Öskjusigið í Bárðarbungu rannsakað

Birta á :

Í Holuhraunsgosinu, aðdraganda þess og í kjölfarið gafst vísindamönnum sjaldgæft tækifæri til að rannsaka öskjusig meðan á því stóð.  Askjan í Bárðarbungu seig um allt að 65 metra á þeim 6 mánuðum sem gosið stóð yfir.  Öskjusig fylgir gjarnan stórgosum og í flestum íslenskum eldstöðvum eru öskjur.  Þó eru dæmi um eldfjöll sem hafa ekki enn myndað öskjur eins og t.d. Hekla, en hún mun eflaust gera það í fjarlægri framtíð.

BardarbungaStærstu eldgos Íslandssögunnar eiga það sameiginlegt að verða tugi kílómetra frá megineldstöðvum.  Þannig var um Lakagígagosið 1783, Eldgjárgosið um árið 934,  Vatnaöldugosið 870 og Veiðivatnagosið um árið 1480.  Tvö þau síðastnefndu tilheyra eldstöðvakerfi Bárðarbungu en í þau skipti hljóp kvikan til suðvesturs og komu upp sem mikil sprungugos á Veiðivatnasvæðinu.  Það verður að segjast eins og er að mikil mildi var að kvikan hljóp til norðurs í Holuhraunsgosinu en ekki til suðvesturs inná Veiðivatnasvæði þar sem margar stórar vatnsaflsvirkjanir eru staðsettar.

Í öllum þessum gosum er nær öruggt að öskjusig hefur orðið.  Eldgjárgosið átti uppruna sinn í Kötlu og askjan í Kötlu hefur eflaust sigið um tugi metra.  Eldgjárgosið er það það mesta síðan land byggðist, amk. 10 sinnum meiri kvika kom upp í því heldur en í Holuhraunsgosinu.  Lakagígagosið varð í kjölfar kvikuhlaups úr Grímsvötnum í Vatnajökli.  Þar er stór askja sem eflaust hefur sigið mikið í þeim hamförum.

Það virðist hafa verið regla að stórgos verður í eldstöðvakerfi Bárðarbungu á um 5-700 ára fresti.  Um 600 ár líða frá Vatnaöldugosinu um 870 að Veiðivatnagosinu 1480 og svo 535 ár að Holuhraunsgosinu.  Þrátt fyrir að þau umbrot séu etv. ekki að fullu yfirstaðin þá verður að telja afar ólíklegt að annað gos af þessari stærðargráðu verði í þessari hrinu en minniháttar gos gætu vel orðið á næstu árum og þá líklegast undir jökli.

Hér má sjá grein um rannsóknina á öskjusiginu inná vef Veðurstofunnar.

 

Scroll to Top