Bárðarbunga

Hlaup undan Köldukvíslarjökli

Í gær og í nótt varð lítið jökulhlaup undan Köldukvíslarjökli sem er í vestanverðum Vatnajökli á milli Hamarsins og Bárðarbungu.  Það er skammt á milli atburða þessar vikurnar og virðast eldstöðvar á Suður og Suðausturlandi með allra líflegasta móti.  Að öllum líkindum var það jarðhiti sem olli þessu hlaupi en þessi “hlaupleið” er þó fremur fátíð því ekki er vitað um mikilvirk jarðhitasvæði á þesum slóðum.  Hlaupið kom greinilega fram á óróamælum Veðurstofunnar í grennd við Vestanverðan Vatnajökul og því var augljóst að eitthvað var um að vera á þeim slóðum.  Hlaupið olli ekki neinum skaða.  Það fór beint í Hágöngulón og fyllti það sem kemur sér reyndar ágætulega fyrir vatnsbúskap Landsvirkjunar svo framarlega sem ekki verða meiri atburðir þarna.

Þetta er enn einn atburðurinn í langri röð atvika í Bárðarbungueldstöðinn sem bendir til þess að Bárðarbunga sé að hitna og búa sig undir gos.  Jarðskjálftar hafa verið mjög tíðir undanfarin ár og reyndar áratugi í sprungureinum Bárðarbungu, norðan við hana, í henni sjálfri og einnig sunnan við hana þ.e. í grennd við Hamarinn sem einnig er megineldstöð í Bárðarbungukerfinu.

Uppfært kl. 00 45

Hlaupið kom niður farveg árinnar Sveðju en ekki Köldukvísl eins og áður var talið og kemur það úr háhitasvæði nálægt Hamrinum sem ekki var vitað um áður.  Kom þetta fram í fréttum RÚV í kvöld.  Hlaupið var nokkru stærra en hlaupið sem varð í Múlakvísl fyrir nokkrum dögum.

Árið 1996 kom stór jarðskjálfti í Bárðarbungu, 5 á Richter af stað eldgosi undir jökli á milli Bárðarbungu og Grímsvatna.  Gosefnin tilheyrðu Grímsvatnakerfinu og því hefur þetta gos verið flokkað sem Grímsvatnagos.

Eins og fram kemur í umfjöllun okkar um Bárðarbungu þá er þetta ein öflugasta eldstöð landsins og verða öflugar goshrinur í kerfinu á nokkur hundruð ára fresti.  Ekki er talið að gosið hafi þar síðan Tröllahraun rann á árunum 1862-4 á jökullausu svæði norðan Vatnajökuls.  Mjög öflug hrina gekk yfir árin 1477-1480 með stórgosum bæði í jöklinum og á Veiðivatnasvæðinu.  Ljóst er að slík hrina mundi valda gríðarlegu tjóni gengi hún yfir í dag.  Einnig varð öflug hrina skömmu eftir Landnám á svipuðum slóðum og myndaði Landnámslagið svokallaða sem er tvílitt gjóskulag því á sama tíma varð gos í Torfajökulskerfinu en þau fylgja gjarnan stórgosum á Veiðivatnasvæðinu.  Þá eru einnig ummerki um mikil hamfarahlaup úr Norðvestanverðum Vatnajökli sem rekja má til Bárðarbungu og /eða Kverkfjalla.

Bárðarbunga gæti svosem tekið sér nokkra áratugi í viðbót í að undirbúa gos og ekki er víst að um stóran atburð verði að ræða en eldstöðin á sér langa sögu um hamfaragos og því er allur varinn góður.

Enn ein skjálftahrinan við Kistufell

Undanfarið hefur verið heldur órólegt í Bárðarbungukerfinu í Vatnajökli og þá helst i kringum Kistufell sem er um 25 km. norðaustur af hásléttu (öskju) Bárðarbungu.  Aðfaranótt sunnudags mældust tveir skjálftar yfir 3 á richter og fjölmargir smærri.  Flestir skjálftarnir eru á talsverðu dýpi, um 7-10 km, og ekkert sem bendir til þess að kvika sé í þann veginn að brjótast upp á yfirborðið.   Sem fyrr er svæðið þó mjög virkt og líkur á að fyrr en síðar gjósi í Bárðarbungukerfinu.  Síðasta goshrina á þessum slóðum varð á árunum 1862-4.

Gos í Bárðarbungukerfinu geta þróast með þrennum hætti:  Í fyrsta lagi gos í eða við öskjuna sjálfa í jöklinum.  Vitað er að árið 1477 varð allstórt gos af þessu tagi.    Í öðru lagi geta orðið kvikuhlaup til suðvesturs og virðist þetta gerast á um 5-800 ára fresti.  Síðast varð slikur atburður árið 1480, Veiðivatnagosið.  Er því lýst hér. Það er athyglisvert að þetta mikla gos á sér stað aðeins fáum árum eftir mikið gos í jöklinum.   Kvikuhlaup til suðvesturs með allstóru gosi á jökullausu svæði varð einnig i kringum árið 870 og myndaði Landnámslagið svokallaða sem er tvílitt öskulag enda gaus á sama tima í Torfajökulskerfinu.  Það gerðist reyndar einnig árið 1480.    Í þriðja lagi verða gos norðaustur af Bárðarbungu, í eða norðan Kistufells og jafnvel á jökullausu svæði þar norður af.  Slíkt gerðist síðast á árunu 1862-4 eins og áður sagði.  Þetta eru hættuminnstu gosin í Bárðarbungusvæðinu enda víðsfjarri mannabyggðum og komi gos upp á jökullausu svæði veldur það engu tjóni.   Það gildir auðvitað allt annað um stórgos i jöklinum sjálfum, þar kemur bæði til öskufall og flóðahætta.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir skjálfta í Vatnajökli undanfarna sólarhringa.

Árið kveður með skjálftahrinu við Kistufell

Skjálftar við Bárðarbungu og KistufellEldgosaárinu 2010 er nú að ljúka og með viðeigandi hætti –  Eldstöðin Bárðarbunga lætur vita af sér með skálftahrinu nálægt Kistufelli um 20 km. norðaustur af Bárðarbungu.  Það hefur verið viðvarandi órói á þessu svæði lengi.   Fyrr í vikunni var einnig skjálftavirkni í Bárðarbungu sjálfri eins og sést á meðfylgjandi mynd,  bláu punktarnir eru skjálftar í Bárðarbungu en þeir rauðu eru flestir í nánd við Kistufell.  Smáskjálftar sjást þarna einnig nærri Öskju og norður af Kverkfjöllum.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

Eldgos.is óskar landsmönnum gleðilegs árs og friðar. 

Vatnajökull í stuði

Hvorki meira né minna en fjórar eldstöðvar undir Vatnajökli hafa sýnt jarðskjálftavirkni í vikunni. Er hér um að  ræða Bárðarbungu sem reyndar hefur verið óróleg lengi, Grímsvötn og Kverkfjöll. Allt eru þetta þekktar eldstöðvar sem hafa oft gosið á sögulegum tíma en sú sem hvað verst lætur þessa dagana er eldstöðin Esjufjöll í suðaustanverðum jöklinum, ca. 20 km, NA af Öræfajökli.   Á meðfylgjandi kortið sem fengið er af vef Veðurstofunnar sjást skjálftarnir.  Neðarlega til hægri eru skjálftar í Esjufjöllum. …

Scroll to Top