Bárðarbunga

ENN MIKILL KRAFTUR Í GOSINU OG NOKKRAR SVIÐSMYNDIR UM FRAMHALD MÖGULEGAR

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram og er öflugt.  Gossprungan er um 1,5 km á lengd en nú þegar hafa runnið um 7,5 ferkilómetrar af hrauni.    Stefnir meginhrauntaumurinn í átt að Jökulsá  á fjöllum og gæti stíflað hana ef gosið heldur áfram af krafti næstu vikur.

Þá hefur allmikill sigdalur myndast í norðanverðum Dyngjujökli og að gossprungunni.  Enn er talinn möguleiki á að gossprungan lengist og teygi sig inn á jökulinn með tilheyrandi flóðahættu.

Skjálfti upp á M 5,5 varð við Bárðarbunguöskjuna í nótt.  Er þetta næststærsti skjálftinn í hrinunni en alls hafa 13 skjálftar yfir M 5 mælst sem sýnir hversu mikil þessi umbrot eru því skjálftar upp á M 5 i eldstöðvum eru alls ekki algengir, hvað þá svona margir.

Vísindamenn telja eftirfarandi möguleika líklegast í stöðunni hvað framhaldið varðar og er eftirfarandi klausa tekin af vef Veðurstofunnar.

  • “Fjórir möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:

    • Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.
    • Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.
    • Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
    • Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.
  • Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Nú ætlum við að velta þessum möguleikum aðeins upp og útskýra þá.

1. Að innflæði kviku stöðvist.  – Þar sem hér er um rek- og gliðnunarhrinu að ræða sem oftast standa mánuðum og jafnvel árum saman þá verður þessi möguleiki að teljast óliklegur.  Hinsvegar gæti virknin í hrinunni orðið lotubundinn, gætu komið mánuðir þar sem lítið innstreymi verður og taki þá við ný óróleikatímabil með kvikuinnstreymi, kvikuhlaupum og eldsumbrotum.

2.  “Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.”   Þó að nú gjósi þá er ekki hægt að tala um að gangurinn nái til yfirborðs, meginkvikan er enn á miklu dýpi og gosið skilar aðeins broti af kvikunni upp.  Ef megingangurinn nær yfirborði þá má búast við miklu öflugra gosi, meira hrauni ef það yrði utan jökuls og lengri gossprungu.

3.  “Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.”  Hér er viðraður sami möguleiki nema hvað að gosið yrði undir jökli.  Á sama hátt, ef megingangurinn nær yfirborð, undir jökli í þetta sinn, þá yrði um sprengigos að ræða hugsanlega á nokkuð langri sprungu undir jökli og hætta á hamfaraflóði.

4.  “Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.”   Gos í Bárðarbunguöskjunni hefur alla burði til að valda meiriháttar hamförum.  Kvikuhólf öskjunnar er sennilega fullt af kviku sem hefur staldrað þar lengi við, orðin súr og gasrík.  Það gæti því orðið “súrt sprengigos” í öskjunni með gríðarlegu gjóskufalli og jökulhlaupum sem gætu fallið í þrjár áttir.

Þessi miklu umbrot geta því þróast í ýmsar áttir og aðrir möguleikar heldur ekki útilokaðir.  Skjálftavirknin í Öskju veldur  einnig vissulega áhyggjum.

 

 UPPFÆRT 5. SEPTEMBER KL. 12 00

Myndin er frá jarðvísindastofnun og sýnir báðar sprungurnar í morgun.
Myndin er frá jarðvísindastofnun og sýnir báðar sprungurnar í morgun.

NÝ GOSSPRUNGA HEFUR OPNAST Á SÖMU REIN OG ELDRI SPRUNGAN EN MIKLU NÆR DYNGJUJÖKLI.  Gýs þar á um 700 metra kafla en gosið í nyrðri endanum er enn öflugt og rennur allmikið hraun sem nálgast óðfluga Jölulsá á Fjöllum.

Þá eru jarðskjáfltar á svæðinu töluvert grynnri en þeir hafa verið hingað til sem bendir til þess að meginkvikugangurinn nálgist yfirborðið.  Það er væntanlega skýringin á nýju sprungunni og má búast við aukinni gosvirkni ef gangurinn nálgast yfirborðið meira.  Gæti sprungan þá náð inná Dyngjujökul, jafnvel töluvert langt inná hann. Einnig er mögulegt að jörð rifni á milli gömlu og nýju gossprungunnar.

Skjálftum hefur fækkað mikið á svæðinu sem bendir til þess að ákveðið jafnvægi gæti verið að nánst þ.e. nokkurnveginn jafnmikili kvika streymir inn gagninn og kemst uppúr honum i eldgosinu.  Framhaldið veltur því á hversu mikið magn kviku og hve lengi hún streymir inn ganginn frá kvikuþrónni undir Bárðarbungu.

Myndin er fengin af facebook vef jarðvísindastofnunar Íslands en þar eru birtar reglulega upplýsingar um framþróun atburðanna á Bárðarbungusvæðinu.

 

 

NÝJA GOSIÐ Í HOLUHRAUNI MIKLU STÆRRA EN TALIÐ VAR Í FYRSTU

Skjáskot af vefmyndavél Milu þar sem glittir í kvikustróka og nýtt hraun.
Skjáskot af vefmyndavél Milu þar sem glittir í kvikustróka og nýtt hraun.

Nú virðist vera ljóst að um töluvert mikið gos er að ræða þó það sé á tiltölulega stuttri sprungu.  Gosið er jafnvel mun stærra en gosið í Eyjafjallajökli en þar sem þetta er eingöngu hraungos þá hefur það auðvitað ekki sömu áhrif.  Það var því mikil lukka að fá þetta gos á auðu landi.

Ljóst er að það er gosið sem veldur því að jarðskjálftum fækkaði skyndilega á svæðinu, kvikan hefur fundið sér tiltölulega greiða leið til yfirborðs og vel má vera að sprungan sé að dæla sama magni út og kemur eftir kvikuganginum frá Bárðarbungu.

Það er mikilvægt að rannsaka sem fyrst hvaðan kvikan er upprunin.  Sé hún komin djúpt að , úr kvikuþró undir Bárðarbungu á 8-15 km dýpi þá er sviðsmyndin dálítið önnur en ef um er að ræða kviku beint úr grunnstæðu kvikuhólfi.  Kvika úr djúpri kvikuþró styður kenningar um að “megingangur” hafi opnast og eykur líkur á langvarandi umbrotum í Bárðarbungukerfinu.  Þessu verður væntanlega skorið úr með efnagreiningum á gosefnum næstu daga.

Þetta er þriðja gosið á rúmri viku og það langstærsta.

.

UPPFÆRT 1. SEPT. KL. 13 00

DREGUR HRATT ÚR GOSINU – STÓRIR SKJÁLFTAR Í BÁRÐARBUNGUÖSKJUNNI

Samkvæmt Ruv.is  þá hefur dregið hratt úr gosinu i morgun og að öllu óbreyttu má gera ráð fyrir því að þessu gosi ljúki á næstu dögum.  Það þýðir hinsvegar ekki að umbrotunum sé lokið því enn er mikil jarðskjálftavirkni við enda kvikuganganna og þá virðist skjálftavirkni vera að aukast i Bárðarbunguöskjunni.  Þar urðu í morgun tveir stórir skjálftar upp á 5 og 5.3 stig.

Þá hefur komið i ljós að gliðnunarhreyfingar eru enn í fullum gangi og því ljóst að gosið var ekki að skila því magni upp sem rann eftir kvikugöngunum.  Enn eru því möguleikarnir á stóru gosi í jöklinum til staðar, jafnvel í öskjunni sjálfri eða þá Dyngjujökli. Allt bendir til þess að enn streymi mikið magn kviku upp undir Bárðarbungueldstöðina og eftir kvikuganginum margnefnda.

VAXANDI SKJÁLFTAVIRKNI VIÐ HERÐUBREIÐARTÖGL vekur einnig athygli en skjálftavirkni hefur aukist mjög á Öskjusvæðinu við umbrotin i Bárðarbungu.  Skjálftarnir við Herðubreiðartögl eru miklu grynnri en skjálftarnir við kvikuganginn.  Ljóst er að umbrotin í Bárðarbungu hafa áhrif á spennu á stóru svæði.

 

Vefmyndavél Mílu sem sýnir gosið

Hraungos hafið í Holuhrauni

Skjámynd af vefmyndavél Mílu þar sem hægt er að fylgjast með eldgosinu.
Skjámynd af vefmyndavél Mílu þar sem hægt er að fylgjast með eldgosinu.  Nú sjást eingöngu gufustrókar, óvíst er hvort gosið sé enn í gangi.

Gosið er  á um 1 km. langri sprungu og því sem stendur mjög lítið.  Það gat varla komið upp á heppilegri stað, utan jökuls og ekki nær Öskju en þetta.  Hraun sem kemur upp á þessum stað þarf að renna svo langt til að valda skaða að það má telja útilokað að það gerist.

Meðan þarna er gos þá ætti kvikugangurinn ekki að lengjast þ.e. ef gosið nær að létta af mesta þrýstingnum.  Miðað við hve lítið gosið er þá er það hinsvegar alls ekki víst.  Það er enn margfalt meira magn kviku sem hefur verið á ferðinni heldur en er að koma upp í þessu gosi þannig að óvíst er að þetta smágos marki lok þessarar hrinu.

Rétt er þó að benda á að stórir kvikugangar storkna oft í jörðu án þess að ná yfirborði þannig að spurningin núna er hvort það sé að hægjast á uppstreymi kvikunnar úr kvikuþrónni undir Bárðarbungu, sé svo þá gæti þetta markað lok þessarar lotu í hrinunni að  minnsta kosti.  Óróatímabil í Bárðarbungu gæti hinsvegar staðið í áratugi með mörgum misöflugum gosum. Við bendum sérstaklega á vefsíðu Mílu þar sem hægt er að fylgjast með gosinu í beinni útsendingu.

.

Mynd fengin af vefsjá Veðurstofunnar 29.ágúst kl. 0645
Mynd fengin af vefsjá Veðurstofunnar 29.ágúst kl. 0645

Myndin hér til hliðar er tekin af skjálftavefsjá veðurstofunnar og þar sést greinilega að mesta virknin er nálægt gosstöðvunum rétt norðan Dyngjujökuls, þ.e. i Holuhrauni sem myndaðist í gosi árið 1797.  Menn hafa hingað til hallast að því að það hraun hafi sprottið úr eldstöðvakerfi Öskju en má telja víst að það hafi runnið i kjölfar kvikuhlaups frá Bárðarbungu.

Fréttir af gosinu í fjölmiðlum:

Mbl.is: Eldgos hafið norðan Dyngjujökuls

Ruv.is:  Eldgos hafið i Holuhrauni

Visir.is: Sprungan talin vera um 1 kílómetri á lengd

.

UPPFÆRT KL. 12 50

GOSINU LOKIÐ, SMÁGOS SEM BREYTIR ENGU UM FRAMVINDUNA.  Það fór eins og lá strax nokkuð ljóst fyrir að gosið var alltof lítið til þess að létta þrýstingi af kvikuganginum frá Bárðarbungu út í Holuhraun.  Því er lokið í bili amk. en skjálftavirknin hefur haldið áfram og aukist síðustu klukkustundir.  Tveir stórir skjálftar urðu um hádegisbilið við norðanverða Bárðarbunguöskjuna, annar M 4,8 og hinn 5,2. 

Vísindamenn eru nokkuð sammála um að aðeins brotabrot af kvikunni sem er á ferð kom upp, þetta var í raun aðeins örlítill leki upp úr kvikuganginum.  Mikil skjálftavirkni er á þeim slóðum sem gosið varð, þ.e. við enda kvikugangsins en hann hefur lítið sem ekkert skriðið fram síðustu sólarhringa og virðist því vera einhver fyrirstaða í berginu sem stöðvar hann í bili að minnsta kosti.  Áframhaldandi skjálftavirkni þýðir einfaldlega að kvika er enn að streyma upp úr kvikuþró Bárðarbungu og inn ganginn fram eftir Dyngjujökli.  Óvissan og möguleiki á stóru gosi er þvi enn fyrir hendi.

Þá vekur athygli að skjálftar raða sér nokkurnveginn hringinn í kringum Bárðarbunguöskjuna.  Mjög fróðlegt væri að vita hvað GPS færslur segja um hvort hún hefur sigið síðustu sólarhringa,  sumir vísindamenn segja að skjálftarnir í öskjunni séu vegna aðlögunar og sigs en nefna ekki hvort þetta sig sjáist á GPS mælingum sem framkvæmdar hafa verið.

UPPFÆRT 31 ÁGÚST KL. 9 15

GOSIÐ Í HOLUHRAUNI HAFIÐ AFTUR – MUN STÆRRA

Í nótt hóf að gjósa á nýjan leik í holuhrauni , að huta til á sömu sprungu og fyrir 2 dögum en hún nær þó mun lengra í norður en áður og út fyrir svæðið sem hraunið og sprungan frá 1797 nær yfir.  Sprungan mun vera vel á annan kilómeter á lengd og kvikustrókar ná um 60  metra hæð að sögn sjónarvotta.

Þrátt fyrir að þetta sé stærra gos en “slysið”  fyrir tveim dögum þá er um smágos að ræða.  Það má etv. líta á þessi gos sem einskonar yfirfall frá aðrennslisæðinni neðanjarðar, þ.e. það er bara sáralitið brot af kvikunni að skila sér upp á yfirborðið.

Mjög hefur dregið úr skjálftavirkni á svæðinu síðustu klukkustundir sem bendir til þess að kvikustreymið fari minnkandi í bili en það má fastlega reikna með því að virknin aukist aftur miðað við hvernig atburðarrásin hefur verið síðust tvær vikur.

Hér er slóð á vefmyndavél Mílu á svæðinu en veðrið er afleitt þar þessa stundina og sést lítið til gossins.

SIGKATLAR Í JÖKLI OG NÝJAR SPRUNGUR UTAN JÖKULS

Mynd af skjálftavefsjá veðurstofunnar í dag 28.ágúst kl 0935.  Kvikugangurinn hefur ekki lengst síðasta sólarhring en öflug skjálftavirkni er þó nærri enda hans.
Mynd af skjálftavefsjá veðurstofunnar í dag 28.ágúst kl 0935. Kvikugangurinn hefur ekki lengst síðasta sólarhring en öflug skjálftavirkni er þó nærri enda hans.

ÓRÓINN Í BÁRÐARBUNGU HELDUR ÁFRAM, SKJÁLFTI UPP Á 5 STIG MÆLDIST Í ÖSKJUNNI, SIGKATLAR HAFA MYNDAST VIÐ SUNNANVERÐA BÁRÐARBUNGUÖSKJUNA SEM BENDA TIL AÐ ÞAR HAFI ORÐIÐ LÍTIÐ GOS EN ÞAÐ ER EKKI Á ÞVÍ SVÆÐI SEM ÓRÓINN HEFUR VERIÐ OG ÞVÍ ENN EITT ÁHYGGJUEFNIÐ.  ÓLJÓST ER HVAÐ HEFUR ORÐIÐ UM HLAUPVATNIÐ EN LÍKLEGA HEFUR ÞAÐ SAFNAST FYRIR Í GRÍMSVÖTNUM.

YFIRBORÐSSPRUNGUR HAFA MYNDAST OFAN VIÐ KVIKUGÖNGIN OG LITLIR SIGKATLAR Í DYNGJUJÖKLI SEM BENDA TIL ÞESS AÐ KVIKA NÆR AÐ HITA YFIRBORÐIÐ, Þ.E. KVIKUGÖNGIN LIGGJA SENNILEGA GRYNNRA EN ÁÐUR VAR TALIÐ.

Það er því ekkert lát á þessum umbrotum sem enn halda áfram að koma flestum vísindamönnum í opna skjöldu.  Ef eitthvað er jákvætt að frétta síðan í gær þá er það þá helst að kvikugangurinn hefur ekki teygt sig nær Öskju en hinsvegar er enn mikil skjálftavirkni við norðurendann og ef kvikuinnstreymi í hann heldur áfram af krafti eins og verið hefur þá eru allar líkur á því að hann skríði fram.

Úr því sem komið er væri þó sennilega best að fá gos á þeim slóðum þar sem gangurinn endar nú, þ.e. á svo til auðri jörð og ekki nærri eldstöðvakerfi Öskju.  Það væri lán í óláni ef svo færi.

Það bendir margt til þess að hér sé um að ræða upphafið af meiriháttar atburðum, jafnvel miklu stærri en núlifandi kynslóðir Íslendinga hafa orðið vitni að.  Ástæðan er sú að það virðist hafa opnast svokallaður “megingangur” þ.e. kvikan kemur úr geysistórri kvikuþró mjög djúpt að eða jafnvel beint úr möttlinum en ekki kvikuhólfi eins og algengast er undir megineldstöðvum.   Slíkt er  oftar en ekki ávísun á stórgos og eru allar líkur á að flest stærstu gos Íslandssögunnar hafi orðið með þeim hætti.  Ef við setjum stórgos í samhengi við “venjuleg” gos þá komu upp um 0.3 rúmkílómetrar í gosinu í Eyjafjallajökli.   Í Eldgjárgosinu komu um 20-25 rúmkílómetrar upp og eilítið minna í Skaftáreldum. Þetta voru semsagt um 50-60 sinnum framleiðnari gos en gosið í Eyjafjallajökli 2010.

Enn hefur ekki orðið gos sem hefur náð yfirborði og meðan svo er þá er vissulega sá möguleiki fyrir hendi að kvikuinnstreymið hætti og hrinan lognist útaf á næstu dögum.  Það er þó ekkert i dag sem bendir til þess að svo fari en meðann enn ekki gýs, þá er von.

Fréttir dagsins:

mbl.is: Fyrstu ummerki um gos á yfirborði

Visir.is: Skjálfti af stærð fimm við Bárðarbungu

Ruv.is: Kvikugangur virðist færast ofar

Berggangurinn nálgast Öskju með óþekktum afleiðingum

Skjálftarnir mælast nú aðallega fyrir norðan Dyngjujökul en þeir stærstu eru samt sem áður Bárðarbunguöskjunni.
Skjálftarnir mælast nú aðallega fyrir norðan Dyngjujökul en þeir stærstu eru samt sem áður Bárðarbunguöskjunni.

.

Atburðarrásin í Bárðarbungu heldur áfram að koma á óvart og valda vísindamönnum miklum heilabrotum.  Mjög öflugur jarðskjálfti í Bárðarbunguöskjunni í nótt M 5,7 virðist ekki hafa breytt miklu um þróunina.  Berggangurinn er nú orðinn um 40 km. langur og stefnir svo að segja beint á kvikuþróna undir Öskju og vantar líklega aðeins 10-15 km. upp á það.

HVAÐ GERIST EF BERGGANGURINN HITTIR FYRIR KVIKU Í ÖSKJU?

Það gæti orðið í meira lagi áhugavert ef svo fer fram sem horfir að berggangurinn keyrir beint inn í kvikuhólfið undir Öskju.  Það eru orðin nokkur dæmi um að Bárðarbunga hafi valdið eldgosum í öðrum eldstöðvakerfum.  Sigilt dæmi er gosið í Gjálp 1996 og svo hefur kvika frá Bárðarbungu tvivegis á sögulegum tíma þrýst nógu mikið á Torfajökulskerfið til að koma þar af stað gosum.  Það var í kjölfar eða samtímis gosinu i Vatnaöldum um landnám og í Veiðivatnagosinu 1480.

Það skildi þó aldrei vera að í þau skipti hafi berggangur frá Bárðarbungu komist alveg að öskjunni undir Torfajökli?  Má efast um að mönnum hafi hreinlega dottið það í hug fyrir þá atburði sem nú eru að eiga sér stað sem gætu varpað ljósi á ýmislegt sem gerst hefur í fortíðinni.

En aftur að Öskju.  Þar hefur verið talsverður órói undanfarin ár eins og menn vita og gæti kerfið því verið enn viðhvæmara fyrir “utanaðkomandi áreiti” fyrir vikið.  Á næstu 2-3 sólarhringum gæti kvikan frá Bárðarbungu hitt fyrir kvikuna i Öskju.  Einnig er talið að svokallaðir “súrir gúlar” séu til staðar í Öskjukerfinu og er einmitt talið að basísk kvika hafi hitt fyrir súran gúl og valdið hinu feiknarlega sprengigosi sem varð í Öskju árið 1875.  Sá möguleiki skal heldur ekki útilokaður á þessari stundu.

.

UPPFÆRT 27. ÁG. KL. 11 00

Snarpir skjálftar urðu í Bárðarbunguöskjunni í nótt og tveir þeirra yfir 5 stig.  þá mældist skjálti uppá 4,2 við Öskju en það er stærsti skálfti á þeim slóðum í 22 ár.  Jarðvísindamenn hafa túlkað stóru skjálftana undir Bárðarbunguöskjunni sem svo að samfall verði í öskjunni þegar kvika streymir úr kvikuhólfinu.  Samkvæmt Haraldi Sigurðssyni eldfjallafræðingi, þá er þessi túlkun ekki rétt, enda sjáist ekki á GPS mælum að askjan sé að síga.  Hann telur skjálftana þvert á móti verða vegna kvikuinnstreymis að neðan undir öskjuna og það sem styður hans kenningu er að eftir þessa stóru skjálfta virðist virknin í enda kvikuganganna aukast sem bendir til þess að meiri kvika er að troðast þar inn í bergið og veldur skjálftum.  Þessi kenning verður að teljast afar líkleg.

Ágúst Guðmundsson prófessur við jarðvísindadeild Lundúnarháskóla er einnig með mjög áhugaverðar kenningar í viðtali við Vísi.is og Fréttablaðið í morgun.  Hann bendir réttilega á að hér sé um stóratburð að ræða og hvergi á Íslandi komi upp meira magn kviku í eldgosum en einmitt á þessu svæði.  Kvikan sem nú er á hreyfingu virðist ekki koma úr grunnstæðu kvikuhólfi heldur miklu dýpra að.  Það styður að vissu leyti einnig þá kenningu sem Haraldur setur fram. 

Þess er rétt að geta að nánast öll stærstu gos Íslandssögunnar hafa orðið eftir langa flutninga kviku í sambærilegum göngum neðanjarðar.  Eldgjárgosið á 10.öld varð eftir kvikuhlaup frá Kötlu og opnaði mjög langa sprungu á jökullausu landi norðan Mýrdalsjökuls en einnig gaus í jöklinum sjálfum.  Bárðarbunga á svo tvö þessara gosa, Vatnaöldugosið og Veiðivatnagosið, hvorutveggja stórgos með margra tuga kílómetra löngum gossprungum.  Kvikan í Lakagígagosinu kom frá Grímsvötnum einmitt i sambærilegum kvikugangi.  Það sem flækir stöðuna enn meir núna er að kvikugangurinn hefur tekið stefnuna beint á eldstöðvakerfi Öskju og er þegar farinn að valda skjálftum þar.

Best væri ef innstreymi kviku undir Bárðarbungu stöðvaðist sem allra fyrst en það er ekkert sem bendir til þess að það sé að fara að gerast.  Að öllu óbreyttu verður þjóðin að búa sig undir mögulegar hamfarir á Öskju-Bárðarbungusvæðinu.

 

Scroll to Top