Reykjanesskagi

ELDGOS ER HAFIÐ Á REYKJANESSKAGA

  • UPPTÖKIN VIÐ LITLA-HRÚT OG HRAUN RENNUR TIL SUÐURS
  • GOSIÐ MARGFALT STÆRRA EN SÍÐUSTU TVÖ GOS
  • GOSSPRUNGAN NÆRRI KÍLÓMETRA LÖNG
  • LÍTIL SEM ENGIN HÆTTA STAFAR AF HRAUNRENNSLI EN GASMENGUN GÆTI ORÐIÐ TALSVERÐ
Kort frá vefnum Map.is Rauða strikið sýnir hvar gosstöðvarnar eru.

Eldgosið sem hafði verið beðið eftir undanfarna sólarhringa hófst rétt fyrir kl 17 í dag.  Fyrst um sinn var sprungan stutt, um 200 metrar en lengdist mikið á fyrstu tveim klukkustundunum.  Jarðfræðingur lýsti gosinu í sjónvarpsfréttum sem töluverðu.

Gosið er á þægilegum stað hvað innviði varðar og ættu þeir ekki að vera í neinni hættu frá hraunrennsli.  Þar sem megin hraunstraumurinn rennur til suðurs þá fer það líklegast yfir hraunið frá 2022 á leið sinni lengra suður og þarf ansi langt gos til þess að það nálgist Suðurstrandaveg eða aðra innviði á þeim slóðum.  Ef sprungan lengist til norðurs þá gæti hraun farið að renna í átt að Reykjanesbraut en það er ansi löng leið.

Gönguleiðir að gosinu eru liklega stystar frá slóðunum að síðasta gosi en ganga þarf 2-3 km í viðbót til að komast nærri gosstöðvunum.  Fólki er ráðlagt að leggja ekki af stað fyrr en viðbragðsaðilar hafa gefið grænt ljós á það.  Þar sem gosið er allstórt þá gæti gasmengun orðið töluverð sérstaklega nærri gosinu.  Ekki er ráðlagt að ganga frá Reykjanesbrautinni að gosinu. Slóðanum að Keili verður væntanlega lokað enda þolir hann enga umferð.  Það er því ansi langur gangur yfir úfið hraun ef fólk ætlar þá leiðina.

Þar sem gosið er nýhafið er ómlögulegt að segja til um hvernig það þróast, hvort það líkist fyrsta gosinu sem mallaði í  hálft ár eða öðru gosinu sem var kraftmikið í upphafi en dró fljótt af því.  

 

KVIKAN Á INNAN VIÐ 1 KM DÝPI – ELDGOS LÍKLEGA AÐ HEFJAST

Upptök skjálfta á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg undanfarna sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Kvikugangurinn sem hefur verið að brjótast um á milli Keilis og Fagradalsfjalls er nú talinn vera á innan við 1 km. dýpi samkvæmt fréttum Rúv í kvöld.  Skjálftavirkni hefur verið mikil en heldur dregið úr henni í dag en það passar vel við þá kenningu að það dragir úr skjálftum þegar kvika nálgast yfirborðið.  Þá hafa verið harðir skjálftar nálægt Eldey úti fyrir Reykjanesi í kvöld og enn óvíst hvað  það boðar.

Það hefur verið áberandi í þessari hrinu er hve fáir svokallaðir gikkskjálftar hafa mælst.  Í fyrri hrinum urðu stórir gikkskjálftar nærri Grindavík og einnig á Krísuvíkursvæðinu.  Þá hefur líklega losnað um það mikla spennu að þessi svæði eru ekki að brotna núna.  Þeir skjálftar sem mælast nú eru því nær eingöngu tengdir kvikuganginum sem er að brjótast til yfirborðs.

Það sem gerist þegar kvikugangur nálgast yfirborðið er að hann þarf minna að hafa fyrir því að brjóta bergið og það léttir á þrýstingnum.  Skjálftar verða því minni og færri.  Þegar gosið svo hefst þá hefur kvikan fundið greiða leið til yfirborðs og skjálftar nánast hætta.

Nú er talið líklegast að eldgos hefjist á milli fjallanna Litla-Keilis og Litla-Hrúts sem eru skammt suður af Keili í áttina að Fagradalsfjalli.  Þetta er nánast algjörlega á miðjum Reykjanesskaganum og þarf því verulega stórt gos til að ógna einhverjum innviðum eins og Reykjanesbrautinni sem dæmi.  Þrátt fyrir að gosið verði líklega mun stærra en tvö undangengin gos þá er ólíklegt að hraun nái að renna ca þá 10 kílómetra sem þarf til þess.  

Harðir jarðskjálfta hafa verið að mælast við Eldey í kvöld, tveir um M 4,5 en óvíst er hvort það tengist því sem er að gerast á Reykjanesskaganum.  Neðansjávargos á þessum slóðum hefði líklega mjög slæmar afleiðinga fyrir flug til og frá landinu.

KVIKUINNSKOT UNDIR FAGRADALSFJALL-MIKILL FJÖLDI SMÁSKJÁLFTA

Skjáskot af vefnum https://vafri.is/quake og sýnir upptök skjálftanna

Mjög þétt smáskjálftavirkni hófst við Fagradalsfjall síðdegis í dag og hefur ef eitthvað er orðið öflugri eftir því sem hefur liðið á kvöldið.  Nær öruggt má telja að þetta sé kvikuinnskot.  Skjálftarnir eru enn sem komið er smáir en mjög þéttir.  Fáir þeirra hafa fundist.  Sambærileg kvikuinnskot voru fyrirboðar eldgosanna árið 2021 og 2022.  Einnig átti sér stað kvikuinnskot í desember 2021, nokkrum mánuðum eftir að fyrra gosinu lauk en það stöðvaðist áður en það náði til yfirborðs.

Enn er óljóst hve mikil kvika er þarna á ferðinni og hversu djúpt innskotið liggur.  Upptök skjálftanna eru á svipuðum slóðum og eldgosin urðu á.  Er því langlíklegast að ef gos hefst þá verður það á svipuðum slóðum og áður.  Það er reyndar mjög heppileg staðsetning. 

Rólegt hefur verið á Reykjanesskaganum síðan eldgosinu lauk í ágúst á síðasta ári en nú virðast þau rólegheit yfirstaðin.  Landris virðist hafa hafist í apríl síðastliðinn og nemur um 2-3 cm á víðáttumiklu svæði á skaganum.  Það bendir til þess að kvika sé að safnast fyrir á allmiklu dýpi og sú kvika er væntanlega að leita ofar núna í formi innskots.  Hvort eldgos verði á næstu dögum eða vikum er of snemmt að segja til um en allavega er ljóst að rólegheitatímabilinu eftir síðasta gos er lokið.

UPPFÆRT 5.JÚLÍ KL. 12:32

Verulega bætti í skjálftahrinuna í nótt og í morgunsárið urðu skjálftar af stærð M 4,8 og M 4,5 sem fundust allvíða á suðvesturlandi.  Skjálftarnir eru grynnri og kvikan því að færast nær yfirborðinu á svæði á milli Keilis og Meradala þar sem gaus í fyrrasumar.  Líkur á gosi hafa aukist mikið og hafa Almannavarnir lýst yfir óvissustigi.  

ELDGOS HAFIÐ Í MERADÖLUM

Þessa mynd tók síðuhöfundur við Reykjanesbraut rétt eftir að gosið braust út. Greina má gosmökkinn yfir Fagradalsfjallgarðinn.

ELDGOS HÓFST Í MERADÖLUM UM KL. 13 20 Í DAG.  GOSIÐ ER MIKLU STÆRRA EN GOSIÐ Í FYRRA, UM 5 – 10 SINNUM STÆRRA.  GOSSPRUNGAN ER UM 4-500 METRA LÖNG OG HRAUN RENNUR NIÐUR Í  MERADALI.  INNVIÐIR ERU EKKI TALDIR Í HÆTTU HALDIST GOSIÐ Á ÞESSUM STAÐ.

Það kom jarðvðisindamönnum allsekki á óvart þegar gosið hófst í dag, það þótti ljóst þegar gervihnattamyndir bárust í gær að kvikugangurinn lægi mjög grunnt undir yfirborðinu og stutt væri í gos. Staðsetningin kemur heldur ekki á óvart nema hvað alveg eins var búist við að sprunga opnaðist nokkuð norðar í átt að Keili.  Þessi staðsetning er  þó óumdeilanlega betri því hraunið rennur í Meradali og lokast þar af.  Það þarf að gjósa ansi lengi af þessum krafti á þessum stað ef hraun á að fara að ógna innviðum.

Helsta ógnin frá þessu gosi er gasmengun.  Þar sem gosið er miklu stærra þá má reikna með að gas geti orðið til vandræða og mögulega hættulegt nálægt gosstöðvunum. Það þarf því að gæta þess að ganga ekki um í lægðum nærri nýju hrauni eða gossprungum þegar verið er á svæðinu.  Óþægindi geta vel skapast vegna gasmengunar í byggð, td. Grindavík ef og þegar mökkinn leggur þangað.

Framvinda gossins er auðvitað með öllu óljós. Jarðskjálftavirkni er enn nokkur þrátt fyrir að gosið sé hafið en ætti að draga úr henni á næstu dögum.  Enn er eftir að efnagreina gosefnin en telja verður langlíklegast að þau séu þau sömu og í síðasta gosi og kvikan því ættuð úr möttlinum.  Gætum við því aftur fengið nokkurra mánaða langt gos.

KVIKAN LIGGUR GRUNNT- ELDGOS AÐ VERÐA MJÖG LIKLEGT

Harðir jarðskjálftar urðu á Reykjanesskaga í gærkvöldi og fram á nótt, sá sterkasti 5,0 og átti upptök á Sveifluhálsi vestan Kleifarvatns.  Sá skálfti var eðlilega harðastur í Krísuvík en fannst mjög vel á höfuðborgarsvæðinu og reyndar nær öllu suður og vesturlandi. 

Í dag bárust gervihnattamyndir sem sýna að kvikugangurinn liggur mjög grunnt norður af gosstöðvunum frá því í fyrra og í átt að Keili, jafnvel á innan við 1 km dýpi.  Innstreymi kvikunnar er tvöfalt á við það sem var fyrir gosið í fyrra og má því búast við mun öflugra gosi.

Gosstöðvarnar yrðu væntanlega norðanvestan við Meradali þar sem greið leið yrði fyrir hraunrennsli í norður niður farvegi eldri dyngjuhrauna í átt að Reykjanesbrautinni.  Það eru þó einir 8-9 km þangað svo bráð hætta er varla fyrir hendi.

Skjálftavirkni hefur farið heldur minnkandi nú seinni partinn og fram á kvöld en það gæti verið merki um að kvikan sé komin það nálægt yfirborði að hún sé við það að hætta að  þurfa að brjóta bergið og að þá styttist í gosið.

Scroll to Top