Reykjanesskagi

SKJÁLFTAR M 5,4 OG 5,0 Í DAG VIÐ FAGRADALSFJALL

EKKERT LÁT ER Á SKJÁLFTAHRINUNNI VIÐ FAGRADALSFJALL SEM HEFUR NÚ STAÐIÐ Í TÆPAR ÞRJÁR VIKUR. NÆSTSTÆRSTI SKJÁLFTI HRINUNNAR MÆLDIST Í DAG M 5,4 MEÐ UPPTÖK AÐEINS 4 KM FRÁ GRINDAVÍK. FANNST HANN VESTUR Á FIRÐI OG Á SAUÐÁRKRÓKI.

Það er eiginlega með ólíkindum að kvikan sem er á ferð grunnt undir yfirborðinu við Fagradalsfjall hafi ekki enn fundið sér leið upp á yfirborðið. Það þýðir að hún er enn að finna sér sprungur og glufur neðanjarðar til að troða sér í. Jarðfræðingar telja auknar líkur á eldgosi í kjölfar svo stórra skjálfta sem urðu í dag.

Kvikugangurinn virðist þó hafa staðið í stað undanfarna sólarhringa að færst eitthvað örlítið til suðurs. Aukið uppstreymi kviku hefur því etv. breikkað ganginn og hugsanlega fært hann nær yfirborði.

Myndin er fengin af skjálftavefsjá á vef Veðurstofunnar og sýnir upptök yfirfarinna skjálfta síðasta sólarhring.

Á myndinni að ofan sést að upptök stóra skjálftans voru aðeins um 4 km frá Grindavík enda lék allt á reiðiskjálfi þar meðan hann gekk yfir. Eitthvað tjón mun hafa orðið. Það að skjálftinn sé svona nálægt bænum þýðir ekki að kvikan sé þar, heldur er þetta talinn vera svokallaður gikkskjálfti sem er afleiðing spennubreytinga á allstóru svæði sem aftur er af völdum kvikuinnskotsins.

HVERNIG VERÐUR FRAMHALDIÐ?

Kvika streymir enn af allmiklu afli upp í jarðskorpuna undir Fagradalsfjalli. Það sýna um 2500-3000 jarðskjálftar á sólarhring sem er gríðarlegur fjöldi. Það er ekker sem bendir til þess að það sé að hægja á þessu uppstreymi. Kvikan er nú talin vera á aðeins 1 km dýpi og jafnvel minna en það. Enn verður telja líkur á eldgosi yfirgnæfandi, amk. meðan uppstreymið er svona mikið.

SKJÁLFTI M 5.1 Í NÓTT. KVIKAN KOMIN MJÖG NÁLÆGT YFIRBORÐI

Skjálftavirkni jókst mjög uppúr kl 18 í gærkvöldi og náði hámarki um kl 3 15 í nótt með skjálfta upp á M 5,1. Nokkrir skjálftar hafa náð M 4 af stærð og fjölmargir milli M 3 og 4, amk. 16 talsins frá miðnætti þar til þetta er ritað um kl 6 40. Margir þeirra hafa fundist á Reykjanesskaganum og höfuðborgarsvæðinu.

Kvikan hefur enn ekki náð að brjóta sér leið upp á yfirborðið en eins og staðan er núna virðist fátt geta komið í veg fyrir eldgos í eða við Fagradalsfjall. Kvikugangurinn er á um eins kílómetra dýpi að því að talið er og hefur verið að færast heldur í suðvestur og suðurátt. Virðist sem svo að hann hafi kvíslast í tvo ganga miðað við jarðskjálftavirknina. Annan til suðvesturs og hinn til suðurs frá Fagradalsfjalli.

Ef eldsuppkoma verður á þessum slóðum þá eru engin mannvirki í hættu nema ef vera skildi að hraunstraumur næði að Suðurstrandarvegi.

Mynd af skjálftavefsjá Veðurstofunnar. Hér má sjá líklega tvo ganga frá Fagradalsfjalli til suðvesturs og suðurs. Sá sem er nær Grindavík er í um 6 km fjarlægð frá bænum en fjallið Þorbjörn skýlir væntanlega bænum. Þá er Suðurstrandarvegur í um 1,6 km fjarlægð frá ganginum sem liggur til suðurs.

GRÍÐARLEG SKJÁLFTAVIRKNI VIÐ FAGRADALSFJALL

LAUST EFTIR MIÐNÆTTI HERTI MJÖG Á JARÐSKJÁLFTAVIRKNI VIÐ FAGRADALSFJALL OG VAR HÚN ÞÓ MIKIL FYRIR. SKJÁLFTI AF STÆRÐINNI M 5,0 MÆLDIST UM KL 2 OG ÞAR ÁÐUR HAFÐI MÆLST EINN UM 4,1 OG FJÖLMARGIR MILLI M3 OG 4

Það sem veldur þessu er kvikuuppstreymi, líklega af 8-10 km dýpi upp á 3-5 km dýpi og er ekki annað hægt að ráða af þessu en að mikil kvika streymi upp. Eins og staðan lítur út núna er erfitt að sjá hvernig á ekki að verða eldgos úr þessu því þessi efri hluti jarðskorpunnar tekur ekki endalaust við kviku. Þessi virkni gæti fjarað út en það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess, þvert á móti virðist hún færast í aukana.

Þá hafa skjálftarnir verið heldur vestar og nær Grindavík. Stóri M 5,0 skjálftinn varð um 6 km frá bænum samkvæmt skjálftavefsjá og annar um M 3,6 varð aðeins um 2 km frá bænum nánast undir Grindarvikurveginum austan við fjallið Þorbjörn samkvæmt skjálftavefsjá veðurstofunnar.

Mynd af skjálftavefsjá Veðurstofunnar. Þetta eru nokkrir af helstu skjálftunum frá miðnætti til kl 02 30.

ER BERGGANGURINN AÐ NÁLGAST GRINDAVÍK ?

Vísindamenn segja að mjög hafi dregið úr líkum á gosi á Reykjanesskaga. Það sem þeir hafa til síns máls er að skjálftarnir eru flestir enn á 3-5 km dýpi og má þá ætla að kvikan hafi lítið sem ekkert nálgast yfirborð.

Þá segja vísindamenn aðspurðir um hvort kvikan sé að nálgast Grindavík að skjálftarnir vestan og suðvestan til við Fagradalsfjall séu líklega spennuskjálftar. Á þeim er að skilja að þarna sé ekki kvika. Þetta finnst mér dálítið fljótafgreitt hjá þeim. Virknin virðist vera á tveimur aðalupptakasvæðum nú í kvöld, annarsvegar rétt suðaustan við Fagradalsfjall og hinsvegar nokkrum kílómetrum fyrir vestan og suðvestan fjallið, semsagt 3-5 norður af Grindavík.

Kvikugangurinn gæti hafa kvíslast og er að leita uppgöngu, rétt eins og var fyrr í vikunni þegar kvikan virtist annarsvegar vera að nálgast Keili og með annarri virknismiðju nærri Sveifluhálsi. Líklegast var um innskotavirkni á báðum stöðum að ræða en kvikan fann ekki leiðina upp á yfirborðið.

Skjálftayfirlit Veðurstofunnar sýnir enn gríðarlegan fjölda smáskjálfta. Svona nokkuð hefur eiginlega ekki sést síðan í kvikuganginum frá Bárðarbungu að Holuhrauni og það voru reyndar yfirleitt heldur smærri skjálftar en hér eru um að ræða. Það er því svo sannarlega hættuástand á ferðinni. Vonandi verður ekkert úr þessu en telja verður líkurnar á gosi afar miklar miðað við virknina sem hefur nú staðið í rúma 8 sólarhringa.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands kl 21:35 að kvöldi 4.mars.

Það blasir við á ofangreindri mynd að ástandið er grafalvarlegt. Gríðarlegur fjöldi skjálfta segir okkur að kvika er að streyma upp í kvikuganginn sem reynir svo að brjóta sér leið uppá yfirborðið. Kvikan sem á uppruna sinn við Fagradalsfjallið nálgaðist um tíma Krísuvíkurkerfið en virðist nú vera að teygja sig frekar á átt að Svartsengiskerfinu vestan við Fagradalsfjall. Kvikan er einfaldlega að leita að leið uppá yfirborðið.

Skjálftavefsá Veðurstofunnar sýnir hér skjálfta síðustu 4 sólarhringa. Rauðu punktarnir eru nýjustu skjálftarnir, bláu elstu.

Ofangreind mynd sýnir upptök skjálfta síðustu 4 sólarhringa. Grindavík er rétt fyrir ofan til hægri við súluritið í vinstra horninu. Nýjustu skjálftarnir eru að mælast annas vegar í og rétt sunnan og suðaustan við Fagradalsfjall og hinsvegar örfáa kílómetra fyrir norðan Grindavík, á Svartsengissvæðinu. Annað er að ekki nærri allir skjálftar koma fram á þessari skjálftavefsjá hvernig sem stendur á því. Þarna eru teiknaðir upp 1178 skjálftar síðustu 4 sólarhringa en líklega eru þeir á milli 6 og 8 þúsund í raun.

Það er ekki ætlunin að hræða með þessum pistli en að afskrifa eða gera lítið úr hættunni á gosi nærri byggð er einfaldlega ekki í boði meðan skjálftavirknin er þetta mikil og á þessum slóðum.

ELDGOS YFIRVOFANDI VIÐ FAGRADALSFJALL

ÓRÓAKVIÐA UPPÚR KL 2 30 Í DAG VAR ÖFLUG EN DRÓ SÍÐAN HELDUR ÚR HENNI. EKKI HEFUR GOSIÐ Í FAGRADALSFJALLS KERFINU Í UM 6000 ÁR OG EKKI Á REYKJANESSKAGANUM Í 780 ÁR

Frá hádegi í gær 2. Mars og fram eftir nóttu var frekar rólegt á skjálftasvæðunum miðað við dagana á undan. Kvikugangurinn var þó enn að valda smáskjálftum og því augljós hreyfing á honum. Þegar leið á morguninn jókst svo skjálftavirknin aftur og hefur verið mjög þétt eftir hádegi.

Líklegur upptakastaður kvikunnar er við Fagradalsfjall en svo er spurning hversu löng gossprungan verður í hvora átt. Hún verður nær örugglega með SV-NA stefnu. Einu mannvirkin sem gæru verið í hættu miðað við þessa staðsetningu er Suðurstrandarvegur.

HVERNIG ELDGOS VERÐUR ÞETTA EF AF VERÐUR?

Nær örugglega hraungos eða flæðigos nema sprungan nái út í sjó sem er afskaplega ólíklegt. Það gæti verið einhver öskumyndun til að byrja með, meðan kvikan er að hreinsa upp grunnvatnið í nágrenninu. Líkur á stóru gosi eru ekki miklar. Gossaga á Reykjanesskaganum segir það einfaldlega. Hraunið verður líklega (sé miðað almennt við hraun á Reykjanesskaganum) nokkuð þykkt apalhraun sem er ágætt, það ætti þá ekki að flæða sérlega langt.

Hinsvegar eru geysistórar dyngjur í Kerfinu eins og t.d. Þráinsskjöldur sem hefur myndast í mjög stóru og meira þunnfljótandi flæðigosi. Svo er það Fagradalsfjallið sjálft sem reyndar er stapi, trúlega myndað á síðasta jökulskeiði.

Þessi mynd sýnir hraun á Reykjanesskaganum runnin frá landnámi. Heimild: ISOR
Hægt er að sjá þetta kort í þrívídd á vef ÍSOR Jarðfræðikort ÍSOR (jardfraedikort.is)

það er rétt að geta þess að gos er ekki hafið (kl 18:00 – 3.mars) en líkurnar á að það hefjist á allra næstu sólarhringum verða að teljast allmiklar úr því sem komið er.

Það sem er óvenjulegt miðað við sögu síðustu tveggja eldgosaskeiða á Reykjanesskaganum er að þau hafa bæði hafist með eldgosum í Brennisteinsfjallakerfinu, þ.e. í grennd við Bláfjöll og fært sig svo vestur eftir skaganum. EF það er að fara að gjósa núna við Fagradalsfjall þá er það ekki í samræmi við þessa sögu sem er þekkt.

UPPFÆRT KL. 20:58

Mikil skjálftavirkni er á svæðinu og virðist sem skjálftarnir verði á minna dýpi með hverjum klukkutímanum ef mælingar eru þokkalega nákvæmar á vef Veðurstofu Íslands. Það þýðir að kvikan er enn að nálgast yfirborðið og gera verður ráð fyrir að gos getur hafist í kvöld eða nótt.

.

UPPFÆRT 4.MARS KL 11:50

Enn bólar ekkert á gosinu en mikil jarðskjálftavirkni er í gangi. Um kl 9 varð skjálfti af stærðinni 4,5 við Fagradalsfjall, sá stærsti í yfir tvo sólarhringa. Um tíma í gær virtust skjálftarnir grynnri en nú eru þeir flestir að mælast á 3-5 km. dýpi.

Virknin er mest við Fagradalsfjall, lítil virkni er nær Keili núna. Virðist sem kvikugangurinn sé heldur að leita til suðvesturs, nær Suðurstrandarveginum og Grindavík.

Scroll to Top