Við áramót: Tíðindalitlu ári að ljúka

Birta á :

Nú þegar árið 2012  er að baki er ekki úr vegi að fara lauslega yfir helstu atburði nýliðins árs hvað jarðrask varðar.  Ekkert eldgos varð á árinu og í heild var það fremur tíðindalítið á jarðfræðisviðinu.  Stærsti atburðurinn var tvímælalaust jarðskjálftahrinan í Eyjafjarðarál á haustmánuðum sem var kröftug og langvarandi en olli ekki teljanlegu tjóni.  Um tíma var óttast að hrinan kæmi af stað stórum skjálftum á Tjörnesbrotabeltinu en svo varð ekki.

Snarpir skjálftar í Bláfjöllum í lok ágúst ollu áhyggjum á höfuðborgarsvæðinu enda urðu þeir á svæði þar sem oft hefur gosið.  Hrinan hélst með hléum fram í október og er enn ein umbrotahrinan á Reykjanesskaganum sem segir okkur að þar gæti verið stutt í stóratburði.  Fyrr á árinu urðu nokkuð snarpir skjálftar við Krísuvík og í nágrenni Hafnarfjarðar.

Af öðrum eldstöðvum sem minntu á sig með skjálftum var að sjálfsögðu Katla með hefðbundna haustskjálfta en þó var eldstöðin rólegri en hún  hefur verið undanfarin ár.  Lengi hefur verið spáð og búist við gosi í Kötlu en hún ætlar enn að láta bíða eftir sér.

Af og til urðu skjálftar í og við Bárðarbungu eins og undanfarin ár án þess að það drægi til frekari tíðinda.

Hvað gerist árið 2013 ?

Það veit auðvitað enginn en að mati okkar eru þrjár eldstöðvar eða svæði hvað líklegust.  Það eru sem fyrr Katla enda hvíldin orðin óvenjulöng í eldstöðinni auk þess sem virkni undanfarinna ára bendir til þess að óðum styttist í gos.  Hekla er einnig líkleg hvenær sem er.  Þriðja svæðið er svo Reykjanesskaginn og þá helst í grennd við Krísuvík.  Síendurteknar jarðskjálftahrinur og landris á svæðinu bendir til þess að þar er kvika að safnast fyrir sem fyrr eða síðar finnur sér leið upp á yfirborðið.

Eldgos.is óskar lesendum gleðilegs árs.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top