SKJÁLFTAR Í KÖTLU

Birta á :

KatlaUpp úr kl. 17 í dag urðu nokkuð snarpir jarðskjálftar í Kötlu samkvæmt vöktunarkerfi Veðurstofu Íslands.  Stærsti skjálftinn hefur mælst um 3,8 á Richter (Virist við yfirferð hafa lækkað í 3,1)og eru upptökin svo að segja í miðri Kötluöskjunni en þó einnig norðvestan og vestan megin við öskjuna.  Enn er of snemmt að segja hvað þetta boðar og ekki er að sjá gosóróa á mælum.

Katla gaus síðast árið 1918 og er goshlé því orðið mun lengra en vanalegt er á sögulegum tíma en að jafnaði hefur Katla gosið tvisvar á öld.  Einnig hefur Katla gjarnan gosið í kjölfar umbrota í Eyjafjallajökli en hún var hin rólegasta meðan á því gosi stóð og þar til nú.

Skjálftahrina í Langjökli

Birta á :

Um 20 skjálftar hafa mælst í suðvestur- horni Langjökuls í morgun, flestir á bilinu 1-2 á Richter en þeir stærstu um 2.6 samkvæmt vef Veðurstofu Íslands.  Síðast varð svipuð hrina um miðjan febrúar á sömu slóðum en nokkur óróleiki hefur verið í Langjökulskerfinu undanfarin misseri.  það þarf þó ekkert að vera óvanalegt því skjálftahrinur eru algengar á þessum slóðum.  Eldgos hefur ekki orðið á þessum slóðum síðan um árið 900 þegar Hallmundarhraun rann.  Meðfylgjandi mynd sem sýnir upptök skjálftanna í morgun er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálftar í Kötlu

Birta á :

Skjálfti sem mældist 3.1 á Richter varð í Kötlu í Mýrdalsjökli kl. 18:53 í gærkvöldi og annar um 2.3. Samkvæmt frétt á mbl.is mældust þeir mjög grunnt og því jafnvel talið að um hrunskjálfta sé að ræða af völdum íshruns fremur en eiginlega jarðskjálfta.  Eru upptökin í norðaustanverðri öskjunni.  Enginn órói er á mælum og fátt sem bendir til einhverra atburða í Kötlu á næstunni. Hefur Katla reyndar verið mjög róleg frá goslokum í Eyjafjallajökli og látið öðrum eldfjöllum eftir athyglina eins og allir vita.

Gosinu að ljúka

Birta á :

Nú að morgni miðvikudags 25.maí virðist eldgosinu í Grímsvötnum vera lokið eða í þann mund að ljúka.  Aðeins gufubólstrar stíga nú upp frá eldstöðinni.  Þetta var því stutt en mjög öflugt gos að því gefnu að því sé lokið.  Þó er ekki hægt að útiloka að það taki sig upp aftur en varla af þeim krafti sem var í gosinu um helgina.

STÓRGOS Í GRÍMSVÖTNUMÖSKUFALL MJÖG VÍÐA

Birta á :

Eldgosið sem nú stendur yfir í Grímsvötnum er stórgos og eitt af öflugustu eldgosum sem hér hafa orðið  í yfir 100 ár.

Krafturinn í gosinu var þegar hann var mestur áætlaður 10-20 sinnum meiri en krafturinn í gosinu í Eyjafjallajökli fyrir rúmu ári síðan.  Er þá miðað við áætlað gosefnamagn sem eldstöðin lætur frá sér á tilteknu tímabili.  Má ætla að aðeins Kötlugosið 1918 og Heklugosið 1947 séu sambærileg við þetta gos hvað sprengikraft varðar sé litið til gosa á þessari öld og síðustu.   Gosmökkurinn náði um tíma 20 kílómetra hæð sem er mesta hæð sem gosmökkur hefur náð síðan í upphafi Heklugossins 1947.  Gríðarlegur fjöldi eldinga hefur mælst í gosmökknum, yfir 2000 á klukkustund þegar mest var í nótt.  Hér hefur Veðurstofan sett upp vefsvæði sem sýnir tíðni eldinga yfir gosstöðvunum.   Athyglisvert er að fylgjast með gosóróanum á mælum Veðurstofunnar.  Á kortinu er smellt á punktinn á vestanverðum Vatnajökli en þar eru Grímsvötn.

Þrátt fyrir að rúmur sólarhringur sé liðinn frá því gosið hófst þá hefur ekki tekist að komast nærri gosstöðvunum en ca 30 km. og því ekki enn  vitað nákvæmlega hve löng gossprungan er en það getur skipt nokkru máli upp á hugsanlegt hlaup.  Þó er ekki talið að stórhlaup sé yfirvofandi því stutt er síðan hljóp úr Grímsvötnum og því ekki mikið vatnsmagn í þeim.

Gos í Grímsvötnum eru venjulega öflugust í upphafi en svo dregur úr þeim og yfirleitt standa þau ekki lengi yfir.  Hitt verður þó að athuga að þetta gos er gríðarlega öflugt og gæti því staðið lengur fyrir vikið.  Í flestum tilvikum eru Grímsvatnagos tiltölulega saklaus og lítil en það á svo sannarlega ekki við nú.   Einnig verður forvitnilegt að sjá hvaða breytingar verða á eldstöðinni í kjölfar gossins því stærð þess er þess eðlis að það gæti breytt landslagi við Grímsvötn og þeirri hefðbundnu rútínu sem Grímsvatnahlaup hafa verið í.  Mjög öflug gos geta einnig valdið landsigi undir eldstöðinni (öskjumyndun) en ekkert bendir þó til þess að það sé að eiga sér stað nú.

Öskufall hefur orðið mjög víða um landið, mest þó sunnan og suðaustan lands.  Undir kvöld lagði mökkinn vestur og náði höfuðborgarsvæðinu um kvöldmatarleytið.  Myndirnar hér að neðan voru teknar á suðurlandi í dag.

Hér er Youtube videó tekið skömmu eftir gosbyrjun

httpv://www.youtube.com/watch?v=oMStcqHfwQ4

Scroll to Top