SKJÁLFTI M 5.1 Í NÓTT. KVIKAN KOMIN MJÖG NÁLÆGT YFIRBORÐI

Birta á :

Skjálftavirkni jókst mjög uppúr kl 18 í gærkvöldi og náði hámarki um kl 3 15 í nótt með skjálfta upp á M 5,1. Nokkrir skjálftar hafa náð M 4 af stærð og fjölmargir milli M 3 og 4, amk. 16 talsins frá miðnætti þar til þetta er ritað um kl 6 40. Margir þeirra hafa fundist á Reykjanesskaganum og höfuðborgarsvæðinu.

Kvikan hefur enn ekki náð að brjóta sér leið upp á yfirborðið en eins og staðan er núna virðist fátt geta komið í veg fyrir eldgos í eða við Fagradalsfjall. Kvikugangurinn er á um eins kílómetra dýpi að því að talið er og hefur verið að færast heldur í suðvestur og suðurátt. Virðist sem svo að hann hafi kvíslast í tvo ganga miðað við jarðskjálftavirknina. Annan til suðvesturs og hinn til suðurs frá Fagradalsfjalli.

Ef eldsuppkoma verður á þessum slóðum þá eru engin mannvirki í hættu nema ef vera skildi að hraunstraumur næði að Suðurstrandarvegi.

Mynd af skjálftavefsjá Veðurstofunnar. Hér má sjá líklega tvo ganga frá Fagradalsfjalli til suðvesturs og suðurs. Sá sem er nær Grindavík er í um 6 km fjarlægð frá bænum en fjallið Þorbjörn skýlir væntanlega bænum. Þá er Suðurstrandarvegur í um 1,6 km fjarlægð frá ganginum sem liggur til suðurs.
Scroll to Top