ELDGOS YFIRVOFANDI VIÐ FAGRADALSFJALL
ÓRÓAKVIÐA UPPÚR KL 2 30 Í DAG VAR ÖFLUG EN DRÓ SÍÐAN HELDUR ÚR HENNI. EKKI HEFUR GOSIÐ Í FAGRADALSFJALLS KERFINU Í UM 6000 ÁR OG EKKI Á REYKJANESSKAGANUM Í 780 ÁR
Frá hádegi í gær 2. Mars og fram eftir nóttu var frekar rólegt á skjálftasvæðunum miðað við dagana á undan. Kvikugangurinn var þó enn að valda smáskjálftum og því augljós hreyfing á honum. Þegar leið á morguninn jókst svo skjálftavirknin aftur og hefur verið mjög þétt eftir hádegi.
Líklegur upptakastaður kvikunnar er við Fagradalsfjall en svo er spurning hversu löng gossprungan verður í hvora átt. Hún verður nær örugglega með SV-NA stefnu. Einu mannvirkin sem gæru verið í hættu miðað við þessa staðsetningu er Suðurstrandarvegur.
HVERNIG ELDGOS VERÐUR ÞETTA EF AF VERÐUR?
Nær örugglega hraungos eða flæðigos nema sprungan nái út í sjó sem er afskaplega ólíklegt. Það gæti verið einhver öskumyndun til að byrja með, meðan kvikan er að hreinsa upp grunnvatnið í nágrenninu. Líkur á stóru gosi eru ekki miklar. Gossaga á Reykjanesskaganum segir það einfaldlega. Hraunið verður líklega (sé miðað almennt við hraun á Reykjanesskaganum) nokkuð þykkt apalhraun sem er ágætt, það ætti þá ekki að flæða sérlega langt.
Hinsvegar eru geysistórar dyngjur í Kerfinu eins og t.d. Þráinsskjöldur sem hefur myndast í mjög stóru og meira þunnfljótandi flæðigosi. Svo er það Fagradalsfjallið sjálft sem reyndar er stapi, trúlega myndað á síðasta jökulskeiði.
það er rétt að geta þess að gos er ekki hafið (kl 18:00 – 3.mars) en líkurnar á að það hefjist á allra næstu sólarhringum verða að teljast allmiklar úr því sem komið er.
Það sem er óvenjulegt miðað við sögu síðustu tveggja eldgosaskeiða á Reykjanesskaganum er að þau hafa bæði hafist með eldgosum í Brennisteinsfjallakerfinu, þ.e. í grennd við Bláfjöll og fært sig svo vestur eftir skaganum. EF það er að fara að gjósa núna við Fagradalsfjall þá er það ekki í samræmi við þessa sögu sem er þekkt.
UPPFÆRT KL. 20:58
Mikil skjálftavirkni er á svæðinu og virðist sem skjálftarnir verði á minna dýpi með hverjum klukkutímanum ef mælingar eru þokkalega nákvæmar á vef Veðurstofu Íslands. Það þýðir að kvikan er enn að nálgast yfirborðið og gera verður ráð fyrir að gos getur hafist í kvöld eða nótt.
.
UPPFÆRT 4.MARS KL 11:50
Enn bólar ekkert á gosinu en mikil jarðskjálftavirkni er í gangi. Um kl 9 varð skjálfti af stærðinni 4,5 við Fagradalsfjall, sá stærsti í yfir tvo sólarhringa. Um tíma í gær virtust skjálftarnir grynnri en nú eru þeir flestir að mælast á 3-5 km. dýpi.
Virknin er mest við Fagradalsfjall, lítil virkni er nær Keili núna. Virðist sem kvikugangurinn sé heldur að leita til suðvesturs, nær Suðurstrandarveginum og Grindavík.