ER BERGGANGURINN AÐ NÁLGAST GRINDAVÍK ?

Vísindamenn segja að mjög hafi dregið úr líkum á gosi á Reykjanesskaga. Það sem þeir hafa til síns máls er að skjálftarnir eru flestir enn á 3-5 km dýpi og má þá ætla að kvikan hafi lítið sem ekkert nálgast yfirborð.

Þá segja vísindamenn aðspurðir um hvort kvikan sé að nálgast Grindavík að skjálftarnir vestan og suðvestan til við Fagradalsfjall séu líklega spennuskjálftar. Á þeim er að skilja að þarna sé ekki kvika. Þetta finnst mér dálítið fljótafgreitt hjá þeim. Virknin virðist vera á tveimur aðalupptakasvæðum nú í kvöld, annarsvegar rétt suðaustan við Fagradalsfjall og hinsvegar nokkrum kílómetrum fyrir vestan og suðvestan fjallið, semsagt 3-5 norður af Grindavík.

Kvikugangurinn gæti hafa kvíslast og er að leita uppgöngu, rétt eins og var fyrr í vikunni þegar kvikan virtist annarsvegar vera að nálgast Keili og með annarri virknismiðju nærri Sveifluhálsi. Líklegast var um innskotavirkni á báðum stöðum að ræða en kvikan fann ekki leiðina upp á yfirborðið.

Skjálftayfirlit Veðurstofunnar sýnir enn gríðarlegan fjölda smáskjálfta. Svona nokkuð hefur eiginlega ekki sést síðan í kvikuganginum frá Bárðarbungu að Holuhrauni og það voru reyndar yfirleitt heldur smærri skjálftar en hér eru um að ræða. Það er því svo sannarlega hættuástand á ferðinni. Vonandi verður ekkert úr þessu en telja verður líkurnar á gosi afar miklar miðað við virknina sem hefur nú staðið í rúma 8 sólarhringa.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands kl 21:35 að kvöldi 4.mars.

Það blasir við á ofangreindri mynd að ástandið er grafalvarlegt. Gríðarlegur fjöldi skjálfta segir okkur að kvika er að streyma upp í kvikuganginn sem reynir svo að brjóta sér leið uppá yfirborðið. Kvikan sem á uppruna sinn við Fagradalsfjallið nálgaðist um tíma Krísuvíkurkerfið en virðist nú vera að teygja sig frekar á átt að Svartsengiskerfinu vestan við Fagradalsfjall. Kvikan er einfaldlega að leita að leið uppá yfirborðið.

Skjálftavefsá Veðurstofunnar sýnir hér skjálfta síðustu 4 sólarhringa. Rauðu punktarnir eru nýjustu skjálftarnir, bláu elstu.

Ofangreind mynd sýnir upptök skjálfta síðustu 4 sólarhringa. Grindavík er rétt fyrir ofan til hægri við súluritið í vinstra horninu. Nýjustu skjálftarnir eru að mælast annas vegar í og rétt sunnan og suðaustan við Fagradalsfjall og hinsvegar örfáa kílómetra fyrir norðan Grindavík, á Svartsengissvæðinu. Annað er að ekki nærri allir skjálftar koma fram á þessari skjálftavefsjá hvernig sem stendur á því. Þarna eru teiknaðir upp 1178 skjálftar síðustu 4 sólarhringa en líklega eru þeir á milli 6 og 8 þúsund í raun.

Það er ekki ætlunin að hræða með þessum pistli en að afskrifa eða gera lítið úr hættunni á gosi nærri byggð er einfaldlega ekki í boði meðan skjálftavirknin er þetta mikil og á þessum slóðum.

Scroll to Top
%d bloggers like this: