Hlaup undan Köldukvíslarjökli

Birta á :

Í gær og í nótt varð lítið jökulhlaup undan Köldukvíslarjökli sem er í vestanverðum Vatnajökli á milli Hamarsins og Bárðarbungu.  Það er skammt á milli atburða þessar vikurnar og virðast eldstöðvar á Suður og Suðausturlandi með allra líflegasta móti.  Að öllum líkindum var það jarðhiti sem olli þessu hlaupi en þessi “hlaupleið” er þó fremur fátíð því ekki er vitað um mikilvirk jarðhitasvæði á þesum slóðum.  Hlaupið kom greinilega fram á óróamælum Veðurstofunnar í grennd við Vestanverðan Vatnajökul og því var augljóst að eitthvað var um að vera á þeim slóðum.  Hlaupið olli ekki neinum skaða.  Það fór beint í Hágöngulón og fyllti það sem kemur sér reyndar ágætulega fyrir vatnsbúskap Landsvirkjunar svo framarlega sem ekki verða meiri atburðir þarna.

Þetta er enn einn atburðurinn í langri röð atvika í Bárðarbungueldstöðinn sem bendir til þess að Bárðarbunga sé að hitna og búa sig undir gos.  Jarðskjálftar hafa verið mjög tíðir undanfarin ár og reyndar áratugi í sprungureinum Bárðarbungu, norðan við hana, í henni sjálfri og einnig sunnan við hana þ.e. í grennd við Hamarinn sem einnig er megineldstöð í Bárðarbungukerfinu.

Uppfært kl. 00 45

Hlaupið kom niður farveg árinnar Sveðju en ekki Köldukvísl eins og áður var talið og kemur það úr háhitasvæði nálægt Hamrinum sem ekki var vitað um áður.  Kom þetta fram í fréttum RÚV í kvöld.  Hlaupið var nokkru stærra en hlaupið sem varð í Múlakvísl fyrir nokkrum dögum.

Árið 1996 kom stór jarðskjálfti í Bárðarbungu, 5 á Richter af stað eldgosi undir jökli á milli Bárðarbungu og Grímsvatna.  Gosefnin tilheyrðu Grímsvatnakerfinu og því hefur þetta gos verið flokkað sem Grímsvatnagos.

Eins og fram kemur í umfjöllun okkar um Bárðarbungu þá er þetta ein öflugasta eldstöð landsins og verða öflugar goshrinur í kerfinu á nokkur hundruð ára fresti.  Ekki er talið að gosið hafi þar síðan Tröllahraun rann á árunum 1862-4 á jökullausu svæði norðan Vatnajökuls.  Mjög öflug hrina gekk yfir árin 1477-1480 með stórgosum bæði í jöklinum og á Veiðivatnasvæðinu.  Ljóst er að slík hrina mundi valda gríðarlegu tjóni gengi hún yfir í dag.  Einnig varð öflug hrina skömmu eftir Landnám á svipuðum slóðum og myndaði Landnámslagið svokallaða sem er tvílitt gjóskulag því á sama tíma varð gos í Torfajökulskerfinu en þau fylgja gjarnan stórgosum á Veiðivatnasvæðinu.  Þá eru einnig ummerki um mikil hamfarahlaup úr Norðvestanverðum Vatnajökli sem rekja má til Bárðarbungu og /eða Kverkfjalla.

Bárðarbunga gæti svosem tekið sér nokkra áratugi í viðbót í að undirbúa gos og ekki er víst að um stóran atburð verði að ræða en eldstöðin á sér langa sögu um hamfaragos og því er allur varinn góður.

Hlaup í Múlakvísl — Hræringar í Kötlu

Birta á :

Hlaup hófst í Múlakvísl sem rennur undan Mýrdalsjökli í gærkvöldi.  Talið er að mjög aukinn jarðhiti valdi hlaupinu.  Nú undir morgun var búið að loka þjóðvegi eitt þar sem vatn var tekið að flæða yfir brúna á Múlakvísl.  Samkvæmt fréttum RÚV hafa verið hræringar í Mýrdalsjökli í nótt og órói mælst á mælum allt vestur í Grafning.  Ekki er þó talið að um gosóróa sé að ræða.  Svipuð hlaup áttu sér stað 1955 og 1999 í Múlakvísl og í fyrra skiptið var talið að smágos hafi orðið undir jökli en ekki náð upp á yfirborðið.

Lengi hefur verið búist við gosi í Kötlu en síðast gaus í fjallinu árið 1918.  Hér má sjá umfjöllun um Kötlu.

UPPFÆRT KL. 07 25

HUGSANLEGT AÐ LÍTIÐ GOS SÉ HAFIÐ Í KÖTLU

Samkvæmt mbl.is gæti lítið gos verið í gangi í Kötlu enda bendir órói á mælum til þess.  Þetta gos er þó mjög lítið og allt eins víst að það nái ekki upp úr jökli sem er mjög þykkur á þessum slóðum.  Samskonar atburður átti sér líklega stað 1955 en þá voru mælitæki ekki jafn fullkomin og nú.

UPPFÆRT KL. 2045

Allar líkur eru á að lítið gos hafi orðið í suðaustur horni Kötluöskjunnar í nótt en það hafi ekki náð uppúr ísnum sem er allt að 700 metra þykkur í Kötluöskjunni.  Þetta er því mjög svipaður atburður og átti sér stað árið 1955 en þá varð að öllum líkindum smágos í norðurenda öskjunnar.   Barmar sigkatlanna sem mynduðust í jöklinum í nótt eru allt að 50 metra háir og verður að telja mjög ólíklegt að jarðhiti einn og sér valdi svo snöggri og mikilli bráðnun.  Líklega hefur minniháttar kvikuinnskot náð til yfirborðs undir jöklinum.

Þetta gæti verið einskonar “forgos” líkt og á Fimmvörðuhálsi í fyrravor en þetta gæti líka verið stakur atburður.  Hinsvegar hafa verið hræringar í Kötlu undanfarnar vikur, margir smáskjálftar sem bendir til þess að hreyfing sé að eiga sér stað í kvikuhólfinu.  Framhaldið er óljóst en fjallið er vel vaktað.  Snarpir jarðskjálftar ca 4-5 ár Richter eru að jafnaði undanfarar venjulegs Kötlugoss og þeir færu ekki framhjá neinum.

Brúin yfir Múlakvísl sópaðist í burtu í hamförunum sem þó eru aðeins örlítið sýnishorn af Kötluhlaupi eins og þau eru þegar um meiriháttar gos er að ræða.  Hér að neðan er youtube videó sem sýnir skemmdir og jakahröngl á þjóðvegi eitt eftir hlaupið.

httpv://www.youtube.com/watch?v=oMTTyztwKpg&feature=player_embedded

Hekla að undirbúa gos?

Birta á :

HeklaSamkvæmt fréttum RÚV nú í kvöld þá hafa hreyfingar komið fram undanfarna sólarhringa á mælum í nágrenni Heklu sem benda til kvikuhreyfinga.  Vitað er að kvika hefur verið að safnast fyrir undir fjallinu frá síðasta gosi fyrir rúmum 11 árum.  Heklugos gera yfirleitt ekki mikil boð á undan sér, skjálftahrina hófst aðeins einum og hálfum klukkutíma fyrir síðasta gos.  Menn verða því að vera á tánum því á þessum árstíma eru venjulega margir ferðamenn í nágrenni fjallsins.

Varla þarf að búast við neinu stórgosi í Heklu i þetta skiptið enda stutt liðið frá síðasta gosi.  Þó hafa bæði Eyjafjallajökull og Grímsvötn komið á óvart með kröftugum gosum þannig að það er óvarlegt að útiloka öflugt gos.

Volcano House opnað í Reykjavík

Birta á :

Í maí var opnað að Tryggvagötu 11 í Reykjavik Volcano House eða eldgosahúsið.  Fyrir áhugafólk um eldgos og jarðfræði yfirhöfuð er þetta mjög áhugavert framtak.  Þar eru til sýnis hraun- og gjallsýni  frá ýmsum gosum, einstakar myndir, einstakir steinar úr Íslenskri náttúru svo eitthvað sé nefnt.  Þá er boðið uppá kvikmyndasýningar á klukkutíma fresti frá gosunum í Vestmannaeyjum og Eyjafjallajökli.  Kaffihús er á staðnum og tilvalið að fá sér kaffi og “meðþví” meðan Volcano House er skoðað.  Eldgos.is leit við á Volcano House og mælir eindregið með heimsókn þangað!

Volcano House Volcano House Volcano House

Skjálftahrina á ný í Langjökli

Birta á :

Skjálftahrina hófst í Langjökli laust eftir miðnætti s.l. nótt og stendur enn.  Stærsti skjálftinn mældist 3,2 á Richter samkvæmt sjálfvirkum mælingum veðurstofunnar.  Flestir skálftarnir eru á 6-13 km. dýpi.  Þessi hrina er nánast á sama stað og hrinan sem varð þann 7. júní.  Jarðskjálftar eru algengir í suðvestur- horni Langjökuls og geta orið nokkuð öflugir.  Ekkert bendir til þess að skjálftarnir séu undanfari eldgoss.

Scroll to Top