EKKERT LÁT ER Á SKJÁLFTAHRINUNNI VIÐ FAGRADALSFJALL SEM HEFUR NÚ STAÐIÐ Í TÆPAR ÞRJÁR VIKUR. NÆSTSTÆRSTI SKJÁLFTI HRINUNNAR MÆLDIST Í DAG M 5,4 MEÐ UPPTÖK AÐEINS 4 KM FRÁ GRINDAVÍK. FANNST HANN VESTUR Á FIRÐI OG Á SAUÐÁRKRÓKI.
Það er eiginlega með ólíkindum að kvikan sem er á ferð grunnt undir yfirborðinu við Fagradalsfjall hafi ekki enn fundið sér leið upp á yfirborðið. Það þýðir að hún er enn að finna sér sprungur og glufur neðanjarðar til að troða sér í. Jarðfræðingar telja auknar líkur á eldgosi í kjölfar svo stórra skjálfta sem urðu í dag.
Kvikugangurinn virðist þó hafa staðið í stað undanfarna sólarhringa að færst eitthvað örlítið til suðurs. Aukið uppstreymi kviku hefur því etv. breikkað ganginn og hugsanlega fært hann nær yfirborði.
Á myndinni að ofan sést að upptök stóra skjálftans voru aðeins um 4 km frá Grindavík enda lék allt á reiðiskjálfi þar meðan hann gekk yfir. Eitthvað tjón mun hafa orðið. Það að skjálftinn sé svona nálægt bænum þýðir ekki að kvikan sé þar, heldur er þetta talinn vera svokallaður gikkskjálfti sem er afleiðing spennubreytinga á allstóru svæði sem aftur er af völdum kvikuinnskotsins.
HVERNIG VERÐUR FRAMHALDIÐ?
Kvika streymir enn af allmiklu afli upp í jarðskorpuna undir Fagradalsfjalli. Það sýna um 2500-3000 jarðskjálftar á sólarhring sem er gríðarlegur fjöldi. Það er ekker sem bendir til þess að það sé að hægja á þessu uppstreymi. Kvikan er nú talin vera á aðeins 1 km dýpi og jafnvel minna en það. Enn verður telja líkur á eldgosi yfirgnæfandi, amk. meðan uppstreymið er svona mikið.