir flestum megineldstöðvum á Íslandi.  Benda þeir á að þetta kvikuhólf hefur ekki fundist.

Það sem mælir aftur á móti með því að kvikuhólf sé að finna á litlu dýpi ofan við stóru kvikuþróna er staðsetning flestra jarðskjálfta í öskjunni.  Þeir eru nánast allir í jöðrum öskjunnar, það vantar skjálfta i miðju hennar.  Það bendir til þess að þar sé bráðið eða hálfbráðið efni sem brotnar ekki.  Þetta hafa sumir jarðvísindamenn bent á.

Það er hinsvegar  ekkert vafamál að gríðarstór kvikuþró er undir Bárðarbungu, líklega á um 8-20 km dýpi og þaðan er kvikan sem nú er að koma upp eftir ganginum og í gosinu.   Spurningin er aðeins, hvað er þar fyrir ofan?  Þangað til jarðvísindamenn ákveða að koma sér saman um þetta verður ekki tekin afstaða hér 🙂

Þetta breytir þó í sjálfu sér ekki heilldarmyndinni mikið, efnið sem er að koma upp í gosinu er nokkuð kísilrík basaltkvika sem bendir til þess að það hafi setið um hríð í kvikuþrónni.  Það er einnig möguleiki að kvikuþróin sé lagskipt, að ofar í henni sé enn kísilríkara efni sem enn sem komið er hefur ekki hreyfst í þessum umbrotum.

Hér að neðan eru glæsilegar myndir frá gosstöðvunum sem við fengum sendar frá Ingþóri Guðmundssyni flugmanni.  Þær eru teknar 2.-5. september og veitti Ingþór elgos.is góðfúslega leyfi til að birta myndirnar.  Smellið á þær til að stækka.

20140902 20140904 20140905_1 20140905_2

 

Scroll to Top