Enn mikil jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu

Birta á :
Myndin er fengin á skjálftavefsjá á vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna. Nýjustu skjálftarnir eru rauðir punktar.

Alls hafa um 1200 jarðskjálftar mælst í og við Bárðarbungu siðustu 2 sólarhringa.  Stærsti skjálftinn hingað til M 3,8 varð kl. 02 37 í nótt skammt NA af Kistufelli.  Meðfylgjandi mynd sýnir tvær þyrpingar þar sem skjálftarnir eiga upptök og virðist virknin NA megin ,þ.e. í grennd við Kistufell, vera að minnka þó svo að stærstu skjálftarnir hafa flestir átt upptök sín þar.  Einhver virkni er þar þó enn eins og skjálftinn í nótt staðfestir.

Hinsvegar er virknin í austari þyrpingunni enn mikil.  Kvikan virðist komin að austurmörkum Bárðarbungukerfisins og spurning hvort hún sé með einhverju móti að þrýsta á Kverkfjallakerfið enda hafa orðið skálftar þar í þessari hrinu.  Þó margt sé vitað um Bárðarbungu þá hafa menn ekki vel rannsökuð gos i kerfinu til að styðjast við nema gosið í Gjálp 1996 sem reyndar var “samkrull” Bárðarbungu og Grimsvatna.  Virknin nú er með allt öðrum hætti.

HVAÐ GETUR GERST NÆST?

Nokkrir möguleikar eru í stöðunni og hér verður farið lauslega yfir þá.

1.  virknin stöðvast, innskotin storkna í jörðu.  Þetta segja sumir jarðvísindamenn að sé líklegast í stöðunni.  Vissulega höfum við mörg dæmi um innskot sem aldrei ná til yfirborðs, þannig innskot urðu i Eyjafjallajökli um 15 árum áður en það gaus og aftur þegar nær dró gosi.  Einnig hefur slíkt gerst í Kötlu og vitaskuld margoft í Kröflueldunum 1975-1984.  Hinsvegar virðist þessi innskotavirkni afar öflug og gerist í tveim þyrpingum í kerfinu.  Það má því ætla að mikið magn kviku geti verið á hreyfingu sem eykur líkur á gosi.

2.  Gos norðaustur af Bárðarbungu, við mörk jökulsins.  Besta mögulega niðurstaða ef gos verður á annað borð er að fá það á íslausu svæði norðan við jökulinn.  Þá yrði væntanlega um sprungugos að ræða víðsfjarri allri byggð og skaði enginn.  Etv. eitthvert öskufall meðan eldurinn væri að éta upp grunnvatnið eftir það lítið.  Hinsvegar ef sprungan nær inná jökulinn þá höfum við sprengi eða þeytigos með tilheyrandi öskufalli en þykkt jökulsins ræður þó miklu um hve mikið vatn kvikan nær í til að framleiða gjósku.

3.  Gos austan til í kerfinu undir þykkum jökli.  Þar hefðum við sprengigos undir jökli með tilheyrandi öskufalli og jökulhlaupi að öllum líkindum á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum.  Mjög stórt gos á þessu svæði mundi valda hamfaraflóði.  Þegar þetta er ritað er mesta virknin á þessu svæði og engan veginn hægt að útiloka gos á þessum stað á næstu sólarhringum.

4. Kvikuhlaup til suðvesturs og gos í sprungusveimi Veiðivatna.   “Worst case scenario”  á lélegri íslensku og sem betur fer afar ólíklegt i stöðunni núna því engin virkni er sjáanleg í suðvesturhluta öskjunnar og reininni sem liggur til Veiðivatna.  Þetta svæði tilheyrir hinsvegar Bárðarbungukerfinu.  Það má því segja að eins og staðan er núna þá má þakka fyrir að virknin sé norðan og austan til í kerfinu þvi ekki viljum við gos á svæði þar sem flestar okkar virkjanir eru staðsettar.

Þess má geta að Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur er með mjög góða vísindalega greiningu á Bárðarbungueldstöðinni á bloggi sínu.

UPPFÆRT KL 13 30

Veðurstofan telur nú auknar líkur á gosi og hefur hækkað viðbúnaðarstig fyrir flugmálayfirvöld úr gulu í appelsínugult.  Kvika virðist vera að leita til yfirborðs á tveimur stöðum.

Ekki er gengið svo langt að fullyrða að gos sé í vændum en þróunin er öll í þá átt þessa stundina.

Myndin sýnir skjálfta síðustu 2 sólarhringa.  Rauðu punktarnir eru nyjustu skjálftarnir.  Heimild: Veðurstofa Íslands
Myndin sýnir skjálfta síðustu 2 sólarhringa. Rauðu punktarnir eru nyjustu skjálftarnir. Heimild: Veðurstofa Íslands

UPPFÆRT 19.ágúst kl. 07

Enn er mikil virkni við austur- þyrpinguna og skjálftarnir færast enn fram á Dyngjujökul og eru enn flestir á 3-7 km dýpi og styrkleikinn 1-1,5.  Virknin við Kistufell virðist hafa stöðvast, m.ö.o. þar virðist ekki vera meiri kvika á hreyfingu.

Viðbúnaðarstig Veðurstofu er óbreytt hvað flug varðar og enn er óvissustig í gildi hjá Almannavörnum.

Hvað sem gerist þá er mjög óvenjulegt að sjá svona stöðuga virkni sólarhringum saman þar sem kvika ferðast tugi kílómetra svo að segja lárétt neðanjarðar.  Því lengra sem kvikan heldur í norðaustur átt eftir Dyngjujökli, því betra því jökullinn þynnist eftir því sem norðar dregur.

Hvort sem gýs nú eða ekki þá er alveg ljóst að óróleikatímabil er hafið í Bárðarbungu þar sem við munum sjá nokkur, jafnvel allmörg gos á svæðinu næstu áratugi.  Hér er skemmtileg grafísk mynd sem sýnir þróunina síðustu sólarhringa á svæðinu.

 

ÓVISSUSTIG VEGNA BÁRÐARBUNGU- LÍKLEGA KVIKUINNSKOT- HUNDRUÐ SMÁSKJÁLFTA

Birta á :
Upptök jarðskjálfta í Bárðarbungu síðasta sólarhring.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands
Upptök jarðskjálfta í Bárðarbungu síðasta sólarhring. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

Frá því um kl.4 í nótt hafa vel á þriðja hundrað jarðskjálftar orðið í Bárðarbungu.  Flestir eru þeir smáir, aðeins 2 yfir M 3 en það er ekki áhyggjuefnið, heldur fjöldi þeirra og að kvikuhreyfingar virðast vera orsök þeirra.   Oft hefur skolfið í og við Bárðarbungu á undanförnum árum en ekki á þann hátt sem eldstöðin hegðar sér núna.  Það hafa verið færri og oft stærri skjálftar en þessi hrina sem nú er í gangi samanstendur af miklum fjölda smáskjálfta á ca 4-7 km. dýpi

Upptakasvæðin virðast vera tvö, annars vegar 5-12 km ASA af hátindi Bárðarbungu og hinsvegar á línu 10-15 km ANA af hátindinum.  Gæti þetta bent til tveggja kvikuinnskota á svæðinu.   Kvikuinnskot þýðir sem betur fer ekki nærri alltaf eldgos, hér er um að ræða skot úr kvikuhólfu fjallsins í átt að yfirborði, nái kvikan yfirborði mundi eiga sér stað bráðnun jökulsins og jökulhlaup og í kjölfarið eldgos ef  kvikan nær að bræða ísinn yfir eldstöðinni.  Þess ber að geta að jökullinn í og yfir Bárðarbunguöskjunni er allt að 700 metra þykkur.

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna atburðanna.  Hættustigi verður lýst yfir vísbendingar benda til þess að gos sé að hefjast og neyðarstig ef eldgos er hafið.

Lýsingu eldgos.is á Bárðarbungueldstöðinni er að finna hér

Fréttir fjölmiðla um atburðina í Bárðarbungu:

Mbl.is :  Óvissustig vegna Bárðarbungu

Visir.is: Eitt öflugasta og hættulegasta eldfjall Íslands

Hér er mynd fengin af skjálftavefsjá Veðurstofunnar og greinir upptökinn betur.  Sjást hér tvö meginupptakasvæði.
Hér er mynd fengin af skjálftavefsjá Veðurstofunnar og greinir upptökinn betur. Sjást hér tvö meginupptakasvæði.

Ruv.is: Almannavarnir fylgjast grannt með

 

Gríðarstórt berghlaup féll í Öskjuvatn

Birta á :
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.  Jara Fatíma Brynjólfsdóttir tók myndina.   Ljósi flekkurinn sem þarna sést er laust efni sem skolaðist í vatnið með skriðunni.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands. Jara Fatíma Brynjólfsdóttir tók myndina.
Ljósi flekkurinn sem þarna sést er laust efni sem skolaðist í vatnið með skriðunni.

Óhemjustór skriða féll ofan í Öskjuvatn í fyrrakvöld.  Er talið að um 24 milljónir rúmmetra af efni hafi fallið í vatnið suðaustantil og skapað flóðbylgjur sem slettust allt að 50 metra upp á hamraveggina umhverfis vatnið.  Náði vatn meira að segja að komast yfir haftið á milli Öskju og gígsins Víti.  Varla þarf að spyrja að leikslokum hefði einhver verið niður við vatnið þegar þetta átti sér stað en til allrar hamingju var enginn á svæðinu.  Yfirborð Öskjuvatns er nú tveim metrum hærra en fyrir berghlaupið.

Svo miklar voru hamfarirnar að óróapúls kom fram á jarðskjálftamælum í um 20 mínútur eftir atburðinn og ljós mökkur steig til himins.

Talið er að mikil hlýindi og snjóbráð að undanförnu hafi komið skriðunni af stað.  Öskjuvatn myndaðist eftir stórgos árið 1875 og því er landslagið þarna mjög ungt og rof-og mótunaröfl í fullum gangi á svæðinu.  Þessi atburður sem slíkur hefur ekkert með eldvirkni að gera né þann óróa og jarðskjálftahrinur sem átt hafa sér stað á svæðinu undanfarin ár.

Fréttir í fjölmiðlum um atburðinn:

RUV:  Mikið rof í jarðlögum við Öskju

Visir.is: Flóðbylgjan náði inn í Víti

Mbl.is: Stór skriða féll í Öskjuvatn

Mbl.is: “Bráðabani” að fara niður að vatninu

Jarðskjálftar í Kötluöskjunni – Hlaupvatn í ám

Birta á :
Skjálftar í Kötlu undanfarna sólarhringa.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar í Kötlu undanfarna sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna óróa í Mýrdalsjökli.  Síðastliðna viku hafa mælst fjölmargir grunnir jarðskjálftar austarlega í Kötluöskjunni og nú hefur orðið vart við aukna leiðni og hlaupvatn i ám sem renna frá jöklinum, þ.e. Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl.

Það er þó ekkert sem bendir til þess að Kötlugos sé í aðsigi, skjálftarnir tengjast nær örugglega jarðhitakerfum i jöklinum og einnig hlaupvatnið.  Veðurfarslegar ástæður eru því líklegri heldur en að kvika sé að stíga upp en þegar Katla á í hlut þá er fylgst sérlega vel með og gefnar út tilkynningar um leið og eitthvað breytist.   Skjálftavirkni eykst að jafnaði um mitt sumar í Kötlu og helst fram á haust.  Virknin núna er eitthvað meiri en á sama tima undanfarin ár.

Sumarið 2011 varð eins og menn muna talsvert hlaup í Múlakvísl sem olli tjóni  á þjóðveginum auk þess að gjöreyðileggja brú yfir ána.  Bráðabirgðabrú var reist á nokkrum dögum og svo vill til að nýbúið er að hleypa umferð á nýja fullgerða brú yfir ána.  Eins og staðan er núna ætti hún þó ekki að vera í hættu.

Fréttir um óróann i Kötlu:

Rúv: Vísindamenn fylgjast grannt með Kötlu

Vísir.is: Órói í Kötlu bræðir hlaupvatn í jökulár

Mbl.is: Óvissustig vegna jökulhlaups

DV.is: Leiðsögumaður:”Það er venjulega ekkert vatn á þessu svæði”

 

 

 

Bárðarbunga skelfur

Birta á :
Skjálftar norðaustur af Bárðarbungu undanfarna sólarhringa.  Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar norðaustur af Bárðarbungu undanfarna sólarhringa. Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálfti upp á M 3,7 varð við Kistufell skammt norðaustur af Bárðarbungu um kl. 14 40 í dag.  Þarna hefur reyndar skolfið alla vikuna en skjálftinn í dag var sá stærsti í þessari hrinu hingað til.  Skjálftar á þessu svæði eru algengir og hafa jarðskjálftahrinur gengið yfir á þessum slóðum að jafnaði tvisvar á ári undanfarin ár.

Skjálftarnir tengjast Bárðarbungueldstöðinni en ýmislegt bendir til þess að það sé farið að styttast í það að þetta mikla eldfjall fari að minna á sig.

Eftir mjög rólega tíð þá hafa verið nokkrar skjálftahrinur í gangi undanfarna viku á og við landið.

Frétt mbl.is af skjálftanum

Scroll to Top