Reykjanesskagi

Einn gígur mjög virkur – Kvikustrókar allt að 50 metra háir

Myndin er af vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og sýnir nýjustu mælingar frá 26. Apríl

27. Apríl 2021

Þær breytingar virðast hafa orðið á gosvirkninni að einn af gígunum sem opnuðust 13. Apríl er orðinn langvirkastur meðan frekar lítið líf er í öðrum og nokkrir alveg hættir að gjósa eða sýna neitt lífsmark

Þetta er þróun sem almennt er talin verða í dyngjugosum, að þau opnist á sprungum en virknin færist að mestu á einn gíg þegar líða tekur á gosið.  Þetta sést ágætlega á vefmyndavél Rúv.

Annað sem er helst að frétta af gosinu:

  • Kvikuframleiðslan er enn  á milli 5-7 rúmmetra á sekúndu . Allra nýjasta mæling sýnir 6,3 m3 á sekúndu.
  • Hraun hefur runnið niður í Meradali úr tveimur áttum og stutt í að það loki af hrygginn sem Morgunblaðsmyndavélin er staðsett á.  Enn vantar þó mikið upp á að fylla Meradalina af hrauni.
  • Gosórói rokkar nokkuð samkvæmt mælum.
Skjáskot af myndavél Rúv 27. Apríl og sýnir mikla kvikustrókavirkni í gíg sem opnaðist 13. Apríl.

 

Allsnarpur skjálfti nálægt Grindavík

21. Apríl 2021

Laust eftir kl. 23 í gærkvöldi, 20. Apríl varð allsnarpur jarðskjálfti tæpa 5km norðaustur af Grindavík, norðan við fjallið Þorbjörn og um 2,5 km austan við Bláa Lónið.  Nokkrir skjálftar hafa fylgt síðan á þessum slóðum.  Stóri skjálftinn fannst vel á Reykjanesskaga og Höfuðborgarsvæðinu enda var hann sá stærsti a svæðinu frá því 15.mars, semsagt fjórum dögum áður en gosið hófst.

Ólíklegt er að hrina svipuð þeirri sem átti sér stað fyrir gosið sé að fara í gang enda líklegast  um að ræða hefðbundinn spennuskjálfta á flekamótum.  Auðvita þarf samt að fylgjast vel með því þetta er á svipuðum slóðum og landris mældist á síðasta ári sem klárlega var af völdum kvikuinnskots.

Myndin er af skjálftavefsjá Veðurstofunnar og sýnir upptök skjálfta á Reykjanesskaga síðustu þrjá sólarhringa. Stóri rauði hringurinn merkir upptök stærsta skjálftans.

Gosið mánaðargamalt – Samantekt

19. Apríl 2021

Nú er réttur mánuður síðan eldgos hófst í Fagradalsfjalli.  Gosið var í upphafi mjög lítið og var því ekki spáð langlífi. 

Allar forsendur breyttust þó þegar efnagreining á kvikunni lá fyrir nokkrum dögum síðar. Þá kom í ljós að um frumstætt basalt var að ræða, ættað af miklu dýpi úr möttli jarðar, 17-20 kílómetra dýpi.  Eldgos af þessari tegund hefur ekki orðið á Íslandi í þúsundir ára, líklega í um 6000 ár.  Dyngjur landsins eru flestar hlaðnar upp úr þessari tegund basalts og vitað er að þau gos stóðu mjög lengi, sum hver í áratugi.

Þennan mánuð sem liðinn er frá upphafi gossins hefur það ef eitthvað er gefið í, nú koma um 7,5 rúmmetrar á kviku upp á sekúndu en var til að byrja með um 5 rúmmetrar.  Það er því ekkert sem bendir til annars en að gosið muni malla áfram næstu vikur, jafnvel mánuði og ár.

Helstu staðreyndir um gosið:

 

  • Gosið hófst á stuttri sprungu sem hefur rifnað upp á nokkrum stöðum síðan.  Alls voru 8 gosop virk en líklega er hætt að gjósa úr því nyrsta.
  • Gosið er það fyrsta á Reykjanesskaganum síðan árið 1240 eða í 781 ár og það fyrsta í Fagradalsfjallskerfinu í um 6000 ár.
  • Hraunrennsli hefur farið úr um 5 m3 á sekúndu upp í um 7,5 m3 á sekúndu. það gerir uþb. helming af hraunrennsli gossins á Fimmvörðuhálsi og um 6% af meðalhraunrennsli gossins í Holuhrauni. 
  • Heildarrúmmál hrauns er nú áætlað um 14,4 rúmmetrar.  Það gera um 0,014 rúmkílómetrar.  Sem dæmi komu upp um 1,4 rúmkílómetrar af hrauni úr Holuhraunsgosinu og þyrfti því að gjósa í um 100 mánuði í viðbót, eða rúm 8 ár til að ná því gosi hvað hraunflæði varðar, miðað við svipaðan gang í gosinu áfram.
  • Mjög litlar líkur eru á að gosið muni ógna einhverjum innviðum eða mannvirkjum nema það standi mjög lengi.  Líklegt er að hraunið hlaðist frekar upp í kringum gosstöðvarnar fremur en að renna langar leiðir.

Óróamælingar Veðurstofunnar er að finna á þessari vefslóð.  Skrolla niður að Fagradalsfjalli.  Mismunandi litir þýðir mismunandi tíðnisvið.  Blátt er hátíðni, grænt lægri tíðni og fjólublátt lægsta tíðnin.  Þessar línur fylgjast þó gjarnan að en athyglisvert er að nýir gígar hafa opnast þegar óróinn eykst og snarminnkar síðan eins og gerðist síðla dags 17/4.

Óróamælingar eru vissulega mikilvægar en hinsvegar er margt sem getur truflað þær, t.d. veður og brim.  Mikill vindur hefur þannig áhrif á jarðskjálftamælingar, minnstu skjálftarnir greinast illa þegar vindstyrkur er hár.

 

Hraun farið að renna úr Geldingadölum – Átta gosop virk

17. Apríl 2021

Hraun er nú farið að renna úr Geldingadölum um haft sem liggur yfir í Meradali.  Þar mun þessi hraunstraumur sameinast því hrauni sem fyrir er þar, haldi hann áfram að renna.  Meradalir eru hinsvegar allmikið flatlendi og erfitt að sjá fyrir sér að að hraun nái að renna útúr þeim meðan gosið er ekki aflmeira.

Virknin hefur verið mest í syðstu gígunum síðustu sólarhringa, þ.e. þeim sem opnuðust nú í vikunni.  Einnig er enn góður gangur í Norðra, sem er annar gíganna sem opnuðust fyrst í gosinu.

Myndin er skjáskot úr Vefmyndavél Rúv og sýnir syðstu gígana á sprungunni.  Nýjustu gígarnir bera hæst en þeir eru uppi á hryggnum sem Morgunblaðs vefmyndavélin var staðsett á upphaflega.

Enn einn gígur opnaðist á gossprungunni í nótt

Um kl. 3 í nótt mátti sjá á Vefmyndavél Mbl.is nýr gígur opnaðist nokkurnveginn á milli gíganna sem opnuðust um páskana.  Hér er talað um nýjan gíg frekar en gossprungu því vissulega liggja allir gígarnir sem hafa opnast í röð á sömu gossprungunni.  Þessi sprunga liggur yfir kvikuganginum margumtalaða sem nær frá Nátthaga að Keili og má reikna með að nýir gígar geti opnast hvar sem er á því svæði.

Það virðist sem allir fimm gígarnir sem hafa opnast séu vel virkir og hraunrennslið kann því enn að vera að aukast.  Nú hefur gosið staðið í þrjár vikur og er algjörlega á skjön við flest þekkt eldgos á Íslandi hvað hegðun varðar.  Oftast er mesti krafturinn í eldgosum til að byrja með og því engin furða að menn töldu gosið ekki verða langlíft miðað við mjög rólega opnun.  En virknin og hraunrennslið hefur smámsaman verið að aukast í gosinu, sérstaklega síðustu vikuna.

Hér hefur þetta verið flokkað sem dyngjugos þó engin sé dyngjan enn sem komið er.  Ástæðan fyrir því er efnasamsetning kvikunnar sem er mjög lík efnasamsetningu hrauna úr stóru dyngjunum á Reykjanesskaganum.  Möttulgos væri kanski heppilegri skilgreining því gosið á það einnig sameiginlegt með dyngjunum að kvikan streymir beint frá möttli af miklu dýpi.  

Eins og gosið er að haga sér þá kæmi það hreinlega á óvart ef því lýkur í bráð.  Þeim sem þessar línur ritar þykir líklegast að það vari mánuðum saman í það minnsta en haldi sig við sprunguna sem liggur yfir kvikuganginum.  Ástæðan er auðvitað stöðugt rennsli úr möttli, þar er væntanlega allstór kvikugeymsla sem þarf að tappa af.  Ekki er ólíklegt að gígar opnist nær Keili á næstu vikum eða mánuðum og jafnvel suður af Geldingadölum niður í Nátthaga.

Það er ólíklegt að hraunrennsli muni ógna Suðurstrandavegi eða öðrum mannvirkjum nema gosið standi mjög lengi, í það minnsta 4-6 mánuði, nema gígar opnist í grennd við Nátthaga.  Hraunið mun fyrst og fremst hlaðast upp í nágrenni gíganna í Geldinga- og Merardölum áður en það nær að renna útaf því svæði.  Meradalir eru allmikið flatlendi og þarf að gjósa lengi áður en hraun nær að renna frá þeim.  Þetta sést betur á meðfylgjandi korti frá Veðurstofu Íslands.

Meðfylgjandi kort er á vef Veðurstofu Íslands og sýnir legu eldstöðvanna.

 

Scroll to Top