Reykjanesskagi

ELDGOS YFIRVOFANDI VIÐ FAGRADALSFJALL

ÓRÓAKVIÐA UPPÚR KL 2 30 Í DAG VAR ÖFLUG EN DRÓ SÍÐAN HELDUR ÚR HENNI. EKKI HEFUR GOSIÐ Í FAGRADALSFJALLS KERFINU Í UM 6000 ÁR OG EKKI Á REYKJANESSKAGANUM Í 780 ÁR

Frá hádegi í gær 2. Mars og fram eftir nóttu var frekar rólegt á skjálftasvæðunum miðað við dagana á undan. Kvikugangurinn var þó enn að valda smáskjálftum og því augljós hreyfing á honum. Þegar leið á morguninn jókst svo skjálftavirknin aftur og hefur verið mjög þétt eftir hádegi.

Líklegur upptakastaður kvikunnar er við Fagradalsfjall en svo er spurning hversu löng gossprungan verður í hvora átt. Hún verður nær örugglega með SV-NA stefnu. Einu mannvirkin sem gæru verið í hættu miðað við þessa staðsetningu er Suðurstrandarvegur.

HVERNIG ELDGOS VERÐUR ÞETTA EF AF VERÐUR?

Nær örugglega hraungos eða flæðigos nema sprungan nái út í sjó sem er afskaplega ólíklegt. Það gæti verið einhver öskumyndun til að byrja með, meðan kvikan er að hreinsa upp grunnvatnið í nágrenninu. Líkur á stóru gosi eru ekki miklar. Gossaga á Reykjanesskaganum segir það einfaldlega. Hraunið verður líklega (sé miðað almennt við hraun á Reykjanesskaganum) nokkuð þykkt apalhraun sem er ágætt, það ætti þá ekki að flæða sérlega langt.

Hinsvegar eru geysistórar dyngjur í Kerfinu eins og t.d. Þráinsskjöldur sem hefur myndast í mjög stóru og meira þunnfljótandi flæðigosi. Svo er það Fagradalsfjallið sjálft sem reyndar er stapi, trúlega myndað á síðasta jökulskeiði.

Þessi mynd sýnir hraun á Reykjanesskaganum runnin frá landnámi. Heimild: ISOR
Hægt er að sjá þetta kort í þrívídd á vef ÍSOR Jarðfræðikort ÍSOR (jardfraedikort.is)

það er rétt að geta þess að gos er ekki hafið (kl 18:00 – 3.mars) en líkurnar á að það hefjist á allra næstu sólarhringum verða að teljast allmiklar úr því sem komið er.

Það sem er óvenjulegt miðað við sögu síðustu tveggja eldgosaskeiða á Reykjanesskaganum er að þau hafa bæði hafist með eldgosum í Brennisteinsfjallakerfinu, þ.e. í grennd við Bláfjöll og fært sig svo vestur eftir skaganum. EF það er að fara að gjósa núna við Fagradalsfjall þá er það ekki í samræmi við þessa sögu sem er þekkt.

UPPFÆRT KL. 20:58

Mikil skjálftavirkni er á svæðinu og virðist sem skjálftarnir verði á minna dýpi með hverjum klukkutímanum ef mælingar eru þokkalega nákvæmar á vef Veðurstofu Íslands. Það þýðir að kvikan er enn að nálgast yfirborðið og gera verður ráð fyrir að gos getur hafist í kvöld eða nótt.

.

UPPFÆRT 4.MARS KL 11:50

Enn bólar ekkert á gosinu en mikil jarðskjálftavirkni er í gangi. Um kl 9 varð skjálfti af stærðinni 4,5 við Fagradalsfjall, sá stærsti í yfir tvo sólarhringa. Um tíma í gær virtust skjálftarnir grynnri en nú eru þeir flestir að mælast á 3-5 km. dýpi.

Virknin er mest við Fagradalsfjall, lítil virkni er nær Keili núna. Virðist sem kvikugangurinn sé heldur að leita til suðvesturs, nær Suðurstrandarveginum og Grindavík.

Enn mikill kraftur í hrinunni á Reykjanesskaganum

Það var meira og minna stöðugur hristingur á Reykjanesskaganum um helgina og virðist sem ekkert dragi úr hrinunni nema síður sé. Tveir skjálftar um M 5 urðu og fjöldi skjálfta yfir M 4. Það sem hefur helst breyst er að upptökin eru að þéttast á svæði milli Fagradalsfjalls og í Norðaustur að Keili. Þó er einnig nokkur virkni í hafi skammt undan Reykjanestá og norðan Krýsuvíkur.

Myndin er sótt á vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálfta síðustu sólarhringa. Grænar stjörnur eru skjálftar yfir M 3 af stærð.

Rétt uppúr kl 16 35 í dag 1.mars reið yfir enn einn öflugur skjálfti, fyrstu mælingar segja M 4.9

Er eldgos í vændum?

Margir eru að spyrja þessarar spurningar, eðlilega.

Það sem bendir til þess að ekki sé að fara að gjósa:

  • Ekkert landris hefur mælst á svæðinu samfara hrinunni
  • Ekki eru að mælast lágtíðniskjálftar sem fylgja kvikuhreyfingum neðanjarðar
  • Ekki er að mælast gasútstreymi sem oft er fyrirboði eldgosa
  • Lítið er um djúpa skjálfta þ.e. 7km og dýpra en þó einhverjir.

(ATH. OFANGREINDAR UPPLÝSINGAR ERU NÚ ÓLJÓSAR Í LJÓSI NÝJUSTU TÍÐINDA. SJÁ NEÐAR Í FÆRSLUNNI )

Það sem er grunsamleg og gæti bent til meiri atburða er:

  • Skjálftahrinan hefur nú staðið sleitulaust í yfir 5 sólarhringa og virðist ekkert draga úr henni. Þetta er óvenjulegt.

Ef svo illa færi að gossprunga opnaðist á þeim stað þar sem skjálftarnir eiga flestir upptök sín þá er lán í óláni að það er líklega skásti staðurinn á Reykjanesskaganum til að fá upp eldgos. Þarna eru engin mannvirki og enginn ætti að vera í hættu. Hraun gæti í versta falli runnið yfir Reykjanesbrautina sem skapar auðvitað mikil óþægindi um tíma amk. Ef sprungan opnast sunnarlega þá væri Suðurstrandarvegurinn í hættu.

Að þessu sögðu verður þó að telja langmestar líkur á að hrinan fjari hægt og rólega út á næstu dögum.

Keilir. Mynd: Óskar Haraldsson

UPPFÆRT KL 17:53

SAMKVÆMT NÝJUSTU MÆLINGUM VERÐUR AÐ TAKA GOS INN Í SVIÐSMYNDINA

TALIÐ ER AÐ KVIKUGANGUR, Þ.E. KVIKUINNSKOT GETI VERIÐ AÐ MYNDAST Í GRENND VIÐ KEILI.

SJÁ NÁNAR FRÉTT ÁR RÚV.IS https://www.ruv.is/frett/2021/03/01/gos-vid-keili-medal-moguleika-sem-tharf-ad-kanna

Mikil skjálftavirkni við Fagradalsfjall í dag 26.febrúar

Um hádegisbilið í dag hljóp mikill kraftur í hina öflugu jarðskjálftahrinu sem hófst á Reykjanesskaga í fyrradag. Um kl. 12:06 varð skjálfti uppá M 4,4 og síðan til kl 17 30 hafa 27 skjálftar náð M 3 af styrkleika og nokkrir stærri en M 4. Upptökin eru á svipuðum slóðum og í fyrradag en virðast þó helst bundin við tvær sprungur við Fagradalsfjall.

Skjálftar í dag 26. febrúar frá hádegi til kl 17 30. Heimild: Skjálftavefsjá á vef Veðurstofu Íslands.

Ekki hefur orðið vart við kvikuhreyfingar eða innskot en sérfræðingar á Veðurstofunni taka fram að vegna hins mikla fjölda skjálfta þá er ekki útilokað að minniháttar hreyfingar kæmu ekki fram á mælum. Það vekur hinsvegar athygli að nokkuð hefur verið um djúpa skjálfta þ.e. 7-10 km og dýpri. Það er alltaf grunsamlegt því á þessu dýpi eru mörk möttuls og jarðskjorpunnar og skjálftar þar stafa líklegast af kvikuhreyfingum.

Ekki hefur heldur verið nein virkni austan Kleifarvatns og tala jarðfræðingar um að það svæði sé “læst”. Það þýðir að verði skjálftar þar á annað borð þá geti þeir orðið mjög stórir því engin spennulosun hefur átt sér stað þar. Þar er jarðskorpan mun þykkri en vestar á Reykjanesskaga og getur því framkallað mun stærri skjálfta, allt að M 6,5 af því að talið er. Í tvígang hafa slíkir skjálftar fylgt hrinum vestar á skaganum á síðustu öld, árin 1929 og 1968. Það er því ekki að ástæðulausu að hættustig er í gildi á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu og í Árnessýslu.

MJÖG ÖFLUG JARÐSKJÁLFTAHRINA Á REYKJANESSKAGA- SÁ STÆRSTI M 5,7

EIN ÖFLUGASTA HRINA Á REYKJANESI FRÁ UPPHAFI MÆLINGA. HÆTTUSTIGI LÝSTI YFIR Á REYKJANESI OG HÖFUÐBORGARSVÆÐINU. Á ANNAN TUG SKJÁLFTA YFIR M 4,0

Upptök skjálftanna. Heimild:Veðurstofa Íslands

Laust eftir kl 10 í morgun varð jarðskjálfti af stærð 5,7 um 3,3 km SSV af Keili. Þetta er einn allra stærsti skjálfti sem mæst hefur á Reykjanesskaganum. Svipaður skjálfti varð þó í október síðastliðnum en sá mældist 5,6. Þessi er semsagt ögn stærri og virðist hafa fundist á enn stærra svæði, allt norður í land.

Mjög mikil eftirskjálftavirkni hófst strax og fyrsta klukkutímann eftir skjálftann mældust hvorki meira né minna en 35 skjálftar yfir M 3 sem er gríðarlega mikið á svo stuttum tíma. Síðan hefur heldur dregið úr skjálftum en þó varð einn um M 4,9 kl 12:37.

Þá er skjálftasvæðið allmikið umfangs. Skjálftarnir eru mest að mælast á rúmlega 20 km. löngu belti frá Svartsengi að Krýsuvík sem er óvanalegt. Skjálftarnir eru sniðgengisskjálftar og ólíklegt að þeir tengist eldsumbrotum en þar sem þeir eiga sér stað á eldvirku svæði þar sem landris hefur mælst nýlega vegna kvikuhreyfinga þá er ekki rétt að útiloka eldgos. Sniðgengisskjálftar verða þegar þversprungur á flekaskilum nuddast saman og er það reyndar algengasta tegund skjálfta sem verða á Íslandi.

Helst er óttast að þessi hrina komi af stað skjálftum á Bláfjalla-Brennisteinsfjallasvæðinu en það hefur verið undarlega rólegt á því belti meðan vesturhluti Reykjanesskagans hefur nú skolfið meira og minna í á annað ár. Skjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið allt að M 6,5. Þar sem algengt er að stórir skjálftar komi í hrinum þá er best að fólk á Suðvesturhorninu hafi varann á sér meðan þetta gengur yfir.

Eins og sést á meðfylgjandi mynd þá raðast skjálftarnir á rúmlega 20km langt belti. Austan Kleifarvatns eru sárafáir skjálftar.

Snarpir eftirskjálftar- Virknin færist í átt að Fagradalsfjalli

Mikið hefur verið um eftirskjálfta í dag eftir stóra skjálftann laust eftir hádegi. Nú er staðfest stærð hans M 5,6 sem gerir skjálftann að stærsta jarðskjálfta á Reykjanesskaganum síðan árið 2003.

Skjálftinn var dæmigerður sniðgengisskjálfti á flekaskilum og eldsumbrot í kjölfarið eru harla ólíkleg. Hinsvegar getur hrinan haldið eitthvað áfram og skjálftar upp á M 3,5 – 4 nokkuð líklegir næstu 12-24 tímana. Mjög ólíklegt er að annar svona stór skjálfti verði.

Skjálftarnir hafa síðustu klukkustundir fært sig í vestur eftir misgenginu í átt að Fagradalsfjalli en þar hafa einmitt orðið öflugir skjálftar á árinu.

Staðsetning skjálftanna í dag. Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands. Hafa ber í huga að þegar svo mikið mælist af skjálftum þá er staðsetning þeirra ekki alltaf mjög nákvæm á kortum fyrst um sinn.
Scroll to Top